Guðmundur Þórir Tryggvason fæddist í Reykjavík 28. janúar 1937. Hann lést á Landspítalanum 14. janúar 2024.

Foreldrar hans voru þau Tryggvi Gunnar Júní Gunnarsson, f. 10. júní 1885, d. 20. október 1967 og Guðrún Pálína Guðmundsdóttir, f. 10. júní 1901, d. 8. október 1983.

Þórir, en hann gekk undir því nafni, var einn tólf systkina og næstyngstur en af þeim komust tíu til fullorðinsára,
af þeim eru eftirlifandi þau Erla búsett í Bandaríkjunum og Kristján búsettur í Garðabæ.

Eftirlifandi eiginkona Þóris er Edda Lóa Skúladóttir, f. 28. júlí 1938. Börn þeirra eru: 1) Guðjón Þór Guðmundsson, f. 29. mars 1963 og á hann fjögur börn: Þóri, f. 1991, Lilju Rós, f. 1994, Guðmund Örn, f. 1995 og Benjamín, f. 2001. Guðjón er fráskilinn. 2) Guðrún Guðmundsdóttir, eiginmaður Egill Viggósson og eiga þau fögur börn: Erling Þóri, f. 1986, Egil Örn, f. 1988, Eddu Kolbrúnu, f. 1991 og Erlu Guðrúnu, f. 2001.

Guðmundur Þórir var húsasmiður og starfaði við iðn sína til 72 ára aldurs, lengst af hjá Reykjavíkurborg. Hann og Edda Lóa byggðu sér heimili 1980 við Hryggjarsel í Reykjavík og bjuggu þau þar alla tíð síðan. Þórir var almennt heilsuhraustur og var heima þar til fyrir fjórum vikum er hann veiktist og lagðist inn á Landspítalann þar sem hann lést.

Útförin fór fram í kyrrþey að ósk hins látna.

Á sama tíma og náttúran hamast og ber á Grindvíkingum þá lagði hann pabbi minn og tengdafaðir aftur augun í síðasta sinn. Hann er búinn að vera stór hluti af lífi okkar og fjölskyldunnar allrar allan þann tíma sem við höfum lifað og litað líf okkar. Víst er að við fráfall hans verða allir hlutir eitthvað öðruvísi. En við höfum tekið þá ákvörðun að hryggjast ekki heldur gleðjast yfir lífi hans og því sem hann var okkur og ylja okkur yfir góðum minningum. Hann smiðurinn að hjálpa okkur við smíðar og lagfæringar á húsum, hann hlustandi á vandamál hvers tíma og leggja þar til góðar lausnir. Við minnumst þess þegar barnabörnin komu til sögunnar sem sóttu til afa síns og einnig síðar barnabarnabörnin sem kölluðu hátt þegar þau komu í heimsókn: „Hvar er afi?“ En fyrst of fremst gleðjumst við yfir því að hafa átt hann að öllum stundum. Pabbi var kristinn og treysti á góðan Guð til þess að vísa sér veginn og við erum þess fullviss að hann á góða heimkomu og fjölmarga sem taka á móti honum þegar hann mætir á græna velli eilífðarinnar.

Þín dóttir

Guðrún og Egill.

Heimili ömmu og afa var ekki bara heimili heldur griðastaður, þar hittist stórfjölskyldan á hátíðum og borðaði góðan mat og spilaði og skemmti sér. Þar var líka farið bara í kaffi og spjall. En til viðbótar var þetta líka sérstakur staður fyrir nokkur af okkur barnabörnunum því þau opnuðu heimili sitt fyrir okkur meðan við vorum í háskólanámi og var þetta því heimili okkar þann tíma og er sá tími enn yfirstandandi.

Afi var maður fárra orða en nærvera hans og bros var hlýjast af öllum. Hann fylgdist með öllum prófum og verkefnum og spurði ömmu alltaf hvernig okkur hefði gengið og ef það var eitthvað sem hann vildi koma til skila eða eitthvað sem hann hafði áhyggjur af þá var það oftast í gegnum ömmu sem skilaboðin komu.

Afi hefur alltaf verið mikill stelpuafi og dekraði á sinn hátt við okkur þegar við áttum heima hjá honum, t.d. þegar hann vissi að við værum að fara eitthvað, þá var hann mættur út að skafa bílinn eða moka planið. Hann var mikill smekkmaður og gátum við alltaf treyst á að fá álit frá afa varðandi klæðaburð, t.d.: „Afi, hvorir skórnir?“ Hann hugsaði alltaf fyrir því að við værum vel klæddar og að okkur væri ekki kalt.

Hann var greiðvikinn með afbrigðum.

Við vorum að hugsa um hvað við gætum kallað afa svona til að hrósa honum, var hann hetjan okkar, verndari okkar eða hvað en lausnin á þeim vanda var einföld, hann var einfaldlega afi og það er best.

Við munum sakna þín elsku afi.

Þínar

Lilja og Edda.

Hvað á að segja þegar stólpi í lífi manns hverfur á braut?

Afi okkar, Þórir, var rólegur og yfirvegaður maður sem nálgaðist lífið á sama hátt og okkur barnabörnin. Það kom okkur alltaf á óvart hvað hann fylgdist vel með því sem var í gangi hverju sinni í lífi okkar og að hann lagði sig fram við að spyrja eftir högum okkar, sem er ekki sjálfsagt fyrir menn af hans kynslóð. Afi var einstaklega stundvís, þolinmóður og vandvirkur, alltaf reiðubúinn að rétta fram hjálparhönd þegar á þurfti að halda. Hann kenndi okkur margt gegnum lífið og þá sérstaklega hversu mikilvægt það er að vanda sig við þá hluti sem maður tekur sér fyrir hendur og þolinmæði meðan á verki stendur. Við munum sakna hans en vitum að hann hverfur á braut sáttur með líf sitt, það sem hann hefur áorkað og í vissu um að vel verður tekið á móti honum í því næsta.

Við elskum þig afi.

Erling Þórir Egilsson
og Egill Örn Egilsson.

Afi minn var besti afi í heimi. Ég veit ekki hvað meira er hægt að segja en það að hann var ljúfur og góður maður sem var alltaf jafn spenntur og ánægður að sjá mig, en samt alltaf jafn hissa á að ég væri orðin nógu stór til að keyra sjálf, og hann bauð mér alltaf far heim þegar það var snjór, þó svo hann mætti ekki keyra svona langt, sagði amma.

Þegar ég fór heim eftir kaffi þá fylgdu amma og afi mér út að dyrum og gáfu mér koss á kinn og svo kyssti hann ömmu líka á hennar kinn.

Hann elskaði mig næstum eins mikið og hann elskaði súkkulaði en bara næstum. En hann elskaði ömmu mína meira en allt.

Hann var besti afi, pabbi, eiginmaður og vinur í heimi.

Takk fyrir allt, afi minn.

Þín

Erla Guðrún.