Þórunn Bjarndís Jónsdóttir fæddist í Reykjavík 12. apríl 1942. Hún lést í faðmi fjölskyldunnar á Líknardeild Landspítalans 19. janúar 2024.

Foreldrar hennar voru Ásta Gunnþórunn Þórarinsdóttir frá Höfða á Vatnsleysuströnd, f. 5.10. 1920, d. 16.11. 2008, og Jón Guðbrandsson frá Sólheimum í Laxárdal, f. 23.8. 1918, d. 20.1.1981. Hún var önnur í röð sjö systkina, þau eru Guðrún Jóna, Guðbjörg Kristín, Anna, Gróa Margrét, Ingigerður og Jón Ástráður.

Þórunn giftist Júlíusi Tómassyni flugstjóra þann 18.6. 1960 en hann lést ásamt Gísla Tómassyni bróður sínum í flugslysi 19.2. 1968. Sonur Júlíusar er Hilmar, f. 11.8. 1959, kvæntur Ernu Ingólfsdóttur, sonur þeirra er Tómas Þórður. Þórunn og Júlíus eignuðust þrjár dætur. Þær eru Karen Júlía, f. 8.12. 1960, gift Valdimari Friðrik Valdimarssyni, börn þeirra eru Gróa Margrét, Þórunn Vala, Júlíus og Stefanía. Ásta Ragnheiður, f. 30.6. 1962, gift Birgi Mogensen, dætur þeirra eru Júlía, Katrína og Ronja. Þórunn Brynja, f. 10.1. 1964, gift Brynjari Gunnarssyni, börn þeirra eru Páll sem er látinn, Erla og Gísli

Þórunn giftist seinni eiginmanni sínum Páli Gestssyni 30.12. 1971 en þau slitu samvistum fyrir nær aldarfjórðungi. Sonur þeirra er Júlíus Magnús, kvæntur Guðrúnu Herborgu Hergeirsdóttur, sonur þeirra er Fannar Þór. Júlíus Magnús á synina Gunnar Pál og Einar Karl frá fyrra hjónabandi. Guðrún Herborg á soninn Janus Daða. Langömmubörnin eru 19.

Þórunn gekk í Laugarnesskóla og lauk þaðan gagnfræðaprófi. Síðar lagði hún stund á tungumálanám, bæði ensku og þýsku.

Hún ólst upp í Bræðraparti í Laugardal. Hún bjó flest sín búskaparár á Kársnesbraut og Skjólbraut í Kópavogi, í Bólstaðarhlíð, Reykjavík og nú síðast í Forsölum, Kópavogi.

Hún vann ýmis störf á sinni starfsævi má þar helst nefna Hótel Loftleiðir, í gestamóttöku, Mjólkursamsöluna, í söludeild og tilraunaeldhúsi, Líkamsræktarstöðina Mátt og Opin kerfi, þar sem hún sá um mötuneyti starfsmanna. Hún lauk starfsævinni í Salalaug í Kópavogi.

Þórunn var mjög bókelsk. Hún las allar Íslendingasögurnar, Laxness og Þórbergur voru eins og heimilisvinir.

Árið 1992 eignaðist Þórunn land á Vatnsleysuströnd í landi Höfða og Bergskots þar sem rætur hennar lágu í móðurætt. Hún nefndi landið Höfðaberg. Þar leið henni best og átti ótal sælustundir með afkomendum sínum, vinum og skyldmennum.

Útför hennar fer fram í dag, 30. janúar 2024, kl. 13 frá Langholtskirkju. Jarðsett verður í Fossvogskirkjugarði.

Í dag kveðjum við sannkallaðan skörung, konu sem tekið var eftir og hlustað var á, glæsilega konu sem vissi, kunni og gat. Já í dag kveðjum við elsku ömmu Tótu eða Þórunni Bjarndísi Jónsdóttur. Hún var allt í senn nútímaleg, þjóðleg en umfram allt yndisleg og ávallt að hugsa um fólkið sitt á sinn einstaka hátt. Í henni má segja að heimar og tímar hafi sameinast, hún var hafsjór af fróðleik liðinna alda en að sama skapi nútímaleg kona sem mætti þó ávallt nútímanum með skynsamlegri hógværð eins og Toyotan og takkasíminn hennar báru vitni um.

Um miðjan janúar kom síðasta símtalið hennar af líknardeildinni til okkar í Álfatúnið og erindið, jú að tryggja það að nafna hennar hefði nú örugglega glatt bónda sinn með þjóðlegum kræsingum á bóndadaginn. Þar sem þorrinn var seint á ferðinni þetta árið var bóndadagur ekki upp runninn og bölvaði hún sér fyrir asnaskapinn en þarna var svo sannarlega amma Tóta söm við sig. Já hún Tóta hafði einstakt lag á að gera vel við fólkið sitt, stýra afkomendum á réttar brautir, vitandi það að umhyggja og hugulsemi er lykilatriði í hamingjuríku sambandi. Tóta hafði lag á sínu fólki, gat verið ákveðin og stundum allt að því þrjósk en ávallt var stutt niður á ólgandi glens og grín og með því mátti alltaf snúa henni þó svo að oftar en ekki endaði það með því að hún segði eitthvað eins og „bölvaður asninn þinn“ með glettni og bros á vör. Eitt var víst, að aldrei nokkurn tímann skildi maður eitthvað önugur við ömmu Tótu. Það var því mér og mínum mikil gæfa að fá að kynnast ömmu Tótu, fyrir það erum við þakklát og ég er svo lukkulegur að búa við ófáa afleggjara hennar sem notið hafa þess að vaxa og dafna í skjóli þessarar ótrúlegu konu.

Elsku Tóta mín, guð gefi þér góða heimkomu, takk fyrir allt fallegt og gott, ég passa upp á skrudduna þína.

Minning þín er mér ei gleymd;

mína sál þú gladdir;

innst í hjarta hún er geymd,

þú heilsaðir mér og kvaddir.

(Káinn)

Guðmundur Rúnar
Benediktsson.

Þá er tengdamóðir mín elskuleg farin að vitja forfeðra sinna. Vinátta okkar varði í nær fimmtíu ár. Hún tók mér strax mjög vel og bauð mig velkominn á heimili sitt. Þannig voru allir velkomnir til hennar. Hún bara bjó til pláss. Hún var í góðu sambandi við alla og þekkti alla. Mundi allt, hvort sem hún hafði heyrt það eða lesið, og þýddi lítið að draga það sem hún sagði í efa. Valdi frekar að lesa góða bók en að standa við uppvaskið. Besti kokkur sem ég hef kynnst og hafa dætur hennar og barnabörn erft gæðin í eldhúsinu frá henni. Hafðu þakkir fyrir það kæra tengdamóðir.

Lífið fór ekki mjúkum höndum um hana, það var gleði og sorg, en alltaf sagði hún: „Eina leiðin er áfram, það þýðir ekkert að dvelja í fortíðinni.“ Þannig hvatti hún mig áfram í mínum veikindum. Ég get seint fullþakkað stuðninginn í gegnum tíðina.

Nú er hún farin og skilur eftir sig stórt skarð í hópnum sínum, hvort sem það eru vinir, systkini og börn þeirra eða hjá sínum börnum, tengdabörnum og barnabörnum.

Hún var sterk, stundum viðkvæm en alltaf einlæg og hreinskilin. Alltaf stóð hún með lítilmagnanum og varði sína afkomendur á hverju sem gekk. Þær mæðgur Þórunn og Kaja mín eru áhrifavaldar í mínu lífi og hafa gert mig að því sem ég er í dag. Takk fyrir það og góða ferð.

Þinn tengdasonur,

Valdimar (Valdi).

Ég kynntist Dóru þegar við Brynja mín byrjuðum saman og ég man það eins og gerst hefði í gær þegar ég var mældur út og metinn með ströngu augnaráði og augabrúnin setti sérstaka áherslu á rannsóknina. Ég hef oft sagt frá því þegar hún strunsaði inn á okkur turtildúfurnar, horfði stranglega á mig og spurði Brynju hvort að hún ætti nú ekki eftir að læra og þyrfti að fara snemma að sofa. Sem betur fer stóðst ég þessar prófraunir og við Dóra áttum síðan alla tíð eftir að eiga yndislegt samband og allt vildi hún fyrir okkur gera. Dóra var sterkur karakter, með mikla hlýju og skemmtilegan húmor, elskaði að sinna gróðrinum í Höfðabergi og kunni líka vel að slaka á yfir bók eða kaplinum góða. Um Höfðaberg má segja að það eru ekki margir sem skilja eftir sig aðra eins arfleifð og hún með því afreki að breyta þessari auðn í þá dásemd sem hún er í dag. Við getum einnig þakkað Dóru að við keyptum á sínum tíma Þórustaði og það var henni alltaf minnisstætt að við skrifuðum undir kaupsamning á afmælisdeginum hennar.

Það segir mjög mikið um samband okkar Dóru þegar ég, staddur erlendis, fékk fyrstur fréttina af andláti Palla okkar. Þá var mitt hlutverk að skila þeim fréttum heim og það fyrsta sem mér datt í hug var að hringja í Dóru. Ég treysti engum betur en henni að færa Brynju minni og börnunum okkar þessar skelfilegu fréttir og það gerði hún á sem bestan hátt.

Dóra var vel lesin og ótrúlega fróð um alla hluti þó ég hafi oft gert grín að því að hún skáldaði svörin og sérstaklega átti þetta við um blóm og jurtir, þegar ótrúlegustu nöfn runnu af hennar vörum. Ég mátti svo nær alltaf éta það ofan í mig þegar ég kannaði á netinu hvort að hún hefði rétt fyrir sér, þó stundum hafi netið ekki kannast við nafnið, en þá lét ég vafann liggja hennar megin. Ein af hennar uppáhaldsiðju var að halda matarboð og gilti þá einu hvort það væri fyrir fimm eða 50 manns. Hún skipulagði allt í þaula og einnig var hún alltaf að versla eitthvað matarkyns á ótrúlegu verði, sem hún yrði endilega að bjóða okkur í mat þar sem hún ætti þetta jú í frystinum.

Fjölskyldan var Dóru allt og kom hún af góðu fólki, sem hún sagði okkur oft sögur af. Ég setti fram á sínum tíma kenningu um að eitthvað hefði á árdögum gerst á Mýrum og þannig hugsanlegt að franskt eða spænskt blóð hefði komist inn í genasafnið. Í framhaldi af því kom nafnið Pomme de Terre til sögunnar og hafði Dóra mjög gaman af þessu uppátæki mínu, en það leynist engum þegar stórfjölskyldan kemur saman að þarna er eitthvað meira í gangi en í öðrum fjölskyldum. Á svona stundu, þegar leiðir skilja, kemur þetta mjög sterkt fram og tilfinningarnar eru miklar og stórar. En eins og Dóra kunni best þá stöndum við fljótt aftur upp og finnum leið til að sjá gleði í lífinu og hún vill heyra okkur hlæja og hafa gaman og þannig höldum við best upp á minninguna um þessa miklu konu.

Brynjar Örn Gunnarsson.

Í dag er ég sorgmædd og í dag mun ég gráta. Í dag fylgjum við ömmu Tótu síðasta spölinn í jarðvistinni. Hún amma var sko engin venjuleg jólakaka eins og hún sagði svo oft sjálf. Hún umvafði alla með ást og hlýju og kenndi mér svo margt. Hún fór í gegnum lífið af æðruleysi, þrátt fyrir að hafa lent í mótlæti í lífinu. Hún þá talaði alltaf um hvað hún væri nú aldeilis heppin og að lífið hefði gefið henni svo margt. Hún tók alltaf á móti manni með bros á vör og gleði í hjarta. Það var alltaf hægt að stóla á að amma gæti galdrað fram eitthvert góðgæti þegar maður kom í heimsókn og ekki fannst henni leiðinlegt ef hún gat sent mann heim með heimalagaða kindakæfu í farteskinu. Bestu kæfu sem hægt er að fá. Þannig var amma Tóta. Hún hlúði að öllum og öllu sem hún kom nálægt, hvort sem það voru plöntur eða fólk. Allir fengu að blómstra með ömmu Tótu. Amma undi sér hvergi betur en á ströndinni sinni þar sem hún hlúði að trjám og plöntum milli þess sem hún bauð allri fjölskyldunni í grill og bakaði pönnukökur. Hún var alls staðar hrókur alls fagnaðar og alltaf til í stuð. Amma var algjör ofurkona og lét ekkert stoppa sig. Hún var svo stolt af öllum sínum afkomendum að hún var að rifna, eins og hún sagði sjálf.

Elsku amma mín, í dag er ég sorgmædd og í dag mun ég gráta. En ég mun líka gleðjast yfir að hafa átt þig að og ég veit að þú fylgist með mér og ert alltaf hjá mér.

Elska þig alltaf.

Gróa Margrét.

Elsku amma.

Sögur segja að þegar ég var tveggja ára gömul þá hafi amma komið að passa mig og endaði sú pössun víst skrautlega. Ég var mjög fegin þegar mamma og pabbi komu heim. Ég náði í kápuna hennar ömmu, rétti henni og sagði „úppa“, sem þýddi að nú væri kominn tími á að hún færi heim. Amma hafði mikinn húmor fyrir þessu og hló mikið að ákveðnu ömmustelpunni sinni. Þrátt fyrir þessa upplifun mína af ömmu aðeins tveggja ára gömul hef ég ætíð síðan notið þess að eiga stundir með henni. Hún var ein af mínum stóru fyrirmyndum í lífinu. Takk fyrir alla hvatninguna, gleðina, umhyggjuna, heimsins besta mat og ástina. Ég elska þig óendanlega mikið.

Þín

Stefanía.

Þökk sé þessu lífi því það var mér örlátt eru orð sem hafa hljómað í höfðinu á mér síðan amma Tóta kvaddi okkur á ísköldum janúarmorgni. Hún amma mín var nefnilega svo þakklát fyrir lífið sitt og fyrir allar þær gjafir sem henni voru gefnar og þá sérstaklega öll börnin sín, barnabörnin og barnabarnabörnin. Hún var ættmóðir mikil og fylgdist með öllu sínu fólki, öllu þeirra fólki, öllum vinum þeirra og kunningjum. Það var engin önnur amma sem þekkir vinkonur barnabarna sinna og knúsaði þær úti í búð og spurði frétta. Henni ömmu var svo annt um náungann og hún kom vel fram við alla.

Amma Tóta var ekki þessi klassíska amma sem átti alltaf eitthvað til í ísskápnum og bakaði smákökur og steikti kleinur, það var nefnilega aldrei neitt til í ísskápnum hjá ömmu Tótu, jú kannski einn laukur og mjólk og hvað er svo sem hægt að gera úr því? Þegar ég var í MH átti amma ennþá heima í Bólstaðarhlíðinni og lét hún mig hafa lykla svo ég gæti skotist heim í frítímum og lagt mig í gula sófann og fengið mér að borða en gallinn var bara sá að það var aldrei neitt til. Amma kom svo heim eftir vinnu og spurði yfirleitt; ertu ekki búin að fá þér eitthvað elskan mín? Nei, amma, það er ekkert til hjá þér, var oftast svarið. Þá var hún ekki lengi að vippa fram einhverri veislu úr einum lauk og kannski rúgbrauði, það var ekki einu sinni til smjör, en þá notaði hún bara majones og úr varð hið flottasta smörrebrauð sem fengist ekki einu sinni á fínustu veitingahúsum. Hún gat galdrað dásemdarmat úr engu og það voru ófá símtölin okkar á milli þar sem ég var að fá góð ráð í eldhúsinu og þar var sko ekki komið að tómum kofanum hjá Þórunni Jónsdóttur.

Við amma skildum hvor aðra og hafði hún alltaf einstakt lag á því að vita hvernig mér leið og hringdi oftar en ekki akkúrat á réttu augnabliki bara til að heyra í Tóslu sinni og athuga hvort það væri ekki allt í góðu, peppandi eins og venjulega, upp með nefið, „stattu undir ljósastaur og baðaðu þig í ljósinu skruddan mín,“ sagði hún iðulega. Hún var alltaf til staðar fyrir mig, sama hvað.

Ég á eftir að sakna þess að koma við í Forsölunum, drekka nokkra kaffibolla og spjalla um heima og geima því hún amma mín sagði svo skemmtilega frá og kunni svo margar sögur. Svo var nú ekki verra að slúðra aðeins um þennan og hinn og þá mátti nú stundum heyrast „fíflið hann þessi og asninn hann hinn“, en alltaf var það sagt í góðu og með glettni. Hún nefnilega var nú engin venjuleg jólakaka, hún Þórunn B. Jónsdóttir. Hún var spariútgáfan með marsípani, rúsínum og meira að segja smá súkkulaði.

Elsku amma mín þurfti svo sannarlega að hafa fyrir lífinu og dundu áföllin á henni en hún hafði alltaf lag á því að sjá það góða og jákvæða hverju sinni og tók sínum áskorunum sem verkefnum til að leysa. Hversu heppin erum við að hafa átt hana ömmu Tótu sem kenndi okkur svo margt og er svo sárt að kveðja.

Elsku amma mín, við pössum upp á hvert annað eins og þú baðst um og guð geymi þig.

Þín elskandi

Þórunn Vala.

Elsku amma mín, ég mun sakna þín. Þú varst einstök manneskja sem geislaðir alltaf af gleði. Þú varst alltaf bjartsýn og hélst ótrauð áfram sama hvað dundi á. Þú hafðir þann einstaka eiginleika að vera ákveðin, stóðst á þínu, sagðir alltaf það sem þú meintir á þinn hátt. Ég veit að þú sagðir hlutina út frá ást og umhyggju, til þess að hjálpa og bæta. Mér leið alltaf betur eftir að hafa talað við þig, þú skildir hvernig hlutirnir virkuðu.

Ég er ekki alveg búinn að átta mig á því að þú sért farin, mér líður eins og það hafi verið í gær sem ég dansaði við þig í brúðkaupinu hjá Gróu og David, spjallaði við þig yfir kaffibolla í litla sumarbústaðnum þínum, mokaði fyrir rotþró í steikjandi hita og díoxíðgasi frá eldgosi meðan þú sagðir mér og Gísla sögur. Ég man eftir því að leika mér í lundinum þínum á Vatnsleysuströnd og pönnukökum í kaffitímanum. Ég man eftir að hafa farið með þér í ferðalög út á land, ég man eftir þínum stórfenglega hæfileika að segja sögur sem héldu manni fram að síðasta orði. Ég man eftir húmornum þínum sem var alltaf til staðar. Hvernig þú minntir mig á að lífið væri of stutt til þess að hafa óþarfa áhyggjur eða eins og þú áttir til að segja: „Illa farið með góðan kvíða!“

Ég sé þig fyrir mér á ströndinni í sumarlandinu, litlu paradísinni sem þú bjóst til fyrir þig og þá sem þú elskaðir. Þar siturðu með afa Júlla að horfa á miðnætursólina í lok júní, það er blankalogn, þið eruð að sötra gin og tónik og ræða allt milli himins og jarðar. Því það er staðurinn sem ég held að þú hefðir helst viljað vera á.

Ég elska þig amma mín og við sjáumst á ströndinni.

Júlíus Valdimarsson.

Amma mín er komin í alheimsfaðminn, aftur inn í ljósið.

Samt er hún hér í hjartanu, í fjöllunum, í fuglasöngnum, í mömmu og moldinni. Hún sá lífið í stóra samhenginu, eins og sólin, með því að hlúa að því smæsta. Amma skilur eftir sig heila veröld, heilan heim sem hún skapaði úr pínulitlu.

Amma sáði þolinmæði, visku, þakklæti og ást í eyðimerkurgula mold og steikti pönnukökur í stöflum, milli þess sem við fylltum hjólbörur af hænsnaskít og bárum í jarðveginn, í hláturskasti yfir lyktinni.

Oft rok og klöppin liggur svo grunnt, öll seltan af sjónum og næringarsnauð mold. Samt óx gras og ljónslappi, gulmura, maríustakkur og fíflar. Víðirinn passaði upp á rósirnar og veggur teggur varð skjól og faðmur fagurbleikra steinbrjóta. Býflugurnar suðandi í víðireklunum, rjúpurnar vellandi og litli birkiskógurinn lýtur nú höfði yfir fáein töfrablágresi sem vaxa þar og dilla sér í sólinni. Alltaf undur og stórmerki þegar voraði, hvernig kom lerkið undan vetri?

Amma töfraði veröld þar sem plöntur og fuglar, mýs og menn komu saman og fundu tengingu við lífið og fegurðina og Guð. Hún amma mín er Ströndin. Hún er jörðin og hlýi stóri faðmurinn sem heldur utan um okkur öll, börnin sín sem hún elskaði svo heitt.

Amma verður hér eins og hún hefur alltaf verið, þótt við sjáum hana ekki lengur. Hún sefur nú vært undir fönninni á ströndinni, eins og burnirótin gerir og rósirnar.

Nú bíðum við til vors, hlustum eftir stelknum og hrossagauknum, ég leggst í mosann, dúnmjúkan mosann bakvið vegg tegg og loka augunum.

Finn lyktina af pönnukökum, hænsnaskít, garðabrúðu. Er með varalit á kinninni, heyri kossahljóðin í eyranu, röddina og hjartað bólgnar af endalausu þakklæti og ást.

Þín

Júlía.

Þér lánið bindi laufgan krans

og líf þitt verði sæla.

Norðanvindanepjufans

nái þig ei að kæla.

Þannig orti amma í Höfða til Tótu systur þá hún var kornabarn. Segja má að þessi staka hafi einmitt lýst hennar lífi. Því líf hennar var ekki alltaf „skyr og rjómi“ sem var hennar orðatiltæki, en hún lét ekki nepjufansinn slá sig niður. Hún stóð styrk í þeim stórviðrum sem á henni dundu. Hún átti sína sterku trú sem var hennar bjarg. Hún var algjör „nagli“ sem við systkinin dáðumst að í mótlæti hennar.

En eins og í óskum ömmu um gott líf henni til handa þá eignaðist hún svo sannanlega laufgan krans og líf hennar var sæla. Hún átti sér griðastað á Ströndinni, Höfðaberg, þar sem hún undi löngum stundum við gróðursetningu og alls konar ræktun.

Börnin hennar öll, Hilmar, Kæja, Ásta, Brynja og Júlli, voru augasteinarnir hennar. „Bestu börn í heimi.“ Hún var svo stolt af þeim og lét þau finna alla sína ást og umhyggju. Já, þannig var hún, alltaf svo umvefjandi og hvetjandi.

Hún er okkur öllum mikill harmdauði en skilur eftir sig svo dásamlegar minningar. Hún var alltaf hrókur alls fagnaðar, hafði geislandi sjarma, var föst fyrir ef þörf var á, sagði skemmtilega frá og var vel lesin.

Við systkinin höfum alltaf verið samrýnd og haft þann sið til margra ára að borða saman signa grásleppu á vorin, sviðalappir á haustin og skötu um jól, nú síðast í desember í Höfða. Þegar þetta lostæti var snætt var það vani Tótu okkar að segja: „Oft hefur hún verið góð, en aldrei eins og núna.“ Þetta var síðasta samvera okkar systkinanna. Við sungum jólalögin okkar og skiptumst á jólapökkum. Hún var í svo góðu stuði og sagði okkur skemmtisögur og mikið og hátt var hlegið. Samvera sem aldrei gleymist.

Við minnumst þín að eilífu, kæra systir,

þegar þúsund vindar blása,

þegar snjókorn glitrar á snæ,

þegar sólarljósið vermir grænar grundir,

þegar milda haustregnið fellur,

þegar hafið sverfur strönd,

þegar við vöknum í morgunkyrrð,

þegar deginum lýkur að kvöldi.

Systkinin,

Guðrún, Kristín, Anna, Gróa, Ingigerður og

Jón Ástráður.

Ég vel þér kveðju, sem virði ég mest,

von, sem í hjarta geymi.

Annist þig drottins englar best,

í öðrum og sælli heimi.

(Vald. Jónsson)

Dóra frænka mín hefur kvatt okkur í hinsta sinn og það er sorglegra en tárum taki. Við, öll mín fjölskylda, minnumst hennar og þökkum af öllu hjarta áralanga vináttu, umhyggju, einstaka góðvild, jákvæðni, hvatningu, stuðning og traust.

Hún var glæsileg kona með óbilandi lífskraft og orku. Hún var náttúrubarn með sterk lífsgildi og réttlætiskennd, stóð alltaf með þeim sem höllum fæti standa en var jafnframt alltaf vakandi yfir velferð sinna nánustu. Þeim var hún einstaklega nærgætin, náin og elskandi mamma, tengdamamma, amma, langamma, systir, mágkona, frænka og vinkona.

„Einstakur“ er orð sem notað er þegar lýsa á því sem engu öðru er líkt, faðmlagi eða sólarlagi eða manni sem veitir ástúð með brosi eða vinsemd. „Einstakur“ lýsir fólki sem stjórnast af rödd síns hjarta og hefur í huga hjörtu annarra. „Einstakur“ á við þá sem eru dáðir og dýrmætir og hverra skarð verður aldrei fyllt. „Einstakur“ er orð sem best lýsir þér.

(Terri Fernandez)

Við kveðjum Dóru með miklum söknuði. Hún var alltaf hlý, elskuleg og umvafði mann kærleika sínum. Hún var jákvæð, bjartsýn og hvetjandi.

Elsku Hilmari, Kæju, Ástu, Brynju og Júlla, tengdabörnum, barnabörnum, langömmubörnum og systkinum sendum við okkar innilegustu samúðarkveðjur. Þið eruð hópurinn hennar, fólkið sem hún var svo ofurstolt af, umvafði af svo mikilli væntumþykju, ættmóðirin sjálf.

Með sorg í hjarta kveð ég einstaka manneskju sem bætti heiminn með nærveru sinni og spekin segir að sorgin sé í raun söknuður eftir kærleika sem ekki er lengur mögulegt að upplifa á sama hátt og áður.

Blessuð verði um alla tíð björt og ástkær minning Þórunnar Bjarndísar Jónsdóttur.

Takk fyrir allt, elsku frænka.

Tómas Jónsson og

fjölskylda.

Hún elsku Tóta hefur kvatt þessa jarðvist.

Ég var lítil feimin sex ára telpa þegar ég kom inn í fjölskyldu hennar og tel það hafa verið mikið gæfuspor því allt hennar fólk tók mér svo vel alla tíð.

Ég minnist Ástu ömmu og allra nánustu í fallegu stórfjölskyldunni hennar. Ég hafði sjaldan séð svo margt fallegt fólk samankomið, sem lá ekki á skoðunum sínum og hafði hátt og líka gaman. Já, það gustaði oft hressilega, mikið líf og fjör.

Það er þakkarvert að eignast æskuvinkonu, elsku Kaju mína, í slíkri fjölskyldu. Síðan höfum við fylgst að í tæplega 60 ár. Brynja varð síðar kær starfssystir og vinkona.

Margar minningar um Tótu koma upp í hugann, seiglan, ákveðnin, hressileikinn og hláturinn, já, þessi hlátur gleymist seint. Að ég tali ekki um veislumatinn sem hún galdraði fram, því matgæðingur var hún mikill. Því fylgdi alltaf tilhlökkun að fara í veislur. Seinni árin nutum við saman tónlistar barnabarna hennar hvort sem var á stofutónleikum eða í kirkjum landsins og vorum við sammála um að það væri hin besta heilun. Hún var glæsileg, skörp, gat verið hvöss en faðmlögin mjúk. Ég minnist hennar í barnaafmælum á Kársnesbrautinni, að vinna í garðinum á Skjólbrautinni og á Ströndinni í sælureitnum sínum.

Ég dáðist að því hvernig hún tók á stórum áföllum í lífinu, hún var fyrirmynd um að gefast ekki upp. Hún fann alltaf gleðina og jákvæðnina aftur, sama hvað. Alltaf svo ánægð með fólkið sitt, hvetjandi og þakklát enda kærleiksríkara og betra fólk vandfundið.

Nú lifir hún í afkomendum sínum sem hún elskaði og var svo stolt af.

Innilegar samúðarkveðjur til allra sem elskuðu Tótu. Ég kveð hana með hlýju í hjarta og segi takk fyrir allt.

Megi eilífðarsól á þig skína, kærleikur umlykja og þitt innra ljós þér lýsa, áfram þinn veg.

Lilja Kristjánsdóttir.