Nýsköpun David Gundry, CTO Medagogic, Hannah Sjöstedt, yfirlæknir bráðamóttöku barna á Sahlgrenska, Sigríður Ásta Þorgeirsdóttir, barnalæknir á Sahlgrenska og CMO Medagogic, Birgir Már Þorgeirsson, CEO Medagogic.
Nýsköpun David Gundry, CTO Medagogic, Hannah Sjöstedt, yfirlæknir bráðamóttöku barna á Sahlgrenska, Sigríður Ásta Þorgeirsdóttir, barnalæknir á Sahlgrenska og CMO Medagogic, Birgir Már Þorgeirsson, CEO Medagogic.
Magdalena Anna Torfadóttir magdalena@mbl.is

Magdalena Anna Torfadóttir

magdalena@mbl.is

Nýsköpunarfyrirtækið Medagogic vinnur nú að þróun sýndarveruleikaumhverfis til að þjálfa heilbrigðisstarfsfólk. Verkefnið er unnið í samvinnu við neyðarmóttöku barna við Sahlgrenska spítalann í Gautaborg í Svíþjóð og Barnaspítala Hringsins. Tölvuhermd þjálfun heilbrigðisstarfsfólks er hugsuð sem viðbót við núverandi hermikennslu þess. Hægt verður að upplifa bráðaaðstæður bæði í sýndarveruleika og í gegnum vefspjall við neyðarteymi á staðnum.

Fyrirtækið fékk nýlega 20 milljóna króna fjármögnun frá Nýsköpunarsjóði vegna fjárfestingarátaks sjóðsins, þar sem markmiðið er að hraða framþróun sprotafyrirtækja og hvetja til þátttöku englafjárfesta. Sjóðurinn auglýsti átakið síðastliðið vor og sóttu 73 félög um fjárfestingu frá Nýsköpunarsjóði í átakinu. Eftir valferli voru tíu félög valin úr hópi umsækjenda og mun Nýsköpunarsjóður fjárfesta í þeim samtals fyrir um 200 milljónir króna. Eitt af skilyrðum átaksins er að félögin tryggi sér a.m.k. sömu upphæð frá einkafjárfestum. Samanlagt stefnir fjárfesting Nýsköpunarsjóðs og einkafjárfesta í að verða nærri 600 milljónum króna í þessum tíu félögum.

Birgir Þorgeirsson, stofnandi og framkvæmdastjóri Medagogic, segir að fjármögnunin hafi skipt fyrirtækið miklu máli og muni nýtast vel við uppbyggingu fyrirtækisins.

„Fyrst er það auðvitað viðurkenningin og hvatningin sem við fáum frá Nýsköpunarsjóði, að halda áfram á vegferð okkar. Við höfum þegar lært mikið á þessu átaki, ásamt góðri og persónulegri ráðgjöf frá sjóðnum. Fjármagnið hjálpar síðan auðvitað mikið og gerir okkur kleift að hreyfast hraðar,“ segir Birgir.

Þróa sýndarveruleika

Medagogic vinnur sem fyrr segir að gerð sýndarveruleikaumhverfis. Leikanda er gert að stýra aðgerðum á vettvangi og eiga í samskiptum við annað heilbrigðisstarfsfólk í úrlausn sinni á tilfellinu. Með slíkri tækni má að sögn Birgis auka aðgengi að þjálfun og á endanum fækka mistökum.

Birgir segir að hugmyndin hafi kviknað í Covid þegar kallað hafi verið eftir nýjum lausnum í heilbrigðisgeiranum.

„Ég starfaði sem flugumferðarstjóri og fór að velta fyrir mér hvort hægt væri að beita svipuðum lausnum í þjálfun í heilbrigðisgeiranum. Ég talaði um þessar hugmyndir við systur mína, sem starfar sem læknir úti í Svíþjóð, og við veltum fyrir okkur hvort þetta væri góð hugmynd,“ segir Birgir og bætir við að í kjölfarið hafi hann ákveðið að stofna fyrirtækið.

Umhverfið til fyrirmyndar

Birgir segir að nýsköpunarumhverfið á Íslandi sé til fyrirmyndar og hvetjandi á marga vegu. Hann nefnir þar sérstaklega styrkjaumhverfi RANNÍS, auk þess sem aðgengið að leiðsögn og stuðningi frá öðrum frumkvöðlum sé virkilega gott.

„Við erum enn í samtölum við mögulega englafjárfesta, bæði einstaklinga og fyrirtæki, sem vilja taka þátt í þessu með okkur. Við erum því enn að safna liði og hvetjum alla áhugasama að hafa samband,“ segir Birgir og bætir við að stefnt sé að að selja vöruna bæði hér heima og erlendis þegar hún verður tilbúin.

„Þetta er búnaður sem getur gagnast bæði hér heima og erlendis. Við höfum verið í prófunum og erum komin langt með smíði frumgerðarinnar. Það eru þó áskoranir víða og það er vandmeðfarið að búa til sýndarheim sem verður síðan notaður sem þjálfunartól,“ segir Birgir.

Hann segir að nú sé unnið að frumgerð í samstarfi við aðila hjá Landspítala og Sahlgrenska.

„Við höfum lært mikið af þeim tveimur notendaprófunum sem við höfum haldið og erum að vinna úr þeim breytingum sem við þurfum að gera. Við höldum áfram að einblína á þarfir barnalækninga og hjúkrunar en erum meðvituð um að á endanum viljum við styðja við fleiri svið innan heilbrigðisgeirans,“ segir Birgir.

Takmarkið er að kynna lausnina formlega á stærstu sýningu innan heilbrigðishermunar í Bandaríkjunum að ári liðnu.

„Við viljum setja ný viðmið í þróun á sýndarhermum. Við byrjum innan barnalækninga og viljum leysa afmörkuð vandamál fyrst, en á endanum staðsetja okkur í fararbroddi þeirra sem framleiða þessar lausnir fyrir heilbrigðisstarfsfólk,“ segir Birgir að lokum.