Valgerður Hjartardóttir fæddist 17. apríl 1936. Hún lést 8. janúar 2024.

Útför fór fram 24. janúar 2024.

Elsku amma Vala, nú ertu sameinuð honum afa Kristjáni á himnum. Ég á svo margar góðar minningar um þig. Við brölluðum nú margt saman á Langó, þar fékk maður að kíkja í allskonar box og poka fulla af einhverju góssi, t.d. tölum, garni, perlum og fleiru. Við föndruðum líka mikið saman, þú varst engin smá handavinnukona og fjöldaframleiddir vettlinga þannig að í æsku vantaði mig aldrei vettlinga eða sokka. Vettlingarnir sem ég man einna helst eftir voru vettlingarnir með andlitunum á. Þú gerðir líka brjálæðislega skreyttar afmælistertur fyrir afmælin mín þegar ég var lítil. Það sást ekki í kökuna fyrir nammi. Það var líka alltaf notalegt að koma til ykkar afa á Brúnaveginn. Þar var alltaf nóg til af ís í frystinum og nammi uppi í skápum. Ég kom oft til ykkar afa árin mín í framhaldsskóla. Þá sátum við og röbbuðum saman um daginn og veginn á meðan þú sast og réðst krossgátur og afi las blöðin. Þú varst mér alltaf svo góð og hlý elsku amma Vala og alltaf fannst mér gott að koma í ömmuhús. Fingurkoss til þín, megi Guð geyma þig, kysstu afa Kristján frá mér.

Þitt barnabarn,

Naómí Alda Ingólfsdóttir.

Þegar ég hugsa um ömmu Völu koma fyrst minningar um Langholtsveginn. Það var alltaf góð lykt heima hjá ömmu og afa á Langholtsvegi, blanda af kökulykt, vöfflum og neftóbaki að sjálfsögðu. Ég á margar minningar af okkur frændsystkinum hlaupandi upp og niður stigann í forstofunni, að vesenast uppi á lofti en aðallega man ég eftir leikfangakassa sem var fullur af glingri. Aðalglingrið var hálsmen sem við notuðum líka sem kórónu, gyllt og í minningunni var ég viss um að glingrið hefði verið rándýrt og amma hefði fengið það frá prinsessu að gjöf. Ég var nefnilega handviss um að amma mín og afi væru moldrík af því að þau áttu þessa forláta kórónu og demant í fínu stofunni á þar til gerðri heklaðri dúllu. Ef ég man rétt þá var þessi demantur einhvers konar kristall sem Ellý hafði gefið foreldrum sínum að gjöf en í barnæsku var þetta það fallegasta sem ég hafði séð. Þar var líka guli sófinn sem engum þykir þægilegur þótt hann sé fallegur.

Amma Vala var dugleg að segja okkur frá sínum æskuárum á Patró. Hún sagði mér oft sömu söguna þegar ég krakki af fínum manni á Patró sem bauð henni að vera dús þegar hún var lítil og ég skildi ekkert af hverju hann var að bjóða henni að vera ómerkilegur djús. Þérun var mér ekki efst í huga sem krakki en amma var ekkert að útskýra þetta nánar og ég man enn þegar ég á fullorðinsárum las í bók hvað dús þýddi. Það er langt frá því að vilja verða djús. Hún var líka dugleg að segja frá fyrstu kynnum sínum við afa, reynslusögur úr Miklagarði og þegar hún vann á símanum. Þegar hún og afi bjuggu á Brúnavegi þá talaði hún oft fyrir þau bæði. Stundum lækkaði afi bara í heyrnartækinu svo hann heyrði ekkert í okkur, sem gæti verið gott hjónabandsráð í framtíðinni.

Amma Vala var hlý og góð, staðalímynd af ömmum sem vilja að maður borði meira. Hún var einstaklega hæfileikarík handavinnukona og skilur eftir sig glás af prjónuðum uglum og fígúrum sem barna- og barnabarnabörn leika sér með.

Það er ágætis arfleifð sem amma mín og afi skilja eftir sig, fjöldi barnabarna og barnabarnabarna. Amma og afi voru einstaklega rík að konum og Kristjánum. Móðursystur mínar eru nefnilega heimsins mestu lúðar sem skíra allt Kristján. Mamma og systur hennar eru samt líka heimsins bestu konur sem geta grenjað úr hlátri yfir eins litlum hlut og skonsuuppskrift. Amma og afi skilja því eftir sig arfleifð af vel gerðum kjarnakonum sem geta hlegið að sjálfum sér og hafa óbilandi trú á börnum sínum og systrabörnum. Óbilandi trú eins og að ég geti sjálf saumað mér bróderað vesti en ég kann ekki einu sinni að prjóna.

Ég mun minnast ömmu Völu með hlýju og margt sem mun minna mig á hana: Þunga straujárnið, skrítna skóhornið, allir plastpokarnir, dönsku blöðin, allar eldhúsgræjurnar, handskrifaðar uppskriftir, heklaðar dúllur undir öllu, Laugarvatn, Patreksfjörður, mjúkar hendur og body lotion úr Body Shop.

Loksins fékk hún hvíldina sem hún átti svo skilið.

Ágústa Friðriksdóttir.