Kristinn Jens Sigurþórsson
Kristinn Jens Sigurþórsson
Er yfirleitt allt í vitleysu sem hún kemur nálægt.

Kristinn Jens Sigurþórsson

Umfjöllun um þjóðkirkjuna nú í ársbyrjun hefur að nokkru snúist um arfleifð Agnesar M. Sigurðardóttur og er talsmaður hennar, Pétur Georg Markan, óþreytandi í yfirlýsingum um hversu spennandi það verði fyrir nýjan biskup að taka við búi hennar. Fullyrðir hann (ranglega) að Agnes hafi leitt þær breytingar sem orðið hafa á sambandi ríkis og kirkju og lýsir biskupstíð hennar sem umbótatíma. Á hún að hafa gert slíka hreingerningu innan kirkjunnar að helst jafnast á við framgöngu Soffíu frænku í Kardemommubæ.

Ekkert að marka hann

Í síðdegisþætti Rásar 2 þann 3. janúar sl. var Pétur Markan kynntur til leiks með laginu „Smooth Operator“. Með sérlega ljúfri laglínu syngur nígeríska söngkonan Sade þar um tilfinningasnauðan en tungulipran vestrænan karlmann, sem hefur látið gylliboð heimsins ná tökum á hjarta sér og er tvöfaldur í roði. Lag og texti draga fram að oft er flagð undir fögru skinni og að sá mælir oft fagurt er flátt hyggur. Í þættinum reyndu stjórnendur af veikum mætti að beina athygli að erfiðleikunum í kringum biskupsembættið en Pétur átti ekki í vandræðum með að stýra málum í þá farvegi sem honum hentuðu. Lagði hann áherslu á að ekki væri nóg með að kirkjan væri orðin græn og umhverfisvæn og hefði styrka rödd í málefnum hælisleitenda, heldur hefði Agnes einnig haft að „leiðarljósi“ að taka á ofbeldismálum innan kirkjunnar þannig að nú væri hún orðin að „öruggum stað“. Hélt hann því fram að kirkjan væri nú „til fyrirmyndar í flestum málum ef ekki öllum“ auk þess sem leitað væri til hennar um leiðsögn og ráðgjöf. Það var og! Að spjallinu loknu tók við lagið Blindsker með Bubba og Das Kapital.

Sama rullan

Í þættinum Pallborðið hjá Vísi þann 5. janúar fór Pétur með sömu rulluna um meintar umbætur Agnesar auk þess sem hann rifjaði upp að hún hefði staðið fyrir því að hinsegin samfélagið á Íslandi hefði verið beðið afsökunar af hálfu þjóðkirkjunnar. Þessa sáttagjörð sagði hann hafa verið gerða við Samtökin '78 og að hún hefði verið unnin á forsendum samtakanna, sem í sjálfu sér er athyglisverð staðhæfing. Er greinarhöfundi ókunnugt um að nokkur umræða hafi farið fram á vettvangi þjóðkirkjunnar um þessa afsökunarbeiðni þannig að svo virðist sem hún sé einungis Agnesar sem biskups Íslands. Pétur viðurkenndi reyndar að biskupstíð Agnesar hefði ekki verið fullkomin en fullyrti gegn betri vitund að hún væri að skila af sér „mjög merkilegri biskupstíð“, „góðri“ biskupstíð, „farsælli biskupstíð“ og „umbótasamri biskupstíð“. Kvað hann Agnesi standa styrkum fótum. Vísaði hann þannig til þess stuðnings sem Agnes fékk hjá prestastéttinni síðasta sumar, sem og hjá kirkjuþingi í október. Hann skautaði hins vegar fram hjá því að stuðningurinn ber vitni um bæði lögleysu og siðleysi. Er hann ekki til marks um styrkleika Agnesar heldur meðvirkni og spillingu innan kirkju, sem er í mun að leyna lögbrotum og hylja sundrungu.

Ófær biskup

Pétur Markan gerir mikið úr þætti þjóðkirkjunnar í umhverfismálum, innflytjendamálum og ofbeldismálum. Af hálfu íslenskra fjölmiðlunga er hann þó aldrei látinn tíunda í hverju afrekin felast. Er hætt við að honum vefðist þá tunga um tönn. Sannleikurinn er að líklega eru helstu afrekin á sviði umhverfismála þau að ekki skal lengur notast við plastílát í kirkjum landsins heldur glös og bolla. Þá hefur miklum fjármunum verið varið til málefna hælisleitenda án þess að mat hafi verið lagt á árangur og má spyrja hvort sú meðferð fjármuna sé réttlætanleg. Nefnir Pétur þetta „kærleiksþjónustu“ en þá vaknar spurningin hvort sú þjónusta eigi ekki einmitt að vera á grundvelli kærleika en ekki kirkjufjármuna! Þá gerir hann mikið úr hvernig tekið hefur verið á ofbeldismálum innan þjóðkirkjunnar þegar sannleikurinn er að Agnes hefur reynst fullkomlega ófær um að taka á slíkum málum (sem og flestum öðrum) og ýmist komið sér undan þeim eða klúðrað. Eru um þetta mörg dæmi. Er yfirleitt allt í vitleysu sem hún kemur nálægt. Hefur ástandið innan þjóðkirkjunnar aldrei verið eins ótryggt og ranglátt og í hennar tíð en yfir þá staðreynd er reynt að bregða leyndarhjúp. Bera þar margir sök – einnig fjölmiðlar.

Kirkjan og samtíminn

Pétur leggur áherslu á að í biskupstíð Agnesar hafi þjóðkirkjan „opnað sig meira gagnvart samtímanum“. Lýsti hann yfir að hún væri „örugglega frjálslyndasta“ kirkjan í heiminum, sem kallar fram þá spurningu hvort ekki sé þá einmitt mögulegt að þjóðkirkjan hafi tapað áttum og sé komin út í skurð? Er íslenska þjóðkirkjan fremst kirkna í heiminum með rétta og besta skilninginn á Biblíunni og boðuninni? – Auðvitað ekki. Þó vill Pétur sjá þjóðkirkjuna taka sér „meira og betra far með samtímanum“. Má greina að hann reynir allt til að gera hana nútímalega og spennandi. Má segja að hann falli í þá gryfju að boða þjóðkirkjuna. Þjóðkirkjan má hins vegar aldrei boða sjálfa sig því þá bregst hún köllun sinni og erindi, sem er Jesús Kristur, krossfestur og upprisinn. Þá skal minnt á að sú kirkja sem giftist samtímanum í dag getur sem hægast orðið ekkja á morgun.

Höfundur er síðasti sóknarpresturinn sem sat Saurbæ á Hvalfjarðarströnd.

Höf.: Kristinn Jens Sigurþórsson