Sigrún fæddist 17. október árið 1933 á Þyrnum í Glerárhverfi á Akureyri. Hún lést 4. janúar 2024.

Foreldrar hennar voru þau Sigurður Árni Sigurðsson, sjómaður og bóndi, frá Akureyri og Guðrún Hálfdánardóttir, húsfreyja, frá Grænhóli í Kræklingahlíð í Eyjafirði.

Þann 29. desember 1956
giftist Sigrún Sverri Jónatanssyni, f. 7. febrúar 1926,
d. 11. janúar 2016. Þau Sigrún og Sverrir hófu búskap á Lokastíg 19 í Reykjavík, en bjuggu lengst af á Seltjarnarnesi, eða frá árinu 1964. Þau byggðu sér glæsilegt hús á Fornuströnd 11, en fluttu í Grænumýri 6 árið 1998.

Þau hjónin eignuðust þrjú börn, Árni Rúnar er kvæntur Ólafíu Ásgeirsdóttur, Sigrún Björk er gift Stefáni Karli Magnússyni og Sverrir Þór er í sambúð með Björk Níelsdóttur. Fyrir átti Sigrún eina dóttur. Hún heitir Steinunn Svansdóttir og er gift Gunnari Bjarnasyni. Börn Sverris sem hann átti áður, eru þau Olgeir Skúli sem er kvæntur Sigurrós Hermannsdóttur og Elín Sjöfn sem er gift Gunnari Þór Indriðasyni.

Útför hefur farið fram.

Elskulega mamma mín og besta vinkona kvaddi þessa jarðvist 4. janúar sl.

Núna líður þér vel elsku mamma og ég vil trúa því að þú sért komin í fangið á pabba í draumalandinu. Það eru svo ótal margar minningar sem ég á um þig mamma mín að ég veit varla hvar skal byrja. Það var gott að leita til þín þegar ég var á unglingsárunum og þú varst alltaf til staðar þegar eitthvað bjátaði á. Þú varst alltaf svo ljúf og góð, skiptir sjaldnast skapi.

Þið pabbi áttuð svolítið erfitt þegar við litla fjölskyldan fluttum til Jóhannesarborgar í Suður-Afríku 1984, með Magnús tveggja og hálfs árs gamlan, pabbi táraðist svo mikið þegar þið kvödduð okkur á flugvellinum, hélduð hreinlega að þið mynduð ekki sjá okkur aftur. En einu og hálfu ári seinna voruð þið mætt til Jóhannesarborgar á Þorláksmessu, töskurnar ykkar týndust með öllum jólagjöfunum og jólafötunum ykkar. Þá var ekkert annað í stöðunni en að fara á aðfangadagsmorgun og kaupa einhver föt og smá pakka handa Magnúsi. Það var mikið ferðast um S-Afríku, farið til höfuðborgarinnar Pretoríu, farið í Kruger national park, dýragarðinn sem keyrt er um, innan um ljón, tígrisdýr, gíraffa o.fl. Það var farið í spilavítið í Sun City, skoðaðar gamlar minjar, farið á austurströndina við Indlandshafið til borgarinnar Durban, þar sem við dvöldum í tvær vikur í frábæru orlofshúsi rétt við ströndina. Svo þegar pabbi varð 60 ára hinn 7. febrúar þá fórum við á flottasta veitingastað inni í Jóhannesarborg þar sem pabbi var með einkaþjón og mikið dekrað við hann.

Síðan í júní 1986 fluttum við frá Jóhannesarborg til Hamborgar í Þýskalandi þar sem við bjuggum í 13 ár, en þarna var ég orðin ófrísk að Lísu svo ég fór heim eftir viku dvöl í Hamborg, á meðan Stefán leitaði að heppilegu húsnæði fyrir okkur. Þið pabbi komuð ófáar ferðirnar til okkar, þá var farið í ferðalög vítt og breitt um Þýskaland, leigður einn bíll því við vorum of mörg í okkar, og skiptum við okkur þannig að við „stelpurnar“ vorum í öðrum og „strákarnir“ í hinum, svo var brunað til Mið-, Austur- og Suður-Þýskalands, leigðum okkur hús og höfðum rosalega skemmtilegt. En eins og áður sagði, þá gæti ég haldið áfram og talið ótal margar fleiri minningar um þig elsku mamma mín. Mikið óskaplega sakna ég þín.

Með ástar- og saknaðarkveðju,

Sigrún Björk.