Illugi Jökulsson
Illugi Jökulsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Illugi Jökulsson, æðstiklerkur vandlætara á Facebook, lenti á dögunum í svo alvarlegri sálarkreppu að „ég mun ekki hafa nokkra skoðun á Eurovision þetta árið, sama á hverju gengur“.

Illugi Jökulsson, æðstiklerkur vandlætara á Facebook, lenti á dögunum í svo alvarlegri sálarkreppu að „ég mun ekki hafa nokkra skoðun á Eurovision þetta árið, sama á hverju gengur“.

Vandræði Illuga stafa af illvígum átökum um Evrósjón, en örlög Gasasvæðisins eru af sumum sögð ráðast af því hvort Íslendingar fari til Gautaborgar í vor.

Illugi vildi vitaskuld helst að keppandi Íslands yrði Palestínuarabinn Bashar Murad, sem sætt hefur fordómum og slaufun heima fyrir vegna kynhneigðar sinnar. Hins vegar þyrmdi yfir hann þegar Illuga varð ljóst að Bashar ætlaði „að flytja í keppninni einhvers konar óð til bandarískra kúreka sem rændu heilli heimsálfu frá frumbyggjum Ameríku“.

Trúarleiðtogar hafa farið í ævilangt þagnarbindindi af minna tilefni, enda úr vöndu að ráða og ekki í fyrsta sinn. Eða ímyndar sér einhver að allir söngtextar íslenskra keppenda, allt frá Gleðibankanum til Sókratesar, Never Forget til Hatursins, hafi verið lausir við tvíræðni, dulda merkingu eða próblematísk þemu?

Af fréttum er helst að skilja að héðan í frá muni utanríkisráðherra tilnefna keppendur í Eurovision. En þá verður líka að rýna textana. Vel færi á því að það væri gert af þriggja manna ráði forseta Íslands, Hæstaréttar og Íslenskudeildar Manitóbaháskóla, sem kemur málið ekkert við.