Í Dómkirkjunni Frá æfingu hljómsveitarinnar Apparat Organ Quartet og Dómkórsins í liðinni viku.
Í Dómkirkjunni Frá æfingu hljómsveitarinnar Apparat Organ Quartet og Dómkórsins í liðinni viku. — Ljósmynd/Karl Petersson
Apparat Organ Quartet og Dómkórinn flytja klassíska ópusa, ný verk og rafmagnaða sálma á tónleikunum „Af himnum ofan“ í Dómkirkjunni föstudaginn 2. febrúar og hefjast tónleikarnir klukkan 21

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Apparat Organ Quartet og Dómkórinn flytja klassíska ópusa, ný verk og rafmagnaða sálma á tónleikunum „Af himnum ofan“ í Dómkirkjunni föstudaginn 2. febrúar og hefjast tónleikarnir klukkan 21. „Þessi blanda af tónlist verður góð hreinsun og nærandi og við bjóðum upp á skynsaman og heilbrigðan valkost við sollinn,“ segir Úlfur Eldjárn talsmaður Apparats. „Þarna mætast tveir heimar.“

Tónleikarnir voru fyrirhugaðir fyrir ári en þá varð að fresta þeim vegna óviðráðanlegra aðstæðna. Félagarnir Guðmundur Sigurðsson, organisti í Dómkirkjunni, og Hörður Bragason, orgelleikari í Apparat og fyrrverandi organisti í Grafarvogskirkju, hafa í mörg ár átt sér þann draum að setja saman efnisskrá með bandinu og einhverjum kór, að sögn Guðmundar. „Það er líka mjög spennandi að vinna með rytmíska raftónlist með kór,“ segir hann. „Þetta er svona orgelkórahugsun.“

Ný vídd

Dómkórinn á sér langa og merka sögu og er í raun elsti kór landsins, staðhæfir Guðmundur. „Pétur Guðjohnsen, fyrsti organistinn í kirkjunni, stofnaði Kór Lærða skólans, fyrsta sönghóp landsins, um miðja 19. öld.“ Blandaður kór hafi fylgt í kjölfar kórs skólapiltanna og með honum. „Blandaði kórinn frumflutti þjóðsönginn í Dómkirkjunni 1874.“

Verkefni kórsins hafa verið fjölbreytt og starfið þróttmikið. „Hann hefur flutt stór verk og smá í ýmsum myndum heima og erlendis,“ segir Guðmundur. Í kórnum eru um 50 manns en þar af taka 30 til 40 þátt í þessu verkefni.

Í Apparat eru Hörður Bragason, Sighvatur Ómar Kristinsson og Úlfur Eldjárn, sem leika á misrafmögnuð orgel og hljóðgervla, og Arnar Geir Ómarsson, sem spilar á trommur. „Það er ekki á hverjum degi sem trommusetti er stillt upp í miðri Dómkirkjunni,“ segir Úlfur.

„Þetta er alveg ný vídd fyrir okkur,“ heldur Úlfur áfram í spjalli um tónleikana. Hann bendir á að bandið, sem var stofnað 1999, hafi samt tengingu við kirkjuna. „Eitt af okkar stóru giggum var þegar við vorum fengnir til að spila á 1.000 ára afmæli kristnitöku á Íslandi á Þingvöllum árið 2000 og nú höfum við tengt okkur aðeins við þann tíma, dustað rykið af sálmunum.“ Þeir hafi meðal annars útsett sálm sérstaklega fyrir afmælið og flytji hann aftur núna.

Á tónleikunum kallast rafmögnuð tónlist Apparatsins á við sálmasöng Dómkórsins. Fyrst flytur kórinn klassíska og nýja sálma, síðan tekur Apparat við með ný og gömul Apparatslög og í lokin syngur kórinn nokkur lög með orgelkvartettinum. Miðasala er á netinu (tix.is).