Pálmi V. Jónsson
Pálmi V. Jónsson
Sjúkrarúmum hefur fækkað umtalsvert á sl. 20 árum og mönnun hefur ekki haldið í við þróun læknisfræði og mannfjölda.

Pálmi V. Jónsson

Þeim sem leita til Landspítala með bráð veikindi hefur fjölgað jafnt og þétt. Eftirspurnin er viðvarandi umfram getu Landspítala til þess að taka á móti sjúklingum með góðu móti og endurtekið riðlar álagið starfsáætlunum á hinum ýmsu sviðum sjúkrahússins. Þegar leitað er skýringa er eldra fólk oftast nefnt til sögunnar. Orsakirnar eru þó fleiri.

Auk lengri ævilíka og stærri fæðingarárganga sem nú eldast hefur innflytjendum fjölgað stórlega og þjóðin vaxið á skömmum tíma úr 300 þúsund einstaklingum í 400 þúsund. Að meðaltali eru einnig 200 þúsund ferðamenn á landinu í hverjum mánuði. Sjúkrarúmum hefur fækkað umtalsvert á sl. 20 árum og mönnun hefur ekki haldið í við þróun læknisfræði og mannfjölda. Allt þetta hefur leitt til óreiðukennds álags á heilbrigðisþjónustuna. Öryggi minnkar og gæði skerðast.

Bráðaþjónusta á höfuðborgarsvæði er að mestu veitt á Landspítala. Nýlegur heimsfaraldur reyndi verulega á starfsemina sem Landspítali stóð af sér með því að starfsfólk sýndi mikla elju og hugvit, meðal annars með vandaðri eftirfylgd heima. Bráðasjúkrarúmum er ekki að fjölga og aukinni eftirspurn þarf því að mæta með öðrum aðgerðum. Legutími hefur verið styttur að þolmörkum og boðið hefur verið upp á móttöku bráðalyflækninga með eftirfylgd, þó þannig að einstaklingur sækir þjónustuna að heiman. En þessar breytingar hrökkva ekki til. Sjúkrahús víða um heim hafa þróað nýjar leiðir sem kalla má bráðasjúkrahús heima eða sjúkrahús án veggja. Framfarir í greiningartækni og fjarskiptum hafa auðveldað þessa þróun.

Helstu eiginleikar bráðasjúkrahússins heima eru:

• Bráðleiki veikinda og flókin tímabundin staða einstaklingsins aðgreinir heimasjúkrahús frá annarri samfélagsþjónustu.

• Það veitir bráðan aðgang að sjúkdómsgreiningum á sjúkrahúsi í upphafi (svo sem speglanir, myndgreiningu og aðgengi að hjartalækningum) og getur falið í sér blóðpróf heima og rannsóknir heima, svo sem blóðpróf og ómskoðanir.

• Það er veitt meðferð á sjúkrahússtigi, svo sem vökva- og lyfjagjöf í æð, auk annarrar sértækrar meðferðar og súrefnis.

• Þjónustan krefst daglegrar eftirfylgni frá þverfaglegu teymi og stundum margra heimsókna á dag. Þjónustan og eftirfylgdin er til staðar 24 tíma á sólarhring og það er geta til að bregðast við með heimsóknum lækna og hjúkrunarfræðinga.

• Þjónustan krefst ábyrgs læknis á sviði almennra lyflækninga og ábyrgðin er skýr.

• Ábendingar og frábendingar fyrir meðferð eru skilgreindar út frá sjúkdómsgreiningum og veikindastigi frá miðjum aldri og eldri.

• Meðferðin heima er takmörkuð í tíma sem getur verið frá einum til fjórtán daga.

• Sjúklingar heimasjúkrahússins hafa jafnan aðgang að annarri sérfræðiráðgjöf eins og þeir væru inniliggjandi á sjúkrahúsinu.

Rannsóknir hafa sýnt að bráðaþjónusta heima fyrir skilgreindan hóp einstaklinga er raunhæfur og öruggur valkostur við meðferð á sjúkrahúsi. Enginn munur er á dánartíðni í skilgreindum hópum þeirra sem geta nýtt sér sjúkrahúsþjónustu heima. Áhætta á sjúkrahússýkingum, óráði og byltum er minni en á sjúkrahúsi. Heildarkostnaður við legu heima er metinn verulega lægri en á sjúkrahúsi. Rannsóknir hafa sýnt að um 70% þeirra sem samkvæmt skilmerkjum gætu nýtt sér bráðasjúkrahúsið heima gera það. Loks sýna rannsóknir að fólk metur þjónustuna heima í hærri gæðum en á sjúkrahúsi.

Með hliðsjón af elju, hugviti og færni fagfólks Landspítala met ég það svo að auðveldlega mætti þjónusta á hverjum sólarhring 20 manns með bráðaveikindi á sjúkrahússtigi heima og þó líklegra að fjöldi þeirra gæti verið 30 til 40. Þau rúm nýtast þá öðrum og veikari einstaklingum sem geta ekki nýtt sér bráðasjúkrahúsið heima.

Vandi Landspítala er margþættur og verður ekki leystur með einni lausn. En bráðasjúkrahúsið heima er góður kostur sem er margreyndur erlendis. Staðan á Landspítala er slík að það getur ekki verið réttlætanlegt að líta lengur fram hjá því úrræði sem bráðasjúkrahúsið heima er. Þetta er einnig úrræði til framtíðar, því að margt fólk vill gjarnan fremur dvelja veikt heima fái það örugga meðferð.

Höfundur er lyf- og öldrunarlæknir, prófessor emeritus við Læknadeild Háskóla Íslands.

Höf.: Pálmi V. Jónsson