Fyrirliðar Gylfi Þór Sigurðsson og Aron Einar Gunnarsson glíma báðir við meiðsli þessa dagana og er óvíst um þátttöku þeirra í umspilinu.
Fyrirliðar Gylfi Þór Sigurðsson og Aron Einar Gunnarsson glíma báðir við meiðsli þessa dagana og er óvíst um þátttöku þeirra í umspilinu. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Åge Hareide, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, telur helmingslíkur á því að landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson og Gylfi Þór Sigurðsson, markahæsti leikmaður í sögu liðsins, verði með liðinu þegar það mætir Ísrael 21

Fótbolti

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Åge Hareide, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, telur helmingslíkur á því að landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson og Gylfi Þór Sigurðsson, markahæsti leikmaður í sögu liðsins, verði með liðinu þegar það mætir Ísrael 21. mars í Búdapest í undanúrslitum umspils um sæti í lokakeppni Evrópumótsins 2024 í Þýskalandi.

Sigurvegarinn úr einvíginu mætir annaðhvort Bosníu eða Úkraínu í úrslitaleik 26. mars en hann fer annaðhvort fram í Bosníu eða á heimavelli Úkraínu, væntanlega í Póllandi eða Þýskalandi.

„Það eru helmingslíkur á að bæði Aron Einar og Gylfi Þór verði klárir í slaginn gegn Ísrael,“ sagði Hareide í samtali við Morgunblaðið.

Aron Einar, sem er 34 ára gamall og á að baki 103 A-landsleiki, glímir við meiðsli á ökkla og hefur ekkert leikið með félagsliði sínu Al-Arabi í Katar það sem af er tímabili en vegna útlendingakvóta í landinu er hann ekki löglegur með Al-Arabi og þarf því að finna sér nýtt lið.

„Ég ræddi við Aron Einar á dögunum og er vongóður um að hann verði byrjaður að spila fótbolta í febrúar. Ég er ekki með nákvæma tímasetningu en hann er sjálfur bjartsýnn sem veit á gott. Það er áhugi á honum í Katar og ég hef ekki áhyggjur af því að hann verði í vandræðum með að finna sér nýtt félag þar í landi.

Hann verður að vera byrjaður að spila, ef hann ætlar að spila fyrir okkur, en ef ég tel hann geta hjálpað liðinu þá verður hann að sjálfsögðu í hópnum. Hann er einn af reynslumestu leikmönnum liðsins, og fyrirliði liðsins, og hann er gríðarlega mikilvægur fyrir okkur utan vallar líka. Líkamlegt ástand hans er stærsta spurningarmerkið eins og staðan er núna,“ sagði Hareide.

Leikmenn standa sig vel

Gylfi Þór, sem er 34 ára og á að baki 80 A-landsleiki, glímir við meiðsli aftan í læri og er sem stendur án félags eftir að hann rifti samningi sínum við danska úrvalsdeildarfélagið Lyngby á dögunum. „Ég hef líka rætt við Gylfa Þór og og hann er að glíma við tognun á vöðva. Þessi meiðsli hafa plagað hann undanfarna mánuði og við þurfum að bíða og sjá hvernig hans mál þróast. Hann sagði mér sjálfur að þetta væri á réttri leið hjá sér en líkt og hjá Aroni snýst þetta um líkamlegt form og hversu mikið hann getur gert á vellinum.

Ef hann er ekki 100% klár í slaginn er ólíklegt að hann spili og hann þarf að vera byrjaður að spila aftur ef hann á að hjálpa okkur. Hann er vissulega ekki með samning sem stendur en það verður hægt að finna út úr því um leið og hann verður heill heilsu. Hann hefur febrúarmánuð og svo þrjár vikur í mars til þess að koma sér í form. Við þurfum bara að bíða og sjá hvernig þetta þróast.“

Lykilmenn íslenska liðsins hafa allir staðið sig vel með sínum félagsliðum og spila reglulega.

„Langflestir leikmenn liðsins spila mjög reglulega með sínum félagsliðum sem eru frábærar fréttir fyrir okkur. Þeir standa sig líka vel sem er alltaf plús. Ég hef fylgst mjög náið með leikmönnunum undanfarna mánuði og satt best að segja er ég svo gott sem búinn að stilla upp byrjunarliðinu, fyrir leikinn gegn Ísrael, í hausnum á mér.

Næsta mál á dagskrá er að fara yfir taktík og leikplanið með þeim en þegar allt kemur til alls snýst þetta um hugarfar leikmannanna og hvernig þeir mæta stemmdir til leiks. Við eigum góða möguleika gegn Ísrael og munum mæta mjög vel undirbúnir til leiks,“ bætti landsliðsþjálfarinn við í samtali við Morgunblaðið.