Jón Steindórsson fæddist á Akureyri 13. júní 1955 og ólst þar upp. Hann lést á heimili sínu í Kópavogi 14. janúar 2024.

Foreldrar hans voru Steindór Kristinn Jónsson skipstjóri, f. 18. maí 1918, d. 12. janúar 1981, og Emilía Sigurðardóttir húsmóðir, f. 2. desember 1918, d. 4. desember 1985. Systur hans eru Ester, f. 1949, og Kristín, f. 1953.

Eftirlifandi eiginkona Jóns er Ana Cristina Silva Araújo. Með Fjólu Traustadóttur eignaðist hann Margréti, f. 1974, í sambúð með Sigurjóni Larsen Þórissyni, Emmu Björk, f. 1978, gift Hauki Dýrfjörð, Steindór Kristin, f. 1982, kvæntur Helgu Björgu Ingvadóttur, og Elfu Berglindi, f. 1986, gift Albert Charles Lewis. Með Erlu Björgu Sveinsdóttur eignaðist hann Unu Lilju, f. 1998. Barnabörnin eru Patrekur Arnar, Emilía Rós, Viktoría Fjóla, Ragnheiður Sara, Kristín Birta, Andri Mikael, Olivia Elizabeth, Sölvi Hólm, Freyja Fjóla og Sif Cassandra.

Jón lauk prófi frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík. Hann starfaði sem stýrimaður/sjómaður í mörg ár. Hann hóf starfsferil sinn hjá föður sínum við vinnu á Drangi. Hann var lengi vel í millilandasiglingum. Síðar færði hann sig yfir í eigin rekstur með áherslu á losun og lestun skipa.

Útför Jóns fer fram frá Akureyrarkirkju í dag, 30. janúar 2024, klukkan 13.

Elsku pabbi, ég sit hér með tárin í augunum og hugsa um allar góðu stundirnar sem við áttum saman og finnst eitthvað svo óraunverulegt að skrifa til þín kveðjuorð. Vissulega hefðu samverustundirnar okkar mátt vera mun fleiri síðustu árin.

Ég var alltaf mikill pabbastrákur og elskaði að brasa með þér, það sem við gátum brasað. Þær eru ófáar minningarnar sem skjótast upp í hugann. Allar þær góðu stundir sem við áttum í Bjarkarstígnum, hjólahýsaferðirnar á sumrin, ferðin sem við Emma fórum með þér á fraktskipinu til Þýskalands og Svíþjóðar, þær endalausu klukkustundir sem við eyddum í losun og lestun á skipum út um allt land, þær góðu stundir sem við áttum í Hafnarfirðinum, öll matarboðin sem við Helga komum í bæði í Hafnarfirðinum og á Álftanesinu þar sem við nýttum yfirleitt tímann í leiðinni og skipulögðum næstu vinnudaga.

Þú varst alltaf mikill húmoristi og hafðir mjög gaman af því að stríða fólki og gera það vandræðalegt. Þér var umhugað um að okkur systkinunum vegnaði vel. Þú varst sem dæmi einn af mínum helstu stuðningsmönnum þegar kom að því að gerast flugmaður, ég verð þér alltaf þakklátur fyrir það. Við fórum ófáar flugferðir saman, þú gast alltaf fundið tilefni til að fara í flug. Saman stofnuðum við síðan Fjarðarflug sem við vorum báðir svo ótrúlega stoltir af. Lífið snerist alltaf mikið um vinnuna hjá okkur báðum en tengdi okkur á sama tíma sterkum böndum. Það var því afar dýrmætt að fá að fljúga með þig síðustu flugferðina okkar saman frá Reykjavík til Akureyrar þar sem þú munt hvíla. Ég mun varðveita þá stund að eilífu.

Mér finnst svo sorglegt að hugsa til þess að við munum aldrei geta brasað meira saman, búið til fleiri minningar og að börnin mín fái ekki að alast upp með afa Jóni og kynnast þér betur.

Hvíl í friði elsku besti pabbi minn. Þú verður alltaf í hjarta mínu.

Þinn

Steindór.

Elsku pabbi minn, það er eitthvað svo óraunverulegt að ég sé að skrifa kveðju til þín og rifja upp minningar um þig. Að þú sért í raun og veru farinn og ég muni ekki heyra frá þér aftur er eitthvað svo skrítin tilhugsun. Kveðjan er erfið en minningin lifir, svo mikið er víst. Ég mun halda fast í minninguna og minnast alls þess góða. Þú varst ótrúlegur karakter með svo miklar hugmyndir sem þú vildir framkvæma og alls ekki svo auðvelt að bremsa þig af þegar þú ætlaðir þér eitthvað. Við unnum lengi og vel saman, við minntum alltaf hvort annað reglulega á að við þyrftum ekki að hafa sömu skoðun á hlutunum. Takk fyrir að gefa mér það traust sem þú gafst mér.

Á mínum yngri árum vissi ég aldrei hverju ég átti von á frá þér, þú varst stríðinn, fékkst alls konar hugmyndir. Útilegur í hjólhýsinu, flugferðir, báts- og veiðiferðir. Að hafa fengið að fara með þér í siglingu þegar þú varst í millilandasiglingum var mikil upplifun sem ég minnist alltaf með mikilli gleði. Ég hafði gaman af og mun ég minnast þessa alls af gleði.

Hvíldu í friði og ró elsku pabbi.

Þín dóttir,

Emma.

Elsku afi.

Hversu sárt við söknum þín. Það var alltaf svo gott að koma til þín og leika í garðinum hjá þér og Cristinu og fá svo heitt kakó og kökur, svo ekki sé nú talað um ísinn sem þú áttir alltaf handa okkur. Þú sýndir okkur alltaf hversu vænt þér þótti um það að við kæmum til þín og við gleymum aldrei grallaraskapnum og gysinu í þér. Þú sagðir okkur alltaf hversu vænt þér þætti um okkur og gafst okkur svo gott knús. Okkur er sérstaklega minnisstætt þegar þú áttir hundinn Bangsa og við fórum með hann í göngutúra og lékum við hann í garðinum hjá þér. Við vorum búnar að hlakka svo til sumarsins, því þú ætlaðir að fylla garðinn af blómum og líf okkar af gleði. Elsku afi okkar hvíldu í friði. Þín verður alltaf saknað og aldrei gleymdur.

Elsku afi, guð mun þig geyma

yfir okkur muntu sveima

en eitt vil ég þó að þú vitir nú

minn allra besti afi, það varst þú.

Viktoría Fjóla og
Kristín Birta.

Það er erfitt að kveðja góðan bróður. Við töluðum saman nánast daglega. Áhugasvið hans var ótrúlega mikið, hvort sitt sviðið. Sjór og himinn. Hann elskaði að tala um flug og elskaði að tala um skip og allt sem viðkom vinnunni. Hann hafði óþrjótandi hugmyndir og gekk honum vel í vinnunni sem hann átti svo sannarlega skilið eftir allt streðið, úthaldið og áræðnina. Við áttum langt samtal rétt fyrir áramót þar sem hann fór yfir víðan völl og var hann alltaf stórhuga. Við ræddum ýmsar útfærslur, hugmyndir og framkvæmdir og möguleika. Þaðan sveigðist það svo út í fiskrétti, sósur og meðlæti, en hann elskaði að elda. Þarna voru áhugamálin einnig hvert á sínu sviðinu.

Fyrir mörgum árum hringdi Jón í Ragnar minn og kom með þá uppástungu um að þeir færu saman í einkaflugmannsnám. Hann hafði alla tíð haft áhuga á flugi. Ragnar sló til og þeir hófu nám. Það er styst frá því að segja að Jón hélt áfram í Stýrimannaskólanum og lauk honum, en Ragnar hélt áfram þar sem hann fann sína hillu og fór í atvinnuflugmannsnám.

Börnin okkar, Dísa og Steindór, muna svo vel eftir því þegar Jón kom keyrandi á jeppanum í Barðstúnið með Steindór sinn og fangið fullt af bakarísbrauði. Þegar búið var að gæða sér á brauðinu fór Jón svo með strákana á rúntinn að skoða skip um allan Eyjafjörð sem þeim þótti mikið sport.

Áfram liðu árin og Jón kynntist eftirlifandi eiginkonu sinni, Cristina, sem er lögfræðingur frá Brasilíu. Hún var honum mikil stoð og stytta og var alltaf að hugsa um að hann fengi gott að borða, grænmeti og ávexti. Jón elskaði þó íslenskan mat meira. Á árum áður var leitað víða um landið að sviðalöppum því það var það allra besta sem hann fékk. Var þetta síðan sent með viðhöfn suður og haft var samband við vini. Beggi vinur Jóns mætti annað hvort til hans eða Jón til Begga enda voru þeir miklir vinir. Foreldrar Begga, þau Bergur Pálsson og Jónína, komu oft í Barðstúnið á gamlárskvöld til Emmu og Steindórs og voru allir í götunni kallaðir til og var spilað og sungið með Becks-bjór og Hawaii-vindlar púaðir.

Jón var ótrúlega vinnusamur og hafði brennandi áhuga á sínu starfi og öllu því sem við kom fyrirtækinu hans. Þar gekk hann í öll störf og þurfti hann iðulega að elta skipin hvort sem þau fóru austur eða vestur. Vinnandi langt fram á nótt í kulda og ýmsum veðrum. Þau voru ófá skiptin sem ég hringdi í hann og þá var hann oftar en ekki uppi í krana, í bílnum eða að útvega mannskap. Þar sem allt gerðist á sama tíma og mikið sem þurfti að undirbúa hverju sinni.

Í mörg ár var hann með sumarbústað í Skorradalnum og sótti mikið þangað. Hann var einnig virkur í ferðafélaginu og tók þátt í hinum ýmsu göngum og öðrum viðburðum.

Öll börn Jóns voru honum afar mikilvæg. Söknuður þeirra er mikill og bið ég Guð um að gefa þeim styrk við fráfall Jóns, því hér er mikið skarð sem aldrei verður fyllt.

En engu að síður, áfram gakk við öll.

Þín systir

Kristín Steindórsdóttir.