40 ára Gunnar Ingi er fæddur og uppalinn í Kópavogi en með stoppi í Reykjavík hjá tengdamóður sinni flutti hann út til Danmerkur ásamt kærustu sinni og núverandi eiginkonu árið 2007 og bjó í Árósum og Kaupmannahöfn næstu sjö árin þar sem hann stundaði nám og vinnu

40 ára Gunnar Ingi er fæddur og uppalinn í Kópavogi en með stoppi í Reykjavík hjá tengdamóður sinni flutti hann út til Danmerkur ásamt kærustu sinni og núverandi eiginkonu árið 2007 og bjó í Árósum og Kaupmannahöfn næstu sjö árin þar sem hann stundaði nám og vinnu. Árið 2014 flutti hann aftur heim og bjó í miðbæ Reykjavíkur í þrjú ár þar til hann flutti í Garðabæ þar sem hann býr í dag ásamt konu, tveimur börnum og hundi.

Gunnar Ingi er menntaður sölu- og markaðsfræðingur frá Viðskiptaháskólanum í Árósum og vinnur sem forstöðumaður viðskiptaþróunar hjá Ölgerðinni og hefur verið þar síðan síðastliðinn september. Þar vinnur hann meðal annars með vörumerkin Brennivín, Borg Brugghús og Öglu Gosgerð. Áður var hann í eigin rekstri með fyrirtæki sitt CIN CIN sem var í innflutningi á miklu úrvali af óáfengum drykkjum ásamt kaffidrykkjum. Fyrir það starfaði hann sem sölustjóri Te & Kaffi í fimm ár eftir að hann flutti hann frá Danmörku.

„Í mínum litla frítíma með tvö ung börn reyni ég að lækka forgjöfina mína í golfi en ég smitaðist af golfbakteríunni fyrir rúmum þremur árum og finnst ekkert skemmtilegra en að spila golf í góðra vina hópi og með eiginkonu minni, Sunnu. Einnig eru göngutúrar með golden retriever-hvolpinum Pílu orðnir kærkomnir á kvöldin.“

Fjölskylda Eiginkona Gunnars er Sunna Dóra Einarsdóttir, f. 1986. Börn þeirra eru Saga, f. 2017, Dagur, f. 2020, og hundurinn Píla, f. 2023. Foreldrar Gunnars eru Áslaug Ágústsdóttir, búsett í Kópavogi, og Svanur Halldórsson, d. 2017.