Á föstudag sendi Ingólfur Ómar mér póst: Heill og sæll, Halldór, á þessum hrollkalda bóndadegi datt í hug þessi braghenda: Yggldur Þorri ýfir brána oft og tíðum kaldsamur með kyljum stríðum, kuldabitru og norðanhríðum

Á föstudag sendi Ingólfur Ómar mér póst: Heill og sæll, Halldór, á þessum hrollkalda bóndadegi datt í hug þessi braghenda:

Yggldur Þorri ýfir brána oft og
tíðum

kaldsamur með kyljum stríðum,

kuldabitru og norðanhríðum.

Skírnir Garðarsson sendi mér póst á laugardag: Var að taka til hjá mér og fann þessa vísu sem varð til í bændaferð til Slóveníu fyrir allmörgum árum. Fyrripartinn minnir mig að Sigurður Baldursson eigi, hann er svona:

Pena ef þú píu sérð,

og prufa vilt að ná 'enni.

Ég og fleiri botnuðum. Minn var svona:

Henni bjóddu í bændaferð,

þá bráðnar klakinn á 'enni.

Gunnar J. Straumland skrifar á Boðnarmjöð: Er ég hafði fylgst með fregnum herveldis nokkurs í Austurlöndum kom þessi aldýra staka í vísnakompu:

Drungann þyngir drómi tára,

dimmir bíða klakkar ljóðs.

Gungan kyngir grómi sára

grimmir stríða rakkar blóðs.

Ólafur Stefánsson finnur til bjartsýni þó að þorri sé aðeins nýbyrjaður:

Lifi eg með léttan mal,

lifna brátt við hanans gal.

Þegar verður vor í dal,

vil ég bæði, get og skal.

Jón Jens Kristjánsson skrifar: Lilja Alfreðsdóttir vill að utanríkisráðherra sé með í ráðum varðandi þátttöku í Júróvisjón:

Þeim bestu verður ei bylt af stalli

Bjarni, Katrín og Sigurður

þar eiga að mæta sem Þrjú á palli

og þá er sigurinn öruggur.

Óttast ekki andardrátt Dags – fyrirsögn viðtals við Einar Þorsteinsson í Mbl.

Það duga mun lengi af Degi skíman

sem dundar nú slakur við eitthvað nýtt

en ef að hann byrjar að anda í símann

er Einari sama og hræðist lítt.

Í Sjöundu Davíðsbók segir að höfundur hafi verið hrifinn af feita matnum en borðað fleira þegar bauðst til að viðhalda fjölbreytni:

Rjóma, selspik mör og makríl

mest ég et

en timbur, nagla, ál og akrýl

ef ég get.