Kjaraviðræður Samningsaðilar munu funda hjá ríkissáttasemjara í dag.
Kjaraviðræður Samningsaðilar munu funda hjá ríkissáttasemjara í dag. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Ólafur E. Jóhannsson oej@mbl.is

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

Samtökum atvinnulífsins, SA, hugnast að fara blandaða leið í komandi kjarasamningum, þ.e. krónutöluhækkun fyrir lægst launaða hópinn en prósentuhækkanir fyrir aðra. Hugmyndir eru um að hækkanir geti orðið 3-4% á ári að jafnaði á samningstímanum, að launaskriði meðtöldu. Þetta herma heimildir Morgunblaðsins. Efling er sögð leggja áherslu á krónutöluhækkanir. Aðilar eru sammála um að ná niður verðbólgu og skapa svigrúm fyrir lækkun vaxta. Óformleg samtöl hafa farið fram á milli einstaklinga innan breiðfylkingar stéttarfélaga og SA sem funda hjá ríkissáttasemjara í dag.

„Það sem mér hefur þótt jákvæðast í yfirstandandi viðræðum er sá góði tónn sem hefur verið í forsvarsfólki aðila og einlægur áhugi á að ná þessu saman, en verkefnið er gríðarlega flókið,“ segir Ari Edwald í samtali við Morgunblaðið. Hann var spurður um hvernig hann mæti stöðuna í viðræðunum, en Ari var fyrsti framkvæmdastjóri SA.

„Við höfum síðustu áratugi viðhaft vinnubrögð sem hafa skilað í besta falli um tvöföldum launahækkunum miðað við nágrannalöndin og oft meiru. Allir vita samt að það getur ekki gengið upp og er meginundirrót hærri verðbólgu og vaxta hér en í samanburðarlöndunum. Við vitum líka að launahlutföll á milli hópa eru mjög tregbreytanleg, þótt í undantekningartilvikum skapist sátt um að tiltekinn hópur lagi stöðu sína í heildarmyndinni. Það hefur líka verið ofarlega á blaði í mörgum samningalotum að hækka lægstu launin mest, þannig að það er óraunhæft að launabil geti þjappast mikið meira saman. Það er ekki bara milli verkafólks og svo millitekjuhópa og hærri. Það á líka við um taxtakerfi verkalýðsfélaga. Þegar núverandi taxtakerfi Starfsgreinasambandsins var sett upp árið 2000 var að mig minnir 1,5% munur á milli þrepa og flokka, en hann var orðinn 0,6% árið 2019, svo dæmi sé tekið. Það eru því miklar líkur á að krónutöluhækkun á lægstu laun verði lesin sem prósentuhækkun sem gangi yfir allan vinnumarkaðinn,“ segir Ari.

Hann segir að vandamálið sem við blasi sé að sú prósentutala sem umsamin krónutöluhækkun á lægstu laun gefi megi ekki gefa tóninn um hækkanir umfram þanþol efnahagslífsins. Einnig að þær hækkanir sem þegar hafi orðið á grunnþjónustu og nauðsynjavörum hafi skapað brýnan vanda hjá láglaunafólki, sem verði ekki eingöngu leystur með t.d. 15.000 kr. launahækkun eða meiri. Segja megi að það hafi lærst á níunda áratugnum að ekki verði unnið á verðbólgu með launahækkunum. Þótt laun hafi verið verðbætt á þriggja mánaða fresti og fundinn upp vísitöluauki, hafi það aldrei skilað árangri.

„Þetta var ávísun á óðaverðbólgu og kaupmáttur rýrnaði þótt nafnlaun hækkuðu um 1.400%,“ segir Ari. „Í þessu ljósi skil ég vel að hugmynd Vilhjálms Birgissonar um 0% launahækkun gegn afnámi hækkana veki athygli og hans framsetning er í raun ekki fjarri því sem var staðan á árunum eftir þjóðarsáttarsamningana sem voru í gildi frá ársbyrjun 1990 og út árið 1991. Árið 1992 var gerður eins árs samningur sem byggðist á miðlunartillögu sáttasemjara um 1,7% hækkun launa það ár. Þá tóku við tvö ár, 1993 og 1994, þar sem árleg hækkun var engin, þ.e. 0%, en ríkisvaldið lækkaði virðisaukaskatt á matvæli úr 24% í 14% og lofaði að festa gengi. Lág verðbólga var meginmarkmið. Í því fólust kjarabæturnar sem lögðu grunn að friði á vinnumarkaði þessi ár,“ segir hann.

„Ég tel leið hreinnar krónutöluhækkunar ólíklegri heldur en blöndu af lágmarkshækkun og prósentu, þar sem hún rímar illa við launakerfi margra hópa og rétt væri að skoða hvaða ívilnanir væri hægt að gera varðandi hækkanir og álögur til að sátt geti myndast um krónutölu sem gengur upp. Þar þarf að koma til frumkvæði sem sameinar fólk um skýr markmið um lága verðbólgu og stöðugleika og þar sem allir eru með,“ segir Ari Edwald.

Höf.: Ólafur E. Jóhannsson