UNRWA á sér ekki viðreisnar von og Hamas á ekki að fá meira fé frá Íslandi

Alþjóðadómstóllinn í Haag felldi á föstudag bráðabirgðaúrskurð í máli Suður-Afríku gegn Ísrael fyrir ætlað þjóðarmorð. Þar var Ísraelsmönnum uppálagt að haga hernaði sínum á Gasasvæðinu svo engin hætta sé á slíku, en ekki látið að meginkröfu Suður-Afríku, líkt og var vikið að í einu sérálitinu:

„Suður-Afríka kom fyrir dóminn og leitaði tafarlauss vopnahlés á Gasasvæðinu. Hún reyndi ranglega að koma sök af Kaín á Abel.“

Þessa biblíulegu líkingu skrifaði Aharon Barak, hinn ísraelski dómari réttarins, sem jafnframt er eini dómarinn af 17 sem þekkir þjóðarmorð af eigin raun; 87 ára og fæddur í Litháen þar sem Þjóðverjar útrýmdu 95% allra gyðinga.

Dómstóllinn hafnaði kröfu Suður-Afríku um að hætta hernaðinum gegn Hamas, enda var það Hamas sem rauf vopnahléið með viðurstyggilegri árás sinni hinn 7. október. Alþjóðadómstóllinn kvað einnig á um „tafarlausa og skilyrðislausa lausn“ á ísraelskum gíslum, sem Hamas og stuðningsmenn láta sér fátt um finnast.

Mestri furðu gegnir að Alþjóðadómstóllinn hafi ekki einfaldlega vísað máli Suður-Afríku frá.

Þrátt fyrir að flest sé á huldu um hið raunverulega mannfall á Gasa blandast fáum hugur um að það er mikið, jafnvel þó svo það þyki í minna lagi miðað við það sem gerist í borgarhernaði. Í því felst hins vegar ekkert um „þjóðarmorð“ sem er sérstakt hugtak, sem mikilvægt er að sé ekki misnotað í áróðursskyni. Það felur í sér ásetning um útrýmingu eða kerfisbundna atlögu gegn almennum borgurum, sem ekki á sér önnur markmið. Ekkert bendir til þess að það eigi við.

Kæra Suður-Afríku um þjóðarmorð er því lögð fram gegn betri vitund, en í henni felst líka sérstök meingerð gegn Ísrael – ríki sem var stofnað undir handarjaðri Sameinuðu þjóðanna í beinu framhaldi af helförinni.

Það var líka eitthvað skrýtið við að heyra útleggingar á dómnum, á minningardegi helfararinnar, án þess þó að minnst væri á hana, en hins vegar reiddu sumir dómararnir sig á framburð stofnana á borð við Palestínuflóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNRWA), sem er hreint ekki með hreinan skjöld.

Það virtist hins vegar koma António Guterres, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, í opna skjöldu að frétta af því, þó að um árabil hafi verið fundið að því að UNRWA og starfslið þess í Gasa væri allt of nátengt Hamas, en einnig að landlægri spillingu. Raunar svo mjög að undanfarin ár hafa verið lögð drög að því að leggja stofnunina niður.

Nú eru komnar fram skjalfestar ásakanir um að 12 starfsmenn UNRWA hafi átt beinan þátt að blóðbaðinu 7. október, en Ísrael hefur sagt að kynnt verði frekari gögn um þátt UNRWA í grimmdarverkum Hamas.

Vestrænar leyniþjónustur telja að a.m.k. 10% af um 12.000 starfsmönnum UNRWA í Gasa séu beinlínis Hamas-liðar, þar á meðal margir háttsettir, sem þannig séu persónulega á spenanum, en vinnuskylda misjöfn. Þar fyrir utan séu liðlega 10% með bein tengsl við Hamas á einhvern hátt, en um helmingurinn með náin fjölskyldutengsl við Hamas-liða.

Það snýst ekki aðeins um fjárhagslega spillingu og sóun á hjálparfé, því á vegum UNRWA eru m.a. reknir skólar, þar sem börnum er frá unga aldri innrætt gyðingahatur, fasísk hernaðarhyggja og lofgjörð píslarvættisdauða.

Ekkert af þessu eru nýjar upplýsingar, en samt hafa vestræn ríki lengst af látið sem ekkert sé og haldið áfram fjárstuðningi til UNRWA, sem rennur bæði beint og óbeint til hryðjuverkahreyfingar.

Það á líka við um Ísland, sem bætti heldur í þegar eftir hryðjuverkin 7. október og hét frekari fjárstuðningi, þrátt fyrir að utanríkisráðherra játaði að lítið væri vitað um hvernig þeim fjármunum væri varið, en fregnir bárust af því hvernig Hamas hrifsaði til sín öll hjálpargögn. Nú senda engir meiri fjármuni þangað miðað við höfðatölu en Íslendingar.

Það er því ekki skrýtið þótt fjölmörg vestræn ríki – Ísland þar með talið – hafi fryst fjárframlög til UNRWA þegar beinhörð gögn eru lögð fram um hryðjuverk starfsmanna hennar.

Hið skrýtna er að þau hafi ekki fyrir löngu verið aflögð fyrir fullt og fast og hinni almennu Flóttmannahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) eftirlátið að koma aðstoð til Palestínuaraba líkt og allra annarra flóttamanna heims. Því UNRWA er ekki við bjargandi frekar en Kaín forðum.