Diljá Mist Einarsdóttir
Diljá Mist Einarsdóttir
…mjög miður að þinginu sé ekki sýnd tilhlýðileg virðing að þessu leyti þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til þess að koma skikki á framkvæmdina.

Diljá Mist Einarsdóttir

Á dögunum lagði umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra fram skýrslu á Alþingi um innleiðingu EES-reglna í landsrétt. Skýrslan var unnin af dr. Margréti Einarsdóttur vegna skýrslubeiðni undirritaðrar ásamt hópi þingmanna. Í skýrslunni er að finna niðurstöður rannsóknar á því hvort gullhúðun hafi átt sér stað á málefnasviði ráðherrans árin 2010 til 2022. Gullhúðun eða blýhúðun kallast það þegar EES-reglur eru innleiddar í íslenska löggjöf með meira íþyngjandi hætti en EES-samstarfið kveður á um; ganga lengra en regluverk Evrópusambandsins.

Niðurstöður skýrslunnar eru sláandi. Samkvæmt henni var um að ræða gullhúðun í 41% tilvika þegar EES-gerðir voru innleiddar í landsrétt. Engar vísbendingar eru um að slíkum tilfellum fari fækkandi. Auk þess kemur fram í skýrslunni að blönduð innleiðingarfrumvörp séu nokkuð algeng. Að mikill misbrestur sé á áskilinni tilgreiningu þegar meiri kröfur eru gerðar í frumvarpi en EES-gerð við innleiðingarlöggjöf eða rökstuðningur fylgi slíkri ákvörðun.

Þessi framkvæmd sem að framan er lýst fer í bága við lög um þingsköp Alþingis og reglur um þinglega meðferð EES-mála. Auk þess er mjög miður að þinginu sé ekki sýnd tilhlýðileg virðing að þessu leyti þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til þess að koma skikki á framkvæmdina. Niðurstöður skýrslunnar gefa fullt tilefni til sambærilegrar rannsóknarvinnu og viðbragða í öðrum ráðuneytum. Utanríkisráðherra hefur þegar skipað starfshóp um aðgerðir gegn gullhúðun sem mun láta til sín taka í þessum efnum. Mikilvægt er að ekki sé gengið lengra við innleiðingu EES-gerða en þörf er á. Innlend fyrirtæki og neytendur eiga að sitja við sama borð og aðrir á innri markaði Evrópusambandsins. Auk þess koma íþyngjandi og óskilvirkar reglur sem eru sagðar stafa frá EES-samstarfinu óorði á samninginn um Evrópska efnahagssvæðið.

Til þess að undirstrika enn frekar vilja þingsins og afstöðu til gullhúðunar, mun ég leggja fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um þinglega meðferð EES-mála. Þá hef ég jafnframt sent forsætisnefnd þingsins erindi og hvatt til þess að brugðist verði við tillögum í framangreindri skýrslu. Núverandi reglur hafa ekki dugað til að koma skikki á framkvæmdina. Við það er ekki hægt að una.

Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður utanríkismálanefndar Alþingis.

Höf.: Diljá Mist Einarsdóttir