Menning „Mig langaði að þessi stúlkna- og kvennamenning, það voru reyndar nokkrir drengir sem söfnuðu líka, gleymdist ekki,“ segir Jóna Imsland.
Menning „Mig langaði að þessi stúlkna- og kvennamenning, það voru reyndar nokkrir drengir sem söfnuðu líka, gleymdist ekki,“ segir Jóna Imsland. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Anna Rún Frímannsdóttir annarun@mbl.is

Anna Rún Frímannsdóttir

annarun@mbl.is

„Ástæða þess að ég fór að safna þessum servéttusöfnum var sú að mig langaði að þessi stúlkna- og kvennamenning, það voru reyndar nokkrir drengir sem söfnuðu líka, gleymdist ekki. Ég veit ekki nákvæmlega hvenær var byrjað að safna servíettum en alla vega um 1950,“ segir Jóna Imsland myndlistarmaður við Morgunblaðið en hún tók sig til og auglýsti á Facebook eftir servíettusöfnum. Segir hún viðbrögðin ekki hafa látið á sér standa.

„Ég gerði ráð fyrir að söfnin lægju svona hér og þar í reiðileysi og gerði þetta með það fyrir augum að koma þessu svo eitthvert á safn. Ég fékk fullt af servíettum og gæti enn þá verið að taka við en einhvers staðar varð ég að stoppa því þetta var eiginlega bara klikkuð vinna. Á endanum urðu þetta fimm bananakassar af servíettum, sem er svakalegt magn, en ég taldi þær þó ekki,“ segir hún og bætir við að hún hafi nú farið haglega í gegnum öll söfnin og flokkað þau vel og vandlega.

Servíettur hafa breyst

Jóna, sem búsett er í Hafnarfirði, tók á það ráð að leita til byggðasafnsins þar í bæ og segir hún starfsfólkið hafa samstundis tekið vel í þá hugmynd hennar að taka við safninu og varðveita það. „Ég var svo ánægð því hér í Hafnarfirðinum er reglulega eitthvað gert í sambandi við barnamenningu og ég sé þetta alveg fyrir mér í Hafnarborg á sýningu þar.“

Þá segir Jóna töluverðan mun á servíettum í dag og um miðbik síðustu aldar. „Í dag eru sterkir litir og annars konar myndir og munstur sem hylja oftar en ekki alla servíéttuna en áður var meira um myndir eða munstur á hvítum grunni. Nú flæða servíettur út um allt og vafalaust er auðvelt að koma upp stöflum af söfnunarkössum á stuttum tíma. Hér áður fyrr var setið um servíetturnar og helst safnað um jól, páska, í fermingum og afmælum,“ segir hún og rifjar upp þegar hún var barn og safnaði sjálf. „Þetta var dásamlegur tími, sérstaklega í kringum jólin, því þá fylgdu stundum nýbakaðar jólasmákökur með í nesti eftir betl í ákveðnum húsum. Að erfa söfn eftir eldri systur og frænkur var líka ómetanlegt. Í dag tíðkast þetta ekki, þótt enn séu margar konur að safna servíettum, því börn eru upptekin við dótið sitt.“

Auk servíettusafnanna óskaði Jóna eftir sögum í kringum servíettusöfnun en hún hefur nú tekið þær saman og fara þær einnig á Byggðasafnið. Við leyfum að lokum einni þeirra að fylgja hér:

„Þegar ég var lítil stelpa á Hvolsvelli þá gengum við vinkonurnar hús úr húsi og „sníktum“ servíettur. Aðalmálið var að enda hjá konunni sem vann í Kaupfélaginu því hún átti alltaf svo fallegar servíettur og svo bauð hún okkur inn og við fengum kók í gleri. Annars voru fermingarservíetturnar alltaf mjög vinsælar og svo skoðuðum við söfnin hjá hvor annarri og bíttuðum.“