Gripið hefur verið til hagræðingaraðgerða hjá Lyfjastofnun og fækkaði starfsmönnum úr 83 í 75 á síðasta ári, eða um tæp tíu prósent. Í umfjöllun um stöðuna á vef Lyfjastofnunar kemur fram að framlag ríkisins til stofnunarinnar hafi dregist saman á síðustu árum

Gripið hefur verið til hagræðingaraðgerða hjá Lyfjastofnun og fækkaði starfsmönnum úr 83 í 75 á síðasta ári, eða um tæp tíu prósent. Í umfjöllun um stöðuna á vef Lyfjastofnunar kemur fram að framlag ríkisins til stofnunarinnar hafi dregist saman á síðustu árum.

Ríkisframlag dregst saman

„Framlag úr ríkissjóði til Lyfjastofnunar hefur dregist saman um tæp 15% á síðastliðnum tveimur árum. Þetta setur rekstri Lyfjastofnunar eðli máls samkvæmt þröngar skorður að sinna lögbundnum verkefnum.

Áætlanir gera ráð fyrir að innheimta Lyfjastofnunar fyrir hönd ríkissjóðs í formi eftirlitsgjalda, árgjalda og undanþágulyfja á árinu 2024 verði hærri en framlagið, þ.e. innheimtar verða u.þ.b. 380 milljónir kr. á meðan framlag ríkissjóðs til Lyfjastofnunar verður 280 milljónir kr.,“ segir m.a. í umfjölluninni.

Bent er á að sú staða sem blasi nú við stofnuninni sé ekki ný af nálinni. Framlög til Lyfjastofnunar samkvæmt fjárlögum sl. tveggja ára hafi dregist umtalsvert saman að raunvirði og þau ekki fylgt launa- og verðlagshækkunum, „ásamt því að í fjárlögum fyrir 2024 var framlag til stofnunarinnar lækkað um 50 milljónir kr. Af þessum sökum hafa staðið yfir aðhaldsaðgerðir hjá stofnuninni allt síðastliðið ár sem munu halda áfram á þessu ári. Vegur þar þyngst að starfsmannafjölda og stöðugildum hefur verið fækkað.“

Þá segir að ljóst sé að áskoranir verði í rekstri Lyfjastofnunar á yfirstandandi ári og stofnunin fari ekki varhluta af almennum kostnaðarhækkunum frekar en aðrir. Vegna hagræðingarkröfu hafi verið óhjákvæmilegt að breyta þjónustu Lyfjastofnunar en þess verði gætt að þær komi ekki niður á lögbundnum skyldum hennar.

Fram kemur að á yfirstandandi ári hækki árgjöld lyfja ekki frá síðasta ári en meðaltalshækkun annarra liða gjaldskrár fyrir þjónustu Lyfjastofnunar er 8,7% á milli ára. Tekið er fram að forsendur útreikninga lyfjaeftirlitsgjalds hafi verið óbreyttar áratugum saman en það er innheimt árlega af lyfjaframleiðendum, lyfjaheildsölum og apótekum. omfr@mbl.is