Sviðsljós Swift fagnaði sigri kærasta síns, Scotts, í ruðningi á sunnudag.
Sviðsljós Swift fagnaði sigri kærasta síns, Scotts, í ruðningi á sunnudag. — AFP/Patrick Smith
Djúpfalsaðar myndir af kynferðislegum toga af tónlistarkonunni Taylor Swift fóru í umferð á samfélagsmiðlinum X, áður Twitter, fyrir helgi og hefur miðillinn nú lokað tímabundið fyrir leit að orðunum „Taylor Swift“ í leitarvél sinni

Djúpfalsaðar myndir af kynferðislegum toga af tónlistarkonunni Taylor Swift fóru í umferð á samfélagsmiðlinum X, áður Twitter, fyrir helgi og hefur miðillinn nú lokað tímabundið fyrir leit að orðunum „Taylor Swift“ í leitarvél sinni. Í frétt The Guardian segir að ein myndanna af Swift hafi verið skoðuð 47 milljón sinnum áður en aðganginum sem deildi myndunum upphaflega var lokað.

Vakti þetta mikla athygli og talsmaður Hvíta hússins var meðal þeirra sem lögðu orð í belg. Haft var eftir fjölmiðlafulltrúanum Karine Jean-Pierre að þar væri fólki „brugðið“. Bandaríska þingkonan Yvette D. Clarke skrifaði á X að það sem hefði komið fyrir Swift væri ekkert nýtt. Konur hefðu verið fórnarlömb djúpfölsunar í mörg ár en með framförum í gervigreind væri orðið enn auðveldara og ódýrara að falsa myndir.

Elon Musk, eigandi X frá 2022, hefur verið gagnrýndur fyrir stefnubreytingar og hafa auglýsendur dregið úr auglýsingum vegna möguleikans á að þær birtist við hlið skaðlegs efnis.