Grindavík Íbúar munu njóta húsnæðisstuðnings næstu mánuði.
Grindavík Íbúar munu njóta húsnæðisstuðnings næstu mánuði. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Nauðsynlegt er að hækka hámarksfjárhæðir húsnæðisstuðnings við Grindvíkinga. Ekki er nóg að þak verði hækkað úr 75% í 90% af húsnæðiskostnaði. Þetta kemur fram í umsögn sviðsstjóra félagsþjónustu- og fræðslusviðs Grindavíkurbæjar við frumvarp um…

Nauðsynlegt er að hækka hámarksfjárhæðir húsnæðisstuðnings við Grindvíkinga. Ekki er nóg að þak verði hækkað úr 75% í 90% af húsnæðiskostnaði. Þetta kemur fram í umsögn sviðsstjóra félagsþjónustu- og fræðslusviðs Grindavíkurbæjar við frumvarp um breytingu á lögum um sértækan húsnæðisstuðning vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ sem nú er í meðförum Alþingis.

Segir í umsögninni að til að ná því markmiði löggjafans að húsnæðiskostnaður Grindvíkinga á leigumarkaði nemi 10% af leigufjárhæð sé nauðsynlegt að hækka hámarksfjárhæðir að baki fjölda heimilismanna. Þannig verði til að mynda hámarksupphæð stuðnings fyrir fjögurra manna fjölskyldu 302.400 krónur í stað 252 þúsund sem nú er áætlað, en miðað er við að leiguverð í því tilviki sé 336 þúsund krónur á mánuði.

Við breytingar á frumvarpinu er sérstaklega tekið tilliti til mannmargra heimila við ákvörðun hámarksstyrks. Húsnæðisteymi Grindavíkurbæjar leggur til að einnig verði horft til einstæðinga og einstæðra foreldra. Rétt sé að sama upphæð fáist hvort sem einn eða tveir séu í heimili, enda þurfi þessar fjölskyldueiningar oftast sambærilegt húsnæði og greiði því sömu leigu. Par sem leigi saman geti þannig skipt með sér kostnaði en einstaklingur, í sumum tilvikum með barn á sínu framfæri, þurfi einn að standa undir leigukostnaði. Húsnæðisteymið leggur því til að báðar fjölskyldueiningar fái húsnæðisstuðning til samræmis við að um tvo heimilismenn væri að ræða. hdm@mbl.is