Fulltrúar SA Samningar Samtaka atvinnulífsins ná til 98% fólks á almennum markaði.
Fulltrúar SA Samningar Samtaka atvinnulífsins ná til 98% fólks á almennum markaði. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Ómar Friðriksson Iðunn Andrésdóttir Kjarasamningar vel á annað hundrað þúsunda launamanna á almenna vinnumarkaðinum renna út á morgun og þar með fellur friðarskylda stéttarfélaga þeirra úr gildi. Samningar nær allra stéttarfélaga í ASÍ losna nú um mánaðamótin en allt að 115 þúsund virkir félagsmenn eru í aðildarfélögum ASÍ.

Ómar Friðriksson

Iðunn Andrésdóttir

Kjarasamningar vel á annað hundrað þúsunda launamanna á almenna vinnumarkaðinum renna út á morgun og þar með fellur friðarskylda stéttarfélaga þeirra úr gildi. Samningar nær allra stéttarfélaga í ASÍ losna nú um mánaðamótin en allt að 115 þúsund virkir félagsmenn eru í aðildarfélögum ASÍ.

Fleiri kjarasamningar renna sitt skeið á morgun, m.a. samningur Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja (SSF) við Samtök atvinnulífsins en félagsmenn SSF eru rúmlega 3.500 talsins.

Viðræður á byrjunarreit

Samningar aðildarfélaga BSRB vegna starfsfólks í opinberum hlutafélögum eru einnig lausir í lok janúar. Þar er m.a. um að ræða samninga Sameykis við SA vegna starfsfólks hjá Isavia, í Fríhöfninni, hjá Orkuveitu Reykjavíkur og Rarik, samning Póstmannafélags Íslands við Íslandspóst, samning Félags flugmálastarfsmanna ríkisins við Isavia og samninga Kjalar stéttarfélags vegna starfsmanna hjá Norðurorku og Orkubúi Vestfjarða. Ná þessir samningar BSRB-félaganna til á annað þúsund félagsmanna.

Kröfugerðir þessara félaga eru frágengnar en viðræður eru vart byrjaðar vegna óvissu um framvinduna í yfirstandandi kjaradeilu breiðfylkingar landssambanda og stærstu félaga í ASÍ og SA.

Deilu breiðfylkingarinnar við SA var vísað til ríkissáttasemjara í seinustu viku. Fagfélögin svonefndu innan ASÍ, Rafiðnaðarsambandið, VM og Matvís, vísuðu viðræðum þeirra við SA til sáttasemjara fyrr í þessum mánuði. Fundað hefur verið nokkuð reglulega í þeirri deilu að undanförnu, seinast í gær. Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari staðfesti í samtali við blaðamann Morgunblaðsins að breiðfylking stéttarfélaganna og Samtök atvinnulífsins hefðu verið boðuð á fund hans í Karphúsinu og að sest yrði að samningaborðinu á miðvikudag klukkan tvö.

Vel undirbúin fyrir lotuna

Ari Skúlason formaður SSF segir samtökin ekki hafa átt í viðræðum við viðsemjendurna enn sem komið er. Samtökin séu vön því að bíða eftir að stærri hópar á almennum markaði ljúki sínum samningum. Hann segir samtökin vel undirbúin fyrir lotuna sem er fram undan, m.a. varðandi mögulegar aðgerðir ef á þurfi að halda.

„Grundvallarkrafa okkar er prósentubreyting launa, gjarnan með gólfi og að geta gert okkar samninga á grundvelli kostnaðarmats frá öðrum samningum,“ segir hann, spurður um helstu kröfur SSF fyrir endurnýjun samninganna. Samtökin eru einnig með kröfur sem ekki hafa náð fram að ganga í síðustu samningalotum, s.s. um styttingu vinnutímans, vinnuframlag á bak við fastlaunasamning, orlofsmál, samstarf um tæknibreytingar og fleira.