Gasa Börn á Gasasvæðinu taka við mataraðstoð frá Palestínuflóttamannaaðstoð Sameinuðu þjóðanna
Gasa Börn á Gasasvæðinu taka við mataraðstoð frá Palestínuflóttamannaaðstoð Sameinuðu þjóðanna — AFP/Said Khatib
Antonio Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, skoraði í gær á ríki að hefja á ný fjárframlög til Palestínuflóttamannaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna (UNRWA). Mannúðarkreppa er yfirvofandi á Gasasvæðinu, þar sem fjórðungur íbúa stendur frammi fyrir hungursneyð

Helena Björk Bjarkadóttir

helena@mbl.is

Antonio Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, skoraði í gær á ríki að hefja á ný fjárframlög til Palestínuflóttamannaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna (UNRWA). Mannúðarkreppa er yfirvofandi á Gasasvæðinu, þar sem fjórðungur íbúa stendur frammi fyrir hungursneyð. Enn er mikill skortur á öllum helstu nauðsynjum á svæðinu, svo sem lyfjum, eldsneyti og mat.

Mörg ríki hafa ákveðið að stöðva eða fresta greiðslum til UNRWA í kjölfar þess að starfsmenn stofnunarinnar voru bendlaðir við árásirnar á Ísrael 7. október. Um er að ræða tólf starfsmenn og var 9 þeirra vikið frá störfum um helgina eftir að þessar ásakanir komu fram. Stjórnvöld í Ísrael segjast ætla að banna starfsemi stofnunarinnar á svæðinu eftir að stríðinu á Gasa ljúki.

Bandaríkin tilkynntu á föstudag að þau hefðu stöðvað fjárveitingar til stofnunarinnar. Nokkur lönd hafa fylgt fordæmi þeirra, þar á meðal Bretland, Þýskaland, Ítalía, Finnland og Ísland.

Evrópusambandið hefur einnig fryst greiðslur og krafist þess að allt starfsfólk UNRWA verði rannsakað til að staðfesta að það hafi ekki tekið þátt í árásinni á Ísrael. Í tilkynningu segist framkvæmdastjórn ESB ætla að endurskoða fjárveitingar til stofnunarinnar og þær séu háðar niðurstöðu rannsóknar SÞ en að mannúðaraðstoð á Gasa og Vesturbakkanum „muni halda áfram í gegnum samstarfssamtök“.

Guterres hefur heitið óháðri endurskoðun á flóttamannaaðstoðinni en hvatti ríki til að tryggja áframhaldandi starf stofnunarinnar vegna þeirra örvæntingarfullu íbúa sem hún aðstoðaði.

Í skjölum ísraelsku leyniþjónustunnar eru upplýsingar um nöfn og störf starfsmannanna tólf og ásakanir á hendur þeim. Tíu eru sagðir hafa verið liðsmenn Hamas og einn tengdur samtökunum Heilögu stríði. Sjö eru kennarar við UNRWA-skóla og tveir störfuðu við skólana í öðrum hlutverkum. Hinum þremur er lýst sem skrifstofumanni, félagsráðgjafa og geymslustjóra. Ásakanir á hendur starfsmönnunum snúa meðal annars að þátttöku í mannráni á ísraelskri konu, aðstoð við að koma líki ísraelsks hermanns til Gasa og dreifingu á skotfærum 7. október.

Í skjölunum segir að ísraelskir leyniþjónustumenn hafi notað símagögn til að staðfesta að sex þeirra grunuðu hafi verið í Ísrael 7. október. Aðrir sem grunaðir eru um aðild hringdu símtöl sem ísraelska leyniþjónustan hlustaði á, þar sem þeir töluðu um aðild sína.

12 rotin epli

Palestínuflóttamannaaðstoðin hefur vikið níu þeirra, sem sakaðir eru um samstarf við Hamas-samtökin, úr starfi. Tveggja er saknað og einn er látinn. Sameinuðu þjóðirnar í New York hafa hafið rannsókn á meintum verknaði, sem Guterres lýsti sem „viðbjóði“.

Fyrrverandi samskiptastjóri UNRWA, Chris Gunness, gagnrýnir ákvarðanir um stöðvun á greiðslum til stofnunarinnar. „Þetta eru 12 rotin epli meðal 13 þúsund starfsmanna á Gasa, 152 þeirra hafa verið drepnir í stríðinu. Mikill meirihluti hinna 13 þúsund hefur haldið áfram að veita mannúðaraðstoð í sprengjuárásum,“ segir Gunness.

Hann segir líka að þau sem muni þjást í kjölfar stöðvunar á greiðslum séu þau sem eigi nú þegar undir högg að sækja, til dæmis konur, börn, slasaðir og veikir. Þeim sé refsað af stjórnvöldum ríkja eins og Bretlands og Bandaríkjanna.

Mikilvægt mannúðarstarf

Forsvarsmenn Palestínuflóttamannaaðstoðarinnar segja að ákvarðanir um að frysta fjármagn ógni mikilvægu mannúðarstarfi. Stofnunin mun ekki geta aðstoðað íbúa á Gasa og haldið starfsemi áfram lengur en til lok febrúar ef framlög til hennar verða skert. Þau ríki sem hafa nú þegar gert hlé á greiðslum til stofnunarinnar greiddu samanlagt yfir 60% af fjárframlögum til UNRWA árið 2022.

Tryggja þarf hjálpargögn

Ásakanir á hendur starfsmönnum Palestínuflóttamannaaðstoðarinnar komu fram daginn eftir að Alþjóðadómstólinn í Haag birti bráðabirgðaniðurstöðu sína í máli Suður-Afríku gegn Ísrael. Þar var þess ekki krafist að Ísrael léti af hernaðaraðgerðum á svæðinu en dómstóllinn sagði að tryggja þyrfti að aðgerðir Ísrael á Gasa féllu ekki undir alþjóðasáttmála um þjóðarmorð. Ísrael þyrfti að leitast við að tryggja öryggi almennra borgara og að hjálpargögn bærust.