Fimmtugir á árinu Æskuvinirnir Elli, Jói, Doddi og Einar í veiði í Affallinu.
Fimmtugir á árinu Æskuvinirnir Elli, Jói, Doddi og Einar í veiði í Affallinu.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Einar Hannesson er fæddur 30. janúar 1974 í Kaupmannahöfn þar sem hann bjó fyrstu tvö ár ævi sinnar, en foreldrar hans voru i námi þar. „Við fluttum svo til Reykjavíkur í Árbæinn þar sem ég bjó til sjö ára aldurs

Einar Hannesson er fæddur 30. janúar 1974 í Kaupmannahöfn þar sem hann bjó fyrstu tvö ár ævi sinnar, en foreldrar hans voru i námi þar. „Við fluttum svo til Reykjavíkur í Árbæinn þar sem ég bjó til sjö ára aldurs. Þar sem það eru margir sem heita Einar í stórfjölskyldunni þá var ég lengst af kallaður Einar Árbæingur í fjölskyldunni til að aðgreina mig frá öðrum „Einurum“.“

Í kjölfarið fluttist fjölskyldan í Húnavallaskóla í Austur-Húnavallasýslu þar sem foreldrar hans kenndu við skólann. „Ég þvældist á milli bæja í sveitinni hjá bekkjarfélögum og kynntist bústörfum. Þar bjuggum við í fjögur ár eða til 11 ára aldurs. Eftir það fluttum við í Fífuhvamminn í Kópavogi þar sem ég „ólst upp“ að mestu og eignaðist minn sterka æskuvinahóp. Gekk í Kópavogsskóla og svo í kjölfarið í Menntaskólann í Kópavogi þar sem ég útskrifaðist sem stúdent. Tók mér árs „frí“ frá MK og fór sem skiptinemi á vegum AFS til Kansas City.“

Eftir þetta lá leið Einars í Tækniskólann þar sem hann útskrifaðist i byrjun árs 2000 með BSc-gráðu í iðnaðartæknifræði. „Þar kynntist ég mjög öflugum hópi yndislegra vina sem höfum haldið þétt hópinn allar götur síðan. Haustið 2007 fór ég svo í MBA-nám við Háskóla Íslands og útskrifaðist vorið 2009. Það má segja að þar hafi ég loksins fundið mig almennilega í námi og það nám opnaði margar dyr fyrir mér og veitti mér mikið sjálfstraust, má kannski segja að ég hafi áttað mig á því hvað í mér bjó.“

Öll unglingsárin vann Einar sumarvinnu, og með skóla, í járnabindingum. „Það var aukabúgrein hjá stórfjölskyldu minni í föðurætt. Eftir útskrift í Tækniskólanum fór ég að vinna hjá Tal rétt eftir að þeir hófu starfsemi en þar var ég í sölu og markaðsdeild í einstaklega skemmtilegu umhverfi. Árið 2003 fór ég svo til Póls á Ísafirði þar sem ég vann sem sölustjóri. Haustið 2004 tók ég svo við starfi sem forstöðumaður flugafgreiðslu hjá Icelandair Ground Service (IGS) og fljótlega fluttumst við fjölskyldan til Keflavíkur, þar sem við höfum búið allar götur síðan.“

Í lok árs 2010 tók Einar svo við sem sparisjóðsstjóri SpKef sem rann svo í byrjun árs inn í Landsbankann og þar starfaði hann sem útibússtjóri í Reykjanesbæ til haustsins 2016. Eftir það var hann ráðinn til Fastus ehf. sem framkvæmdastjóri og var þar í 6 ár. Í byrjun árs 2022 tók Einar svo við sem framkvæmdastjóri Sólar ehf. en það er eitt stærsta ræstingafyrirtæki landsins með yfir 450 starfsmenn. „Þar uni ég hag mínum afskaplega vel, fjölbreyttur og áhugaverður vinnustaður með frábæru samstarfsfólki. Menn hafa nefnt það að þetta sé sérstakur starfsferill á margan hátt en ástríða mín hefur legið í rekstri og mannauðsmálum og má segja að reynsla mín hafi nýst í þessum störfum þó þau séu öll á mismunandi sviðum.“

Íþróttir hafa skipað stóran sess í lifi Einars.. „Á unglingsárunum æfði ég fótbolta, handbolta, körfubolta og fleiri íþróttir og spilaði körfubolta með Breiðabliki í meistaraflokki, ekki mjög hæfileikaríkur en komst ansi langt á hörku og miklu keppnisskapi. Eftir að ferlinum lauk fór ég í stjórn körfukattleiksdeildar Breiðabliks en þegar við fjölskyldan fluttumst til Keflavíkur fór ég fljótlega að taka að mér sjálfboðaliðastörf hjá þeim. Ég var samtals um 8 ára skeið í stjórn unglingaráðs, formaður unglingaráðs körfuknattleiksdeildar Keflavíkur og svo í stjórn deildarinnar. Fylgdist að með eldri börnunum mínum tveimur sem voru í körfunni fram undir tvítugt. Í dag er ég grjótharður Keflvíkingur. Í byrjun árs 2023 tók ég svo sæti í stjórn Körfuknattleikssambands Íslands. Einnig hef ég komið að ýmsum öðrum félagsstörfum í gegnum tíðina og líklega er ókostur minn að ég á erfitt með að segja nei þegar leitað er til mín í þeim efnum.“

Önnur helstu áhugamál Einars eru skíði. „Þau eiga reyndar hug minn allan um þessar mundir og ég veit ekkert skemmtilegra en að fara í skíðaferðir í Alpana í góðra vina hópi,“ en Einar er staddur núna ásamt hópi vina og vandamanna á skíðum í Saalbach í Austurríki.

„Einnig er ég að rembast við golfið og þar loksins fór eitthvað að ganga síðasta sumar eftir að ég náði aðeins að hemja keppnisskapið. Við fjölskyldan ferðumst mikið saman á ýmsar slóðir jafnt innan lands sem utan. Við hjónin förum reglulega í veiði með góðum vinum og þar er félagsskapurinn mikilvægastur þó ég hafi ekki kolfallið fyrir veiðinni sjálfri. Svo fylgist maður náið með fótboltaiðkun yngri sonarins sem lifir og hrærist í fótboltaheiminum.“

Fjölskylda

Eiginkona Einars er Magndís Andrésdóttir, f. 7.6. 1973, hjúkrunarfræðingur. Foreldrar Magndísar: Hjónin Hjördís Guðmundsdóttir, f. 2.2. 1947, fv. starfsmaður flugeldhúss Icelandair, búsett í Keflavík, og Andrés Kristján Sæby Erlendsson, f. 8.5. 1944, d. 12.7. 1998, lengst af starfsmaður varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli.

Börn Einars og Maddýar eru Andrea Einarsdóttir, f. 25.5. 1999, í mastersnámi í hugbúnaðar- og tölvuverkfræði við háskólann í Delft í Hollandi; Bjarki Freyr Einarsson, f. 7.3. 2002, nemi í tölvunarfræði við HR, og Hlynur Þór Einarsson, f. 9.11. 2007, nemi við Framhaldsskólann á Suðurnesjum.

Systkini Einars eru Sveinbjörn Hannesson, f. 17.12. 1967, stjórnmálafræðingur, sérfræðingur við Háskólann í Ósló, búsettur í Ósló; Ásgerður Þórunn Hannesdóttir, f. 5.7. 1980, lögfræðingur og regluvörður hjá Blikk hugbúnaðarþjónustu, búsett í Kópavogi, og Sigurður Hannesson, f. 19.4. 1984, verkfræðingur hjá Össuri hf., búsettur í Kópavogi.

Foreldrar Einars eru hjónin María Louisa Einarsdóttir, f. 29.10. 1945, lyfjafræðingur og fv. menntaskólakennari við Menntaskólann í Kópavogi, og Hannes Sveinbjörnsson, f. 27.9. 1946, kennari og fv. kennslufulltrúi á Skólaskrifstofu Kópavogs. Þau búa í Kópavogi.