Guðmundur Karl Jónsson
Guðmundur Karl Jónsson
Samanlagt getur vinna við öll þessi samgöngumannvirki tekið vel á annan áratug.

Guðmundur Karl Jónsson

Um miðjan nóvember 2008 boðaði Kristján L. Möller þáverandi samgönguráðherra fund með Seyðfirðingum og vildi skoða möguleika á jarðgangagerð milli Egilsstaða og Seyðisfjarðar. Fimm árum seinna hófust framkvæmdir við Norðfjarðargöngin sem hafa, að Fáskrúðsfjarðargöngum meðtöldum, rofið einangrun nýja sveitarfélagsins og tryggt íbúum suðurfjarðanna enn betra aðgengi að stóra Fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupstað.

Viðbúið er að allt stefni í harðar deilur um hvort heppilegra sé að tengja fyrst saman Norðfjörð og Seyðisfjörð með tvennum styttri göngum inn í Mjóafjörð, áður en röðin kemur að Fjarðarheiðargöngum sem eru tímafrekt verkefni og gætu hugsanlega verið meira en hálfan annan áratug í vinnslu, fari svo að þau lendi á enn fleiri vatnsæðum en Vaðlaheiðargöng. Ólíklegt er að ráðist verði samtímis í öll göngin sem tengja viðkomustaði Norrænu, Mjóafjörð, Norðfjörð og suðurfirðina, við Egilsstaði og Fljótsdalshérað.

Samanlagt getur vinna við öll þessi samgöngumannvirki tekið vel á annan áratug þegar spurt er hvort Fjarðabyggð fari inn á hringveginn. Fullyrt var í Fréttablaðinu að áætlaður heildarkostnaður við 13-14 km gangalengd milli Seyðisfjarðar og Héraðs yrði 45-50 milljarðar króna, án þess að talað væri um flóttaleiðir með eldvarnarhurðum við hlið Fjarðarheiðarganga sem gætu bjargað mannslífum ef harður árekstur tveggja flutningabifreiða ylli þar miklum eldsvoða. Áður hafa starfandi rannsóknarlögreglumenn á höfuðborgarsvæðinu lýst áhyggjum sínum af því að það sama geti gerst í Hvalfjarðargöngum. Þar munaði engu vorið 2019 að eldsvoði brytist út, með ófyrirséðum afleiðingum, á örfáum sekúndum þegar fólksbíll á leiðinni til Reykjavíkur fór, vegfarendum til mikillar hrellingar, yfir á vitlausan vegarhelming í göngunum á meira en 80 km hraða, og lenti framan á langferðabifreið með erlendum ferðamönnum sem varð alelda á örfáum mínútum. Það gekk kraftaverki næst að allir farþegarnir, að bílstjóranum meðtöldum, sluppu ómeiddir úr langferðabílnum þegar það tókst að bjarga öllum farangri þeirra út úr brennandi ökutækinu.

Ég spyr: Gætu þingmenn Norðausturkjördæmis og fyrrverandi bæjarfulltrúar Seyðisfjarðar tekið því þegjandi ef svona tilfelli kosta allt of mörg mannslíf án flóttaleiða í Fjarðarheiðargöngum, sem yrðu ein og sér lengsta og dýrasta gangagerð síðari tíma? Að loknum framkvæmdum við þetta samgöngumannvirki undir Fjarðarheiði, sem tengir viðkomustað Norrænu við Hérað, eykst hættan á því að stuðningsmenn ganganna telji skynsamlegra og ódýrara að flytja stóra Fjórðungssjúkrahúsið frekar frá Neskaupstað upp í Egilsstaði, í stað styttri ganganna milli Norðfjarðar og Seyðisfjarðar. Fyrr geta starfandi læknar í Neskaupstað og bæjarstjórn Fjarðabyggðar barið í borðið með skilaboðunum hingað og ekki lengra.

Talað er um að hringtenging á Austurlandi muni gerbreyta samskiptum heimamanna á svæðinu og gera það að einu atvinnu- og þjónustusvæði. Þó að bæjarráð Fjarðabyggðar leggi áherslu á að þrenn veggöng verði boðin út samtímis, til að tryggja framgang þeirra, skulu allir þingmenn Norðausturkjördæmis og samgönguráðherra svara því strax hvort heppilegra sé að flýta framkvæmdum við styttri göngin inn í Mjóafjörð, sem gætu mögulega tekið 4-6 ár, áður en útboð Fjarðarheiðarganga er ákveðið. Án Mjóafjarðarganga kemst Mið-Austurland aldrei inn á hringveginn, verði lengstu göngin undir Fjarðarheiði tekin fram yfir styttri göngin. Þá yrðu Seyðfirðingar, Egilsstaða- og Héraðsbúar áfram sviptir öllu aðgengi að stóra Fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupstað þegar bílstjórar sjúkrabifreiða treysta illa veginum á Fagradal, í 360-400 m hæð, sem er engu betri en Öxi og Fjarðarheiði, og hvergi öruggur fyrir meira en 80-90 metra veðurhæð á sekúndu og 6-12 metra snjódýpt.

Fullvíst þykir að þetta vandamál hverfi aldrei næstu áratugina án þess að ákvörðun liggi fyrir um hvernig þessum göngum á Mið-Austurlandi, sem rjúfa alla vetrareinangrun Fjarðabyggðar við Seyðisfjörð og byggðirnar norðan Fagradals, verði forgangsraðað. Tryggjum Héraðsbúum og Seyðfirðingum strax betra aðgengi að stóra Fjórðungssjúkrahúsinu.

Höfundur er farandverkamaður.

Höf.: Guðmundur Karl Jónsson