Bjarni Bjarnason kennari fæddist á Álfhólum í Vestur-Landeyjum 28. apríl 1928. Hann lést á heimili sínu 15. janúar 2024.

Foreldrar hans voru Pálína Margrét Þorsteinsdóttir, f. 1893, d. 1970, og Bjarni Jónsson, f. 1885, d. 1928. Systkini Bjarna voru Jón, f. 1923, d. 2001, Þorsteinn, f. 1926, d. 1997, Sigríður, f. 1929, d. 2002, og Ingi Þór Guðmundsson hálfbróðir, f. 1935, d. 2015.

Árið 1966 giftist Bjarni Hildi Ósk Jóhannsdóttur og eignuðust þau tvö börn, Jóhann Guðjón, f. 1966, og Margréti Rut, f. 1969. Þau skildu. Árið 1973 giftist Bjarni Guðmundu Jónínu Helgadóttur, f. 1933, þau skildu 11 árum síðar. Guðmunda átti fyrir börnin Bergljótu, Ragnheiði, Helga Jón, Maríu, Davíð og Jakobínu Davíðsbörn. Reyndist Bjarni börnum Guðmundu sem faðir og vinur.

Bjarni tók saman við Brigitte Bevendorf, f. 1944, d. 2005, og voru þau saman í 20 ár eða þar til hún dó langt fyrir aldur fram árið 2005.

Bjarni eignaðist eitt barnabarn, son Margrétar, Thor Anders Alm, og búa þau mæðginin í Svíþjóð.

Bjarni braust til mennta þrátt fyrir mikla fátækt eftir að faðir hans dó þegar Bjarni var á fyrsta aldursári. Hann stundaði nám við Menntaskólann á Laugarvatni 1946-1949 og lauk síðan stúdentsprófi sem semidúx frá Menntaskólanum í Reykjavík 1950. Sem viðurkenningu á frábærum námsárangri fékk Bjarni skólastyrk til að fara í framhaldsnám í Háskólann í Uppsölum og útskrifaðist þar sem fil. kand. í heimspeki, sálarfræði og uppeldisfræði. Fróðleiksfýsn Bjarna var mikil og eftir að hann útskrifaðist frá Háskólanum í Uppsölum fór hann á flakk á puttanum um Þýskaland, Frakkland og endaði á bóndabæ í Sviss þar sem hann dvaldi um nokkurra mánaða skeið. Eftir að hann kom aftur til Íslands starfaði hann sem kennari í Réttarholtsskóla, Laugarnesskóla, Gagnfræðaskóla Akraness, Háskóla Íslands og síðan í Kennaraháskóla Íslands þar til hann fór á eftirlaun.

Bjarni starfaði á sumrin í áratugi sem leiðsögumaður og var einn af stofnendum Félags leiðsögumanna og var formaður félagsins 1972-1973. Bjarni var mikill náttúruunnandi og bar mikla virðingu fyrir náttúru Íslands og dýralífi og miðlaði þeirri ást sinni til fjölda ferðamanna sem heimsóttu landið. Bjarni var mikill ljóðunnandi og notaði hvert tækifæri sem gafst til að skrifa ljóð og hafa komið út tvær ljóðabækur eftir hann, Brot í bundnu máli 2009 og Í bakkafullan lækinn 2018.

Útför hans fer fram frá Neskirkju í dag, 30. janúar 2024, klukkan 13.

Bjarni Bjarnason, kennari, mannvinur, leiðsögumaður og lífskúnstner er fallinn frá.

Hann og maðurinn minn, Gunnar Árnason heitinn, kynntust í Kennaraháskóla Íslands þar sem þeir báðir kenndu. Með þeim – og samkennara þeirra Bjarna Ólafssyni – tókst traust og djúp vinátta sem var þeim öllum ómetanleg.

Bjarni Bjarnason var einstakur maður; hjartahlýr heimsborgari sem lét sér annt um allt og alla sem á vegi hans urðu. Hann var glæsimenni og hugsuður sem bar höfuðið hátt þar sem hann gekk um í heimspekilegum þönkum, dreyminn á svip og ávallt með þetta sérkennilega og sjarmerandi blik í auga.

Segja má að hann hafi verið langt á undan sinni samtíð á mörgum sviðum; vildi vernda náttúruna, menn og dýr löngu áður en sú umræða varð almenn í þjóðfélaginu.

Þessi ást hans á landinu, framúrskarandi tungumálakunnátta og hæfileikinn til að búa til ævintýri úr hversdagslegustu hlutum nýttust honum einkar vel í leiðsögumannastarfinu. Enda átti hann það til að beita óhefðbundnum aðferðum við að hjálpa ferðamönnum að upplifa landið til fulls. Þannig eiga margir ferðamenn ógleymanlegar minningar af því þegar Bjarni hleypti þeim út úr bílnum einhvers staðar í auðninni á sunnlenskum söndum til að upplifa landið og kannski ekki síður sjálfa sig. Til að auka enn frekar á þá upplifun flutti hann gjarnan bílinn í hvarf um stundarsakir. Það kemur engum á óvart sem hefur ferðast með þessum heiðursmanni að margir af ferðalöngum hans héldu sambandi við hann árum saman.

Þó að Bjarni hafi elskað land sitt hafði hann gaman af að ferðast til annarra landa og kynnast menningu þarlendra. Þetta var áhugamál okkar hjóna líka og ferðuðumst við mikið saman. Stundum ferðuðumst við þó hvert í sínu lagi og smám saman myndaðist sú hefð að við buðum hvert öðru til veislu við heimkomuna – og bárum þá fram eitthvert góðgæti frá því landi sem við vorum nýkomin frá. Bjarni bar einnig gjarnan á borð spænskt ljúfmeti sem hann hafði orðið sér úti um hjá Jakobínu stjúpdóttur sinni og Carmen sambýliskonu hennar. Og hjá Bjarna var alltaf þríréttað og sérvalið vín með hverjum rétti.

Í gegnum Bjarna kynntumst við Gunnar mörgu dásamlegu fólki. Nægir hér að nefna Jóhann son hans, Jakobínu stjúpdóttur hans, Carmen og Brigitte Bevendorf, þýskri sambýliskonu hans til tuttugu ára og fjölskyldu hennar. Brigitte varð bráðkvödd árið 2005 en síðan hafa bróðir hennar og mágkona ræktað tengslin; komið hingað til lands og boðið mági sínum og okkur Gunnari til sín. Þau eru nú komin til landsins enn og aftur – en nú til að fylgja þessum hjartahlýja höfðingja síðasta spölinn.

Bjarni var kennari – bæði í eiginlegri og óeiginlegri merkingu þess orðs. Víðsýni hans, vinsemd og virðing gagnvart lífinu var lexía öllum sem honum kynntust. Hann var trúaður maður og sú trú var algjörlega fölskvalaus og endurspeglaðist í mörgum af hans gullfallegu ljóðum.

Um leið og ég og fjölskylda mín þökkum Bjarna dásamleg kynni vottum við börnum hans, stjúpbörnum og ástvinum öllum okkar dýpstu samúð.

Kristín G. Andrésdóttir.