Sumar og sól Óvenjuþurrt og -sólríkt var á sunnanverðu landinu í júlí.
Sumar og sól Óvenjuþurrt og -sólríkt var á sunnanverðu landinu í júlí. — Morgunblaðið/Eyþór
Veðurstofan segir að veðurfarið á síðasta ári hafi verið að mestu hagstætt. Það var hægviðrasamt, þurrt, snjólétt og illviðri frekar fátíð. Fram kemur í yfirliti Veðurstofunnar að árið hafi þó verið í svalara lagi ef miðað er við hitafar síðustu ára

Veðurstofan segir að veðurfarið á síðasta ári hafi verið að mestu hagstætt. Það var hægviðrasamt, þurrt, snjólétt og illviðri frekar fátíð.

Fram kemur í yfirliti Veðurstofunnar að árið hafi þó verið í svalara lagi ef miðað er við hitafar síðustu ára. Á landsvísu var hitinn 0,1 stigi undir meðallagi áranna 1991 til 2020, en 0,4 stigum undir meðalhita síðustu tíu ára. Kaldast var á Norðurlandi en hlýrra suðvestanlands og við suðurströndina.

Árið var tiltölulega þurrt og var úrkoma undir meðallagi um mestallt land. Það voru nokkur þurr tímabil á árinu, t.d. í mars og í júlí, en það rigndi líka hressilega inni á milli. Það var óvenju þungbúið og blautt á sunnan- og vestanverðu landinu í maí og júní.

Veturinn 2022-2023 var óvenjulega kaldur á landinu öllu. Segir Veðurstofan að nær samfelld kuldatíð hafi ríkt á landinu frá 7. desember til 19. janúar. Kuldatíðin var sérstaklega óvenjuleg á Suðvesturlandi og voru þessar sex vikur t.d. þær köldustu í Reykjavík síðan 1918. Í mars kólnaði aftur og önnur samfelld kuldatíð stóð yfir frá 6. til 28. mars. Kaldast var á norðaustan- og austanverðu landinu en óvenjuþurrt og -sólríkt á Suðvesturlandi á þessu tímabili. Töluverður snjór var hins vegar um landið norðan- og austanvert. Mikill fjöldi snjóflóða féll á Austfjörðum í lok mars, þau stærstu í Neskaupstað og ollu þar miklu eignatjóni.

Fyrstu tveir sumarmánuðirnir voru mjög ólíkir. Óvenjuleg hlýindi voru á Norður- og Austurlandi í júní sem var hlýjasti júnímánuður frá upphafi mælinga á Akureyri og Egilsstöðum. Á sama tíma var óvenju þungbúið og úrkomusamt á sunnan- og vestanverðu landinu. Í júlí voru aftur á móti norðan- og norðaustanáttir ríkjandi allan mánuðinn. Þá var kalt á Norður- og Austurlandi en hlýrra suðvestanlands. Óvenjuþurrt og -sólríkt var á sunnan- og vestanverðu landinu og var þetta víða langþurrasti júlímánuður frá upphafi mælinga. Ágústmánuður var tiltölulega hlýr um meginhluta landsins.

Haustið var hægviðrasamt, snjólétt og veður almennt gott. Tiltölulega hlýtt var sunnanlands en kaldara fyrir norðan. Desember var svo tiltölulega kaldur en hægviðrasamur og þurr.