Knattspyrnumaðurinn Jaidon Anthony, sem er að láni hjá enska B-deildarfélaginu Leeds frá Bournemouth, fagnaði marki sem hann skoraði með fyrrnefnda liðinu gegn Plymouth í enska bikarnum á laugardag með því að heiðra minningu móður sinnar sem lést langt um aldur fram í síðustu viku

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

Knattspyrnumaðurinn Jaidon Anthony, sem er að láni hjá enska B-deildarfélaginu Leeds frá Bournemouth, fagnaði marki sem hann skoraði með fyrrnefnda liðinu gegn Plymouth í enska bikarnum á laugardag með því að heiðra minningu móður sinnar sem lést langt um aldur fram í síðustu viku.

Anthony fór úr keppnistreyjunni til að fagna markinu til að sýna aðra treyju undir þar sem stóð „Hvíldu í fullkomnum friði, mamma“. Var stundin skiljanlega mjög tilfinningarík fyrir Anthony, sem er aðeins 24 ára gamall, en hann barðist við tárin í fögnuðinum.

Kantmaðurinn fékk gult spjald fyrir að fara úr treyjunni sem að mínu mati er taktlaust. Samkvæmt laganna bókstaf er það gult spjald fyrir að fara úr keppnistreyjunni í fagnaðarlátum, en þessi regla var ekki rituð í reglubókina til að spjalda menn fyrir að minnast móður sinnar á tilfinningaríku og stóru augnabliki.

Dómaranum þótti eflaust óþægilegt að spjalda Anthony, en að sama skapi var hann aðeins að sinna vinnunni sinni og gerði ekki neitt rangt. Ekki er við dómarann að sakast heldur frekar reglubókina.

Anthony spilaði allan leikinn og fékk því ekki annað gult spjald, en sú staða hefði getað komið upp að hann fengi ódýrt annað gula og þar með rautt. Sem betur fer er þessi bakvörður ekki um slíkt.

Framherjinn Billy Sharp missti tveggja daga gamlan son árið 2011 og fagnaði marki fyrir Doncaster gegn Middlesbrough með því að minnast litla drengsins á sama hátt. Þá ákvað dómarinn að sýna samkennd og sleppa því að spjalda leikmanninn.

Auðvitað er erfitt að draga einhvers konar línu og ákveða hvenær skuli spjalda þegar leikmenn fagna á þennan máta, en að mínu mati er það í lagi að dómarinn hafi svigrúm til þess að refsa leikmönnum ekki fyrir að minnast látins ættingja á þann hátt sem leikmaður kýs.