Sigursæll Patrick Mahomes fagnar sigri Kansas City Chiefs sem er enn og aftur komið í úrslitaleikinn.
Sigursæll Patrick Mahomes fagnar sigri Kansas City Chiefs sem er enn og aftur komið í úrslitaleikinn. — AFP/Patrick Smith
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
NFL Gunnar Valgeirsson Los Angeles Það verða San Francisco 49ers og Kansas City Chiefs sem mætast í Ofurskálarleiknum svokallaða í úrslitum NFL-ruðningsdeildarinnar eftir tvo frábæra undanúrslitaleiki á sunnudag.

NFL

Gunnar Valgeirsson

Los Angeles

Það verða San Francisco 49ers og Kansas City Chiefs sem mætast í Ofurskálarleiknum svokallaða í úrslitum NFL-ruðningsdeildarinnar eftir tvo frábæra undanúrslitaleiki á sunnudag.

Úrslitaleikurinn verður annan sunnudag í fyrsta sinn í Las Vegas og verðum við hér á vesturstrandarskrifstofu íþróttadeildarinnar þá á staðnum.

Í Ameríkudeildinni voru það Buffalo Bills, Kansas City Chiefs og Baltimore Ravens sem voru ráðandi liðin í deildakeppninni, en í fjórðungsúrslitunum vann Chiefs góðan sigur í Buffalo (27:24) og þar með réttinn til að berjast við Ravens-liðið í úrslitaleik deildarinnar á útivelli í Baltimore.

Mahomes enn og aftur

Kansas City kom inn í leikinn með þá trú að komast í Ofurskálarleikinn, enda er liðið nú í úrslitaleik Ameríkudeildarinnar sjötta árið í röð. Patrick Mahomes leikstjórnandi Chiefs hefur komið liði sínu í úrslitaleik deildarinnar öll sex árin sem hann hefur leikið í deildinni (eitthvað víst með íslenska vatnið að gera!) og reyndi að koma liði sínu í Ofurskálarleikinn sjálfan í fjórða sinn á fimm árum.

Hinum megin á vellinum var leikstjórnandi Baltimore, Lamar Jackson (sem að öllum líkindum verður kosinn leikmaður deildarinnar í ár), að reyna að koma sínu liði í Ofurskálarleikinn í fyrsta sinn. Af mati sérfræðinga var Baltimore sigurstranglegra liðið, sérstaklega þar sem Ravens lék á heimavelli, þar sem liðið hefur verið nánast öruggt um sigur undanfarin tvö ár.

Sannfærandi hjá Chiefs

Skemmst er frá því að segja að Chiefs var með tögl og hagldir í þessum leik frá upphafi. Sóknarlið Chiefs hélt varnarliði heimamanna á vellinum lungann út fyrri hálfleiknum eftir að Baltimore jafnaði leikinn í sinni fyrstu sókn, 7:7. Tíu stig í öðrum leikhlutanum gerðu svo út um stigaskorunina það sem eftir var ef frá er talið vallarmark Ravens seint í leiknum sem skipti ekki máli varðandi niðurstöðuna – 17:10-sigur Chiefs var staðreynd og sannfærandi svo.

Þetta var því leikur varnarinnar.

„Maður tekur þessum tækifærum aldrei sem gefnum, því það er aldrei hægt að segja til um hversu oft þau koma á ferlinum. En ég sagði við leikmenn í búningsherberginu eftir leikinn að verkefninu væri ekki lokið og að við yrðum að undirbúa okkur strax fyrir annan erfiðan andstæðing eftir tvær vikur,“ sagði Mahomes á fréttafundi eftir leikinn.

Chiefs-liðið hafði stjórn á þessum leik mestallan tímann með því að taka sér tíma í sókninni og þar með halda Lamar Jackson og sóknarliði Baltimore á hliðarlínunni. Varnarlið Kansas City sá svo um restina þegar heimamenn fengu loks sín tækifæri.

Bílaborgin vaknar til lífsins

Í Landsdeildinni áttust við San Francisco 49ers og Detroit Lions á gallabuxnavellinum hér í Kísildalnum í Kaliforníu suður af San Francisco-borg.

San Francisco var almennt talið besta liðið í Landsdeildinni í deildakeppninni, þótt liðið hefði tapað þremur leikjum í röð um miðbik hennar eftir meiðsl nokkurra lykilleikmanna. Philadelphia Eagles virtist líklegast til að veita 49ers mesta keppni þar til allt féll í rúst hjá liðinu síðasta mánuðinn. Á meðan óx Detroit ásmegin eftir því sem leið á deildakeppnina.

Það er saga Detroit sem vakti mestu athyglina allt keppnistímabilið, en Lions-liðið hefur verið einn brandari síðan 1957, þegar það vann titilinn í síðasta sinn í gömlu NFL-deildinni. Ein af meginástæðum þess að Lions-liðið hefur vakið svo mikla athygli í ár – fyrir utan afleitan árangur í 66 ár – er hinn litríki þjálfari liðsins, Dan Campbell. Þegar hann tók við liðinu fyrir fjórum árum var fréttafólk nokkuð undrandi á fyrsta blaðamannafundi hans þegar hann virtist nokkuð æstari en fólk var vant af aðalþjálfara NFL-liðs.

Bítum hnéskelina af

„Þetta lið mun nú taka á sig ímynd borgarinnar, og þessi borg hefur lent í miklum erfiðleikum í gegnum söguna, en fundið leið til að bregðast við. Við eigum eftir að lenda í barningi, en þegar við stöndum upp munum við bíta hnéskelina af andstæðingunum, og þegar upp er staðið verðum við einir eftir.“

Það var þetta hugarfar sem leiddi Lions-liðið til sigurs í riðli sínum í Landsdeildinni í fyrsta sinn í þrjá áratugi, og síðan tveimur heimaleikjum nú í úrslitakeppninni til að eiga möguleika á að komast í Ofurskálarleikinn í fyrsta sinn í sögu liðsins.

Andlitsgríman til hjálpar

Rétt eins og í fyrri leiknum á sunnudag tóku gestirnir leikinn í sínar hendur og náðu 24:7-forystu í fyrri hálfleiknum. Hélt þá undirritaður að sagan væri að endurtaka sig frá leik Ravens og Chiefs – að gestirnir væru að taka þennan leik að fullu í sínar hendur. En við íþróttaeðjótar vitum – og þetta er ein ástæðan fyrir þvi að við eyðum tíma í að horfa á leiki – að hlutirnir geta breyst fljótt.

Á átta mínútum í upphafi seinni hálfleiksins skoruðu heimamenn 17 stig á rúmum átta mínútum eftir hreint ótrúlegan kafla þar sem sóknarmenn Detroit töpuðu tuðrunni í endamarkinu þegar snertimark virtist óhjákvæmilegt, og sóknarmaður San Francisco náði á ótrúlegan hátt að grípa boltann nær marki Detroit eftir að tuðran skoppaði af andlitsgrímu varnarmannsins.

Hreint ótrúlegur kafli og leikurinn var jafn, 24:24, við upphaf lokaleikhlutans.

Góður endasprettur 49ers

Heimamenn voru hins vegar ekki hættir og bættu tíu stigum við og höfðu 34:24-forystu þegar um þrjár mínútur voru eftir. 27 stig í röð fyrir Niners í þessum leik. Eftirleikurinn var því auðveldur fyrir San Francisco, þrátt fyrir snertimark Detroit á síðustu mínútunni. Öruggur sigur í lokin, 34:31, í firnaskemmtilegum leik.

Christian McCaffrey, sjálfsagt mikilvægasti leikmaður 49ers allt keppnistímabilið, benti á hið augljósa að leik loknum. „Við vissum eftir hálfleik að við yrðum að einblína á hverja sóknartilraun og okkur tókst það strax í byrjun seinni hálfleiksins þegar sem mest reyndi á í leiknum.“

Við hér á vaktinni á vesturströndinni í Bandaríkjunum verðum svo með frekari greiningu á þessum tveimur liðum í Ofurskálarleiknum þegar nær dregur.

Höf.: Gunnar Valgeirsson