Rafmagnsleysi hefur angrað íbúa höfuðborgarsvæðisins á undanförnum dögum en í gær varð rafmagnslaust um tíma við Háaleitisbraut og nágrenni. Rafmagni sló út klukkan 16.24 en það var aftur komið á kl

Rafmagnsleysi hefur angrað íbúa höfuðborgarsvæðisins á undanförnum dögum en í gær varð rafmagnslaust um tíma við Háaleitisbraut og nágrenni. Rafmagni sló út klukkan 16.24 en það var aftur komið á kl. 17.42.

Þurfti lögregla að stýra umferð á gatnamótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar, en umferðarljós voru víða óvirk.

„Þetta var háspennubilun út frá aðveitustöð A4, sem gerði dreifistöðvar spennulausar,“ sagði Rún Ingvarsdóttir, upplýsingafulltrúi Veitna, við mbl.is.

Þetta er þriðja tilfellið á síðustu dögum þar sem verður rafmagnsleysi í höfuðborginni. Síðdegis á fimmtudaginn fór rafmagnið víða af á höfuðborgarsvæðinu í 20 mínútur og á föstudaginn fór rafmagnið af í Skerjafirði og í nágrenni við Reykjavíkurflugvöllinn í rúman klukkutíma. Í báðum tilfellum var um háspennubilun að ræða.

Þá varð rafmagnslaust í hluta Hafnarfjarðar í tæpar tvær klukkustundir í gærmorgun þegar upp kom bilun í jarðstreng við Öldugötu. gummih@mbl.is