Kristján Sigurður Jónsson fæddist 2. desember 1939. Hann lést 30. desember 2023. Útför hans fór fram 17. janúar 2024.

Elsku afi.

Við afi Stjáni áttum einstakt samband sem reyndist mér afar vel þegar ég var ungur drengur. Afi var mikill íþróttamaður, íþróttaáhugamaður og félagsmálafrömuður. Hann var virkur innan UMFS og HSK, var hann um tíma formaður knattspyrnudeildarinnar og síðar formaður HSK. Hann var knattspyrnudómari til fjölda ára og er það mér afar dýrmætt að hann færði mér dómaraflautuna sína að gjöf þegar ég var ungur drengur og hann hafði lagt flautuna á hilluna.

Þegar ég var sjálfur að æfa keppnisíþróttir þá kom hann gjarnan að horfa á mig keppa uppi á Selfossvelli og eftir leiki átti hann það til að fara með mér út í garð heima hjá sér til þess að fara yfir það hvað mátti betur fara ásamt því að leika sér margoft í fótbolta við okkur frændurna.

Mér er það sérstaklega minnisstætt hvað við horfðum oft á íþróttir saman og á ég mjög sterka minningu um næturáhorf á úrslitaeinvígi Chicago Bulls og Phoenix Suns árið 1993, þar kepptumst við afi við að halda hvor öðrum vakandi við það að horfa á Michael Jordan sýna snilli sína.

Þegar ég fylgist með strákunum mínum í íþróttum og leik þá verður mér hugsað til afa og tek það mér til fyrirmyndar að vera eins og hann var; leika við þá og muna í leiðinni að maður er aldrei of gamall til þess að leika sér og að lífinu má ekki taka of alvarlega. Það á að vera gaman.

Hversvegna er leiknum lokið?

Ég leita en finn ekki svar.

Ég finn hjá mér þörf til að þakka

þetta sem eitt sinn var.

(Starri í Garði)

Brynjar Bergsteinsson.