Listakonan „Mig langaði til að búa til áhrifamikla og fallega sýningu þar sem verkin fengju að njóta sín.“
Listakonan „Mig langaði til að búa til áhrifamikla og fallega sýningu þar sem verkin fengju að njóta sín.“ — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sýningin Hildigunnur Birgisdóttir og verk úr safneign stendur yfir í Listasafninu á Akureyri. Forsaga sýningarinnar er sú að Hlynur Hallsson safnstjóri Listasafnsins leitaði til Jóns B.K. Ransu sýningarstjóra um að setja saman sýningu úr safneigninni

Kolbrún Bergþórsdóttir

kolbrun@mbl.is

Sýningin Hildigunnur Birgisdóttir og verk úr safneign stendur yfir í Listasafninu á Akureyri.

Forsaga sýningarinnar er sú að Hlynur Hallsson safnstjóri Listasafnsins leitaði til Jóns B.K. Ransu sýningarstjóra um að setja saman sýningu úr safneigninni. Ransu leitaði síðan til Hildigunnar Birgisdóttur og bað hana sem listamann að vinna með safneignina sem nokkurs konar efnivið.

„Ég fékk excel-skjal með lista yfir öll verkin. Ég fékk líka myndaskjal en þar sem það var ekki tæmandi ákvað ég að líta ekki frekar á það. Ég valdi verk út frá excel-skjalalistanum, verk sem kölluðu á mig af ýmsum ástæðum en samt ekki sjónrænum ástæðum. Það var stórmerkilegt að velja myndlistarverk út frá annarlegum ástæðum, mér fannst ég verða að treysta á einhvers konar innsæi og lesa á milli línanna. Ég valdi um það bil þrjátíu verk í einhvers konar forval og sá svo verkin í fyrsta sinn síðastliðið sumar.“

Á endanum valdi Hildigunnur átta verk á sýninguna. „Ég vildi ekki búa til handahófskennda sýningu heldur valdi ég verkin út frá mínum forsendum, þótt þær væru upphaflega ekki þessar sjónrænu. Mig langaði til að búa til áhrifamikla og fallega sýningu þar sem verkin fengju að njóta sín.“

Eitt verkanna, eftir listakonuna Kiurigei, var ekki í forvalinu en Hildigunnur valdi það eftir að hafa séð pínulitla ljósmynd af því í gamalli spjaldskrá á safninu. „Ég hugsaði með mér að það smellpassaði á sýninguna. Ég hélt að þetta væri málverk en þegar ég mætti til að setja upp sýninguna kom í ljós að það var textílverk.“

Pakkning Kjarvals

Ásamt því að staðsetja verkin í rými gerði Hildigunnur fjögur verk sérstaklega fyrir sýninguna. „Dæmi um slíkt verk er rauður gólfdúkur eftir mig sem heitir „ca. bursta hæð“. Vegglisti dúksins dregur hæð sína af einu verkanna á sýningunni eftir Jón Sigurpálsson sem er fagurlega útskorinn strákústur með rauðum burstahárum og heitir „Sunnudagur“. Skúlptúrnum er stillt á dúkinn og þá er eins og hann sökkvi inn í kjörlendi sitt.

Það sló mig að eitt verk í safneigninni, japönsk trérista, var eftir óþekktan höfund, mér fannst það spennandi. Ekki er vitað hvernig hún lenti í safneigninni en við vitum núna hver listamaðurinn er. Hirushige hét hann og var uppi á 18. öld. Ég steypi saman þessu verki sem sýnir fallegan dal í Japan og verki sem sýnir Þórsmörk og er eftir Katrínu Jósepsdóttur, sem oftast var nefnd Kata saumakona, var búsett á Akureyri og málaði af mikilli elju í hjáverkum. Þetta eru, þrátt fyrir að koma sitt frá hvoru heimshorninu, frekar áþekk myndefni sem deila meðal annars sérstökum bláum tóni. Ég nýtti mér hann og útbjó bláan hjálm með götum á og verk þessara tveggja listamanna sjást í gegnum hann. Verkið heitir „Af þessum heimi“.

Hildigunnur nefnir síðan þriðja verkið eftir sig sem nefnist „Merkilegur pappír“. „Í safneigninni er pakkning utan af málverki sem Kjarval sendi norður. Kjarval gerði hressilega teikningu á pappírinn sem líkist stóru frímerki og skrifaði nokkur sendibréf. Einhverjum hugnaðist að geyma pakkninguna ásamt bréfunum og Haraldur Ingi starfsmaður safnsins skráði sendingarsöguna og vélritað skjal með þeirri lýsingu er varðveitt með hinum gersemunum í safneigninni. Í ljósi sögunnar eru þessir pappírar merkilegir og ég lét útbúa sérstakan stand fyrir þá,“ segir Hildigunnur.

Sýningin í Listasafninu á Akureyri stendur til 24. nóvember á þessu ári.

Örlítið fjarstæðukennt

Hildigunnur verður fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum seinna á þessu ári. Spurð hvernig tilinning það sé segir hún: „Mikill heiður og örlítið fjarstæðukennt í fyrstu en þetta er að venjast.“

Um framlag sitt segir hún: „Ég var svo heppin að vera valin og þurfa ekki að útbúa tillögu, það gefur mér ákveðið frelsi til þess að halda áfram með þau hugðarefni sem hafa herjað á mig síðustu ár. Verkin munu því flest hverfast um gildismat og viðskiptakerfi mannanna sem virðast ætla að glepja okkur. Framleiðsla verkanna er á lokametrunum og sumt tilbúið sem betur fer. Uppsetning er síðan handan við hornið. Það er ekkert grín að standa í stórræðum í Feneyjum.“

Höf.: Kolbrún Bergþórsdóttir