Stoð Hugað að eggjunum í verksmiðju Nóa Siríusar. Óþarfar kvaðir minnka rekstrarhæfni íslensks iðnaðar.
Stoð Hugað að eggjunum í verksmiðju Nóa Siríusar. Óþarfar kvaðir minnka rekstrarhæfni íslensks iðnaðar. — Morgunblaðið/Styrmir Kári
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðtal Ásgeir Ingvarsson ai@mbl.is Samtök iðnaðarins efndu til ráðstefnu síðastliðinn fimmtudag þar sem kastljósinu var beint að því hvernig sístækkandi regluverk og vaxandi eftirlitskröfur leggja æ þyngri byrðar á herðar íslensku atvinnulífi.

Viðtal

Ásgeir Ingvarsson

ai@mbl.is

Samtök iðnaðarins efndu til ráðstefnu síðastliðinn fimmtudag þar sem kastljósinu var beint að því hvernig sístækkandi regluverk og vaxandi eftirlitskröfur leggja æ þyngri byrðar á herðar íslensku atvinnulífi.

Sigríður Hrefna Hrafnkelsdóttir tók þar þátt í pallborðsumræðum en hún tók nýlega við stöðu forstjóra sælgætisgerðarinnar Nóa Siríusar. Hún segir markmið viðburðarins ekki síst hafa verið að kalla fram opinbera umræðu um hvernig megi jafna leikinn, enda ljóst að á Íslandi hefur verið gengið lengra en hjá mörgum samkeppnisríkjum við innleiðingu Evróputilskipana auk þess sem þær reglur sem berast frá Brussel séu oft hlutfallslega meira íþyngjandi fyrir íslensk iðnfyrirtæki sem flest eru af allt annarri stærðargráðu en erlendir keppinautar þeirra.

„Við innleiðingu laga og tilskipana hefur ítrekað verið gengið lengra en þörf var á og jafnvel margfalt lengra en stjórnvöldum ber skylda til, þegar þvert á móti hefði átt að reyna til hins ýtrasta að aðlaga evrópskt regluverk að smæð þess markaðar sem við störfum á,“ segir Sigríður Hrefna.

Spurð hvar rót vandans kunni að liggja kveðst Sigríður Hrefna ekki efast um að það fólk innan stjórnsýslunnar sem stýrir innleiðingarstarfinu sé allt af vilja gert, uppfullt af metnaði fyrir stöðu íslensks atvinnulífs á alþjóðlegum samkeppnismarkaði og sinni af kappi því stöðuga samtali sem á sér stað við kollega þeirra í Brussel. „Í stjórnsýslunni starfar úrvalsfólk en hins vegar held ég að það hafi vantað meira samtal við atvinnulífið og þá fer þeim dæmum fjölgandi þar sem stjórnvöld virðast eiga fullt í fangi með að vinna í takt við þær kröfur sem þeim hafa verið settar með lögum, með tilheyrandi flækjum og seinagangi.“

Kvaðir draga úr rekstrarhæfni

Flækjurnar og byrðarnar taka á sig ýmsar myndir og í tilviki Nóa Siríusar segir Sigríður Hrefna að fyrirtækið standi m.a. frammi fyrir þeim vanda að sælgætisframleiðendur í öðrum löndum njóti góðs af því að geta notað niðurgreidda landbúnaðarframleiðslu. „Við leggjum ríka áherslu á að nota íslenskt hráefni hvenær sem þess er kostur. Loftslagið leyfir ekki ræktun sykururreyrs og kakóbauna svo að við erum tilneydd að kaupa sykur og kakómassa frá útlöndum, en allt það mjólkurduft sem við notum er íslenskt,“ segir hún og áætlar að mjólkurduftið sé um 19% af hráefniskostnaði vinsælustu vara fyrirtækisins.

Í mörgum tilvikum er mjólkurduftið sem erlendir sælgætisframleiðendur nota niðurgreitt með einum eða öðrum hætti og segir Sigríður Hrefna að þar með sé samkeppnisstaðan skekkt. Ekki komi þó til greina að flytja inn erlent mjólkurduft þó það gæti lækkað framleiðslukostnaðinn, enda íslenska mjólkin gæðavara og mikilvægt fyrir bæði hagkerfi og þjóðfélag að nýta íslensku framleiðsluna. Þannig reiknast Sigríði Hrefnu til að það mjólkurduft sem Nói Siríus kaupir frá Mjólkursamsölunni jafngildi heildarframleiðslu nokkurra íslenskra mjólkurbúa.

Þessu til viðbótar verka ótal kröfur og kvaðir til að íþyngja rekstrinum hér og þar og gera rekstrarliði dýrari en þeir þyrftu að vera. Sigríður Hrefna bendir á hvernig þetta dragi úr rekstrarhæfni félagsins og hafi um leið þau áhrif að draga úr getu þess til að t.d. fjárfesta í nýjum búnaði til að auka skilvirkni. „Megnið af því erlenda sælgæti sem selt er hér á landi kemur frá verksmiðjum sem eru fullsjálfvirkar að öllu leyti á meðan meginþorrinn af okkar vöru er handunninn að stórum hluta,“ segir Sigríður Hrefna og bætir við að margt af því sælgæti sem landsmönnum þyki ómissandi hluti af íslenskri matarmenningu sé framleitt með aðstoð véla sem eru sumar svo gamlar að þær eru merktar Austur-Þýskalandi. „Gaman væri að skoða ávinninginn af fjárfestingu í sjálfvirkum tækjum og þannig geta nýtt mannskapinn til sóknar á öðrum sviðum rekstrarins.“

Enga einfalda lausn að finna

En hvernig ætti að jafna leikinn? Sigríður Hrefna játar að það sé ekki auðvelt að finna einfalda lausn: Fyrst af öllu verði að gæta þess að við innleiðingu samevrópskra reglna sé ekki gengið lengra en þörf er á og jafnframt verði að búa þannig um hnútana í stjórnsýslunni að öll afgreiðsla mála gangi hratt og vel fyrir sig. „Við viljum hlúa vel að innlendri framleiðslu og í tilviki sælgætisframleiðenda er um að ræða rekstur sem mörgum þykir mikilvægur hluti af sögu landsins og hefðum svo að væri missir að. Er brýnt að vinna ekki gegn samkeppnishæfni íslenskra smáfyrirtækja og þess í stað reyna að styrkja stöðu þeirra á markaðinum, verandi þess að fullu meðvituð að jafnvel stærstu íslensku fyrirtækin munu seint teljast meira en meðalstór í samanburði við keppinautana á meginlandi Evrópu.“

Umræðan mun vonandi leiða í ljós hvaða lausnir ættu að hjálpa mest og tekur Sigríður Hrefna undir að það væri t.d. misráðið að beita innflutningsgjöldum til að hjálpa innlendum framleiðendum og eins væri það varla æskilegt að niðurgreiða aðföng iðnfyrirtækja til jafns við það sem erlendir framleiðendur njóta. „Ein möguleg lausn væri að útfæra tekjuskattskerfið þannig að tekið væri sérstakt tillit til stöðu smárra og meðalstórra fyrirtækja en þá blasir við sá augljósi vandi að slíkur stuðningur myndi einfaldlega búa til mikinn hvata fyrir atvinnurekendur að búta félög sín niður í smærri einingar, svo það er engin einföld lausn í stöðunni en fyrsta skrefið væri eflaust að jafna leikinn miðað við stærð þjóðar þegar kemur að innleiðingu á alþjóðlegu regluverki.“