Grindavík Gunnar Þór Jónsson og Alexandra Hauksdóttir voru ánægð með að komast í húsið sitt í Grindavík.
Grindavík Gunnar Þór Jónsson og Alexandra Hauksdóttir voru ánægð með að komast í húsið sitt í Grindavík. — Morgunblaðið/Eggert
Þau Alexandra Hauksdóttir og Gunnar Þór Jónsson voru með fullan sendiferðabíl af dóti þegar blaðamaður náði tali af þeim við lokunarpóst á Norðurljósavegi skammt frá Bláa lóninu í gær. Yfirvöld gáfu Grindvíkingum leyfi til að fara heim til sín í…

Freyr Bjarnason

freyr@mbl.is

Þau Alexandra Hauksdóttir og Gunnar Þór Jónsson voru með fullan sendiferðabíl af dóti þegar blaðamaður náði tali af þeim við lokunarpóst á Norðurljósavegi skammt frá Bláa lóninu í gær.

Yfirvöld gáfu Grindvíkingum leyfi til að fara heim til sín í þrjár klukkustundir til að sækja þangað muni og huga að húsnæðinu. Fylgja þurfti ströngum reglum. Meðal annars mátti ekki eiga við hitastillingar, ekki nota salerni og ekki fara um bæinn, enda mikið af opnum skurðum og sprungum.

Að sögn Alexöndru sóttu þau ýmsa muni sem vantaði í íbúðina þar sem þau búa núna með börnunum sínum tveimur, þar á meðal fyrir eldhúsið.

„Við sóttum líka fleiri föt og dót fyrir börnin okkar. Hann [Gunnar Þór] sótti golfsettið sitt og svo sóttum við pítsaofninn okkar. Þetta var bara sitt lítið af hverju, en engir stórir munir samt,“ greinir Alexandra frá úr farþegasætinu.

Húsið eins og nýbyggt

Húsnæðið þeirra í Grindavík er parhús. Spurð út í ástandið á því eftir jarðhræringarnar í bænum segir Alexandra það vera eins og nýbyggt, en þangað fluttu þau inn fyrir tveimur og hálfu ári.

Húsið er nálægt stóru sprungunni í Grindavík og í hverfinu þar sem hraunið rann inn í bæinn. Húsið var samt aldrei í hættu, enda í öruggri fjarlægð.

Úr 190 fermetrum í 60

„Mér leið mjög vel heima,“ segir Alexandra, sem vill flytja aftur á heimaslóðirnar með fjölskyldunni „þegar allt er orðið öruggt“.

„Við erum í Keflavík í 60 fermetrum úr 190 [fermetrum]. Þetta er smá munur,“ bætir hún við um muninn á íbúðinni þeirra núna og parhúsinu góða. Ef þau fá stærri íbúð á næstunni ætla þau að sækja það sem eftir er af búslóðinni í Grindavík næst þegar það verður í boði.