Ekkjan Michelle Keegan í hlutverki Mayu Stern.
Ekkjan Michelle Keegan í hlutverki Mayu Stern. — Ljósmynd/Netflix
Ég uppgötvaði nýlega spennusagnahöfundinn Harlan Coben og allar þær geggjuðu þáttaraðir sem byggðar eru á bókum hans inni á streymisveitunni Netflix. Má þar helst nefna þáttaraðirnar Safe, The Stranger, Stay Close og fleiri sem eru allar þess eðlis…

Anna Rún Frímannsdóttir

Ég uppgötvaði nýlega spennusagnahöfundinn Harlan Coben og allar þær geggjuðu þáttaraðir sem byggðar eru á bókum hans inni á streymisveitunni Netflix. Má þar helst nefna þáttaraðirnar Safe, The Stranger, Stay Close og fleiri sem eru allar þess eðlis að þú sest fyrir framan sjónvarpið og stendur helst ekki upp fyrr en hámhorfinu lýkur.

Nú, skemmst er frá því að segja að ég var á dögunum stödd í fjölskylduboði þar sem fyrrnefndur Coben barst einmitt í tal og nýjasta þáttaröð hans, sem ber heitið Fool Me Once. Voru allir á sama máli, að hér væru á ferðinni geggjaðir þættir sem enginn mætti láta fram hjá sér fara enda spennandi frá upphafi til enda.

Þættirnir segja frá hinni ungu Mayu Stern, leikinni af Michelle Keegan, sem nýlega er orðin ekkja eftir að maður hennar er myrtur á hrottalegan hátt. Í kjölfarið bregður hún á það ráð að setja upp svokallaða barnapíumyndavél í herbergi ungrar dóttur sinnar en bregður heldur betur í brún þegar eiginmaðurinn heitinn birtist skyndilega á skjánum. Upp frá því er óhætt að segja að spennan stigmagnist, því Maya er staðráðin í því að komast að sannleikanum um andlát eiginmannsins. Er hann á lífi eða ekki? Ég segi bara góða skemmtun og njótið vel!

Höf.: Anna Rún Frímannsdóttir