Dóra Ósk Halldórsdóttir
doraosk@mbl.is
Kærunefnd jafnréttismála hefur kveðið upp úrskurð um að Listaháskóli Íslands hafi brotið jafnréttislög þegar kona var ráðin í stöðu lektors í sviðslistadeild skólans árið 2022.
Sex sóttu um starfið og af þeim voru fjórir taldir hæfir. Í maí 2022 var tilkynnt að kona hefði fengið stöðuna. Karlmaður, sem var kennari við skólann, fór fram á rökstuðning fyrir ákvörðun skólans en því var synjað. Hann kærði niðurstöðu ráðningarinnar til kærunefndar jafnréttismála í nóvember 2022 og sagðist hafa mun meiri reynslu en umsækjandinn sem fékk stöðuna, vera meira menntaður og hafa þar að auki kennt þeirri sem hlaut stöðuna. Þá sagði hann að aðeins hefði verið rætt við meðmælanda þess sem fékk stöðuna en ekki hans.
Skólinn sagði hins að jafnræðis hefði verið gætt í ráðningarferlinu enda hefði utanaðkomandi hæfisnefnd metið hæfi allra umsækjenda samkvæmt háskólalögum. Niðurstaða heildarmats hefði verið sú að menntun, reynsla, viðhorf og sýn umsækjandans sem hlaut starfið hefði verið talin falla betur að þörfum skólans og henni hefði því verið boðið starfið.
Kærunefndin segir hins vegar að ekki hafi hlutlæg og málefnaleg sjónarmið legið til grundvallar ákvörðun Listaháskólans og málsmeðferð hafi verið gölluð. Þá gerir nefndin athugasemd við að skort hafi aðkomu rektors að ráðningunni, sem virtist vera alfarið í höndun hæfisnefndar. Þá liggi aðeins fyrir handskrifuð matsblöð tveggja nefndarmanna um umsækjendur og engin skrifleg umsögn um mat nefndarinnar hafi farið til rektors. Er niðurstaða kærunefndarinnar að skólinn hafi mismunað umsækjendum um lektorsstarfið á grundvelli kyns og var skólanum gert að greiða kæranda 250 þúsund kr. í málskostnað.