Ullin hans Mosa Úlfssonar.
Ullin hans Mosa Úlfssonar.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þessi nýja stökkbreyting framkallar hvítan lit á áður óþekktan hátt. Mér hefur ekki tekist að finna nokkur dæmi þess hjá sauðfé neins staðar í heiminum.

Jón Viðar Jónmundsson

Sauðfé og ekki síst litir þess hefur lengi verið áhugamál margra Íslendinga. Þekking mín á þessum fræðum hefur aðallega náð til þróunar innan sauðfjár og nautgripa auk skyldleikaræktar og þróunar hennar. Ég hef rannsakað og skrifað um séríslenskar stökkbreytingar eða erfðir frá einu geni hjá sauðfé fyrir nokkra eiginleika, gula fitu, frjósemisgen, riðuónæmisgen, ferhyrnt og bogkreppu. Við sumar þessar rannsóknir naut ég ómetanlegrar aðstoðar Stefáns Aðalsteinssonar og Emmu Eyþórsdóttur auk búaliðs á búum þar sem genin fundust. Þá hef ég byggt á rannsóknum og skrifum vísindamannanna Páls Zophoníassonar og Halldórs Pálssonar. Rannsóknir Stefáns á litaerfðum hjá sauðfé hafa orðið heimsfrægar. Þar setur hann fram sínar alþekktu reglur um þessar erfðir byggðar á erfðavísum í þremur sætum A-, B- og S-sætum, og þær reyndust gildar til að skýra þessar erfðir hjá sauðfé hérlendis og um allan heim.

Fjárbúskapurinn á Hlíð

Ég dvaldi nokkra daga á Hlíð í Lóni og afrakstur þeirrar ferðar varð m.a. tilefni þessarar greinar.

Fjárbúskapur á Hlíð er í raun tvö fjárbú þótt fé sé allt í sama húsi. Það fé sem fjallað er um hér eiga þær mæðgur Kristín og Harpa sem er stærri hluti fjárins. Nánast hver kind þeirra er dökk, en þær örfáu hvítu eru arfblendnar dökkar. Að öðru leyti er mikil erfðafjölbreytni í hjörð þeirra mæðgna vegna þess að auk litafjölbreytninnar er þar nokkuð af forystufé, mishreinræktuðu, og ferhyrnt fé auk þess sem fjöldi ánna hefur Þokugenið. Í báðum hjörðum hafa sæðingar mótað féð og um þriðjungur ánna úr sæði. Á Hlíð er venja að hafa gemlinga lamblausa.

Nýju litirnir

Á Hlíð birtist nýr litur sem ég kalla úlfgrátt. Hann líkist grámórauðu svo mikið að þegar Bjarni Bjarnason á Hlíð benti mér fyrst á hann hjá fyrstu kindinni, Tófu, kallaði ég hann grámórautt. En við nánari skoðun sjást viðbótarlitaeinkenni, liturinn er jafnari en grámórautt, sennilega heldur ljósari. Þessi litaeinkenni gerþekkja ábúendur og hafa öðlast leikni í að greina rétt. Hinn óvænti liturinn er hvítt, algengasti litur hjá íslensku sauðfé. Þarna vandast málið vegna þess að enn kann ég engin ráð til að greina sundur frá útliti fé með hefðbundinn hvítan lit og hvítt fé með þetta gen. Ég kalla nýja hvíta litinn feluhvítt. Ég vel að halda fyrir utan alla útreikninga gripum úr pörunum þar sem annar er hvítur, þó nær fullvíst sé að þeir séu allir arfblendnir. Þessu til viðbótar eru úlfgráu kindurnar með falda arfgerð að baki sem er yfirleitt mögulegt að lesa út frá lit afkvæma þeirra sem ekki hafa erft genið. Hið sama á raunar við um hvítu kindurnar með genið. Þetta mætti líka orða sem svo að nýja genið ríki áreiðanlega yfir genum í A-sæti nema mögulega A1.

Tófa 15-221

Fyrsta stökkbreytingin, úlfgrái liturinn, virðist vera hjá Tófu 15-221. Þar sem við þekkjum ekki sundur nýja hvíta litinn og hefðbundið hvítt treysti ég mér ekki til að segja til um fyrstu kindina sem bar hvíta litinn en allt er skráð í fjárbækur á Hlíð. Tófa var dóttir hvíts hrúts og tvævetlulambs undan á sem var svartbíldótt með Þokugenið. Úlfur erfði ekki Þokugenið en það þarfnast betri skoðunar. Falda litaarfgerðin hjá henni var A5A5B1B2S1S2, þ.e. svört ær, arfblendin fyrir mórauðum lit og tvílit. Þetta les ég út úr lit afkvæma hennar sem öll voru undan dökkum hrút og urðu 12 um ævina. Af þeim bar helmingurinn genið. Þau sem fengu genið voru fjögur hvít en tvö úlfgrá, annað þeirra Úlfur 19-507. Fyrsta lambið með hvíta litinn fæddist þegar Tófa var tvævetur en það var ekki sett á. Ári síðar á hún tvo svarta hrúta sem þess vegna höfðu ekki genið. Árið eftir var hún sædd með Fjalldrapa frá Hesti og þá fæðist Úlfur og annar hvítur. Þá áttuðu ábúendur sig á því að hér var ekki allt sem skyldi og síðan þá hefur þetta fé fengið verðskuldaða athygli á búinu. Ævi Tófu lauk 2022.

Úlfur

Úlfur var notaður talsvert í tvo vetur og rigndi afkvæmum og var u.þ.b. helmingur með furðulitina tvo. Falda arfgerðin sú sama og hjá móður hans. Ásettar dætur hans skipta tugum. Undan honum kom síðara árið úlfgrár hrútur, Mosi 21-535, sem settur var á en drapst á fjalli sumarið 2023. Móðir hans var svartbotnótt ær sem bar Þokugenið. Hann var fjórlembingur og verður að bíða burðar tveggja vetra dætra hans vorið 2024 áður en fullyrt verður hvort Mosi sjálfur beri Þokugenið. Mosi var notaður í tvo vetur og undan honum kom fjöldi lamba með furðulitina tvo og margar dætur hans settar á 2022 og hrútur og viðbótardætur 2023. Liturinn að baki úlfgráa litnum hjá Mosa virðist mér A5A4B1B1S1S1, þ.e. svartbotnóttur sem hefur týnt bæði mórauða litnum og tvílitnum.

Skráning og úrvinnsla upplýsinga

Ær af þessum uppruna skipta tugum. Hjá þeim erfast litirnir áfram eftir föstum reglum. Arfblendnir hvítir hrútar hafa nokkuð verið notaðir fyrir tvævetlurnar og þannig mörg lömb sem ekki nýtast í tölfræðigreiningu. Undan þessum ungu ám og þekktum stöðvahrútum var fjöldi úlfgrárra og hvítra lamba á fjalli 2023 með genið og tveir góðir ásetningshrútar úr þeim hópi settir á. Fram hefur komið fjöldi hvítra lamba með genið sem erfa úlfgráa litinn og öfugt.

Gögnin voru skráð með litar- og ættarupplýsingum og kyni gripa, að undanskildum örfáum dauðfæddum lömbum, eða um 300 einstaklingar. Tölfræðileg greining fór fram með flokkun og talningu eftir litum, árum, afkvæmahópum og fleiri flokkum. Síðan var beitt svonefndri chi-kvaðrat-greiningu og féllu þær allar að fram settum hugmyndum mínum um erfðirnar og stóðust allar kröfur um marktækni.

Hugleiðingar um nýja genið

Út frá þessum upplýsingum er mér ómögulegt að gera grein fyrir hvort þetta stökkbreytta gen sé í nýju erfðavísasæti eða nýtt gen í A-sætinu. Það sem þá er frábrugðið hinum genunum sem við þekktum þar, gráu, goltóttu, botnóttu og hlutlausu, er að þetta nýja gen birtist til helminga með tvo mismunandi liti, úlfgrátt eða feluhvítt. Þetta gen breiðir yfir hitt genið í A-sætinu, en lesa má út frá lit afkvæma þeirra sem ekki hafa erft genið hver falda arfgerðin er. Þarna tala ég að vísu um að nýja genið sé stökkbreytt gen í A-sæti sem mér þykir ósennilegt að sé. Óljóst er hver áhrif stökkbreytta gensins eru gagnvart A1-geninu.

Bjarni á Hlíð ætlar þar að leggja sinn hvíta ærstofn í tilraunir í vetur og fæst þá vonandi úr því skorið vorið 2024 hvort hið nýja gen eða A1-genið sé rétthærra. Fæðist úlfgrá lömb undan arfhreinu hvítu ánum hjá Bjarna þá ríkja nýju litirnir yfir hvíta A1-litnum en verði þau öll hvít þá er A1-liturinn sigurvegarinn. Engar vísbendingar hafa komið um tengsl nýju litanna við aðra eiginleika hjá fénu. Sennilegast er að hér hafi opnast nýtt sæti og genið ríki fullkomlega yfir hinum litasætunum.

Fróðlegt verður líka að framleiða örfá arfhrein lömb næsta vor með skyldleikarækt. Freyja Imsland ráðleggur okkur samt að fara þar hægt í byrjun, sem við gerum. Áframhaldandi rannsóknir kalla á beitingu erfðatækni. Þess vegna hefur Eiríkur Steingrímsson, prófessor við læknadeild HÍ, tekið við rannsóknum á geninu ásamt nema sínum Teiti Sævarssyni.

Þetta verður heimsfrægt

Þessi nýja stökkbreyting framkallar hvítan lit á áður óþekktan hátt. Mér hefur ekki tekist að finna nokkur dæmi þess hjá sauðfé neins staðar í heiminum að hjá tveimur dökkum foreldrum fæðist hvítt afkvæmi. Feluhvíta litinn eigum við eftir að fræðast um, hvernig á að greina hann frá hefðbundnum hvítum lit. Líklega verður það aldrei gert nema með arfgerðagreiningu. Merkilegast finnst mér að sama genið gefi tvær svipgerðir til helminga. Sé svo er mögulega nýtt ókannað stýrikerfi að opnast fyrir rannsóknir. Þessir eiginleikar sauðfjár fanga athygli flestra og því verður frægð gensins meiri en annarra stökkbreytinga hjá sauðfé hérlendis.

Við samantekt þessara pistla hef ég notið ómældrar aðstoðar bændanna á Hlíð í Lóni, þeirra Kristínar Jónsdóttur, Hörpu Bjarnadóttur og Bjarna Bjarnasonar. Þau eiga ómældar þakkir.

Höfundur var landsráðunautur BÍ í sauðfjár- og nautgriparækt í áratugi.