Það er eðlilegt að umræða um mögulegan þjóðarsjóð komi upp á yfirborðið þegar erfiðleikar steðja að, eins og nú er raunin eftir hamfarirnar í Grindavík. Sigurður Kári Kristjánsson, stjórnarformaður Náttúruhamfaratryggingasjóðs, velti því til að mynda upp í grein í Morgunblaðinu í vikunni að það væri skynsamlegra að geta gripið í slíkan sjóð en að velta byrðinni yfir á skattgreiðendur. Það kann að hljóma skynsamlega. Öll fyrirtæki og heimili geta notið góðs af því að hafa sýnt fyrirhyggju og lagt fyrir til að mæta mögulegum áföllum. Fyrir flestum hljómar það skynsamlega, sem það er.
Þó er ekki sjálfgefið að hið sama eigi við um rekstur ríkisins. Það má vissulega færa rök fyrir því að fjármagni hins opinbera sé illa varið í vexti og fjármagnskostnað, eins og raunin er þegar ríkið er skuldsett, og í landi þar sem fólk og fyrirtæki greiða nú þegar háa skatta er ekki mikið svigrúm til að hækka skatta enn frekar til að mæta áföllum. Á móti mætti segja að ríkið eigi aðeins að innheimta skatt fyrir nauðsynlegum verkefnum. Við vitum öll að það er ekki raunin hér á landi frekar en í öðrum vestrænum ríkjum, þar sem ríkisvaldið sinnir fjölbreyttum gæluverkefnum með tilheyrandi sóun.
Einhvern veginn þarf að fjármagna slíkan þjóðarsjóð. Það hafa komið fram hugmyndir um að nýta arðgreiðslur frá Landsvirkjun og mögulega öðrum ríkisfyrirtækjum. Það er aftur á móti ekkert sjálfgefið í þeim efnum og alls ekki gefið að ríkisfyrirtæki skili alltaf myndarlegum hagnaði – og arði. Það skapar líka freistnivanda fyrir ríkið, til dæmis þann að halda lengur í ríkisfyrirtæki (eins og Landsbankann og hluta sinn í Íslandsbanka) lengur en þörf er á. Það er hægt að fjármagna hann með lántökum, með tilheyrandi vaxtakostnaði, og einnig með skattlagningu, sem dregur úr vexti og framförum. Það er í sjálfu sér hægt að taka ákvörðun um að fjármagna þjóðarsjóð með ýmsum leiðum, en það gerist ekki af sjálfu sér og ekki án afleiðinga eins og hér hefur verið rakið.
Myndarlegur þjóðarsjóður skapar einnig freistnivanda fyrir stjórnmálamenn. Það vandamál er ekki til sem stjórnmálamenn telja sig ekki geta leyst með auknum útgjöldum og við heyrum nær daglega hugmyndir um slíkt. Það kann ef til vill að hljóma fjarstæðukennt að ætla að nýta varasjóð í pólitísk gæluverkefni. Þeir sem fylgjast með stjórnmálum vita þó að leiðin til heljar er vörðuð góðum ásetningi og því er ekkert fjarstæðukennt við það að vara við því að gripið sé í slíka sjóði jafnvel þó svo að engar hamfarir hafi átt sér stað.
Hugmynd um þjóðarsjóð er ekki fráleit og kann að sumu leyti að vera skynsamleg. Henni fylgja þó ýmiss konar kvaðir og það er sjálfsagt að málið sé rætt út frá öllum hliðum, líka þeim sem hér hafa verið raktar og er þó ekki um tæmandi lista að ræða.