Samkvæmt upplýsingum frá embætti héraðssaksóknara hafa undanfarin þrjú ár að meðaltali verið til meðferðar hjá embættinu 10-13 mál á mánuði sem varða brot gegn 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga, þ.e. brot gegn valdstjórninni.
„Flest málin varða ætluð brot gegn lögreglumönnum en einhver þeirra beinast gegn öðrum opinberum starfsmönnum en lögreglumönnum. Við erum ekki með sundurgreinda tölfræði eftir eðli málanna. Flest eiga ætluð brot sér stað á vettvangi þegar lögreglumenn eru að fást við einstaklinga sem eru undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna og geta falist í hótunum eða líkamsmeiðingum eða hvoru tveggja. Ef um líkamsárás er að ræða er í flestum tilvikum um minniháttar áverka að ræða,“ segir í svari Friðriks Smára Björgvinssonar aðstoðarsaksóknara við fyrirspurn Morgunblaðsins.
„Upptökur úr búkmyndavélum lögreglumanna koma oft að góðum notum við sönnunarfærslu í slíkum málum. Hitt er mun sjaldgæfara að lögreglumenn verði fyrir skemmdum á eignum eða alvarlegum hótunum utan starfs og grunur er uppi um að það tengist starfi þeirra sem lögreglumenn. Tvö tilvik komu upp á síðasta ári þar sem grunur vaknaði um slíkt en bæði málin eru enn í rannsókn.“
Hvað afdrif málanna varðar segir Friðrik aðspurður að mörg málanna endi með ákæru og flest sem fari fyrir dóm endi með sakfellingu, en engar nákvæmari tölur fengust frá embættinu. Friðrik segir enn fremur að ekki sé haldið sérstaklega utan um það af hvaða þjóðerni viðkomandi séu og því séu ekki fyrirliggjandi upplýsingar um það. hdm@mbl.is