Ingólfur Ómar sendi mér góðan póst: Heill og sæll, Halldór, nú er vetrarlegt um að litast á þessu sunnudagskvöldi. Ég skrapp niður að Gróttu fyrr í kvöld og það var talsvert brim og hann gekk á með éljum

Ingólfur Ómar sendi mér góðan póst: Heill og sæll, Halldór, nú er vetrarlegt um að litast á þessu sunnudagskvöldi. Ég skrapp niður að Gróttu fyrr í kvöld og það var talsvert brim og hann gekk á með éljum.

Orgar Kári kuldablár

hvítnar bárufaldur.

Fellur snjár og freyðir sjár

froðugrár og kaldur.

Á föstudaginn skrifaði
Ingólfur Ómar mér og sagði að á þessum hrollkalda bóndadegi hefði sér dottið í hug þessi
braghenda:

Yggldur Þorri ýfir brána oft og tíðum

kaldsamur með kyljum stríðum,

kuldabitru og norðanhríðum.

Skírnir Garðarsson skrifaði mér á föstudag: Var að taka til hjá mér og fann þessa vísu sem varð til í bændaferð til Slóveníu fyrir allmörgum árum.

Fyrripartinn minnir mig að Sigurður Baldursson eigi, hann er svona:

Pena ef þú píu sérð,

og prufa vilt að ná 'enni.

Ég og fleiri botnuðum.

Minn var svona:

Henni bjóddu í bændaferð,

þá bráðnar klakinn á 'enni.

Um helgina var ég að fletta ljóðmælum Bjarna Thorarensen. Hann orti í síðasta sinn sem hann reið yfir Rangárvöllu:

Hlíðar bláu bólstrarner

beint í loft sig hringa –

í hinsta sinni heilsa' eg þér,

himinn Rangæinga.

Um sjálfan sig orti Bjarni:

Ei ég þori að kjamta né kvika,

við kæti alla verð ég að hika,

hvorki má ég daðra né dika,

svo dagur hver er langur sem vika.

Aleinn drekk ég, aldrei gef ég

einn víndropa hjúum mín;

sjálfur fullur sið þann hef ég

svo þau verði' ei drykkjusvín.

„Hingað og ekki lengra“ er fyrirsögn í bók Braga V. Bergmann Limrur fyrir land og þjóð: Ég skil fyrr en skellur í tönnum, sagði einhver einhvern tímann af einhverju tilefni. Stundum skilur maður ekki neitt í neinu og sér ekki handa sinna skil:

Hann skynjaði vart hvað hann vildi

og varla hvort yfirleitt þyldi

einn daginn enn

aðfinnslur henn-

ar en skildi það loks er hann skildi!

Menn ruddust með fjármagnsins fána¶ og studdu svo krossmenn og kjána¶ og fundu með hryggð¶ undir hamri og sigð¶ að hugmyndir eldast og þrána.¶ Á Boðnarmiði yrkir Reinhold Richter við fallega ljósmynd:¶ Skýjabakkar byggja höll¶ bjóða í veislu salinn;¶ sæl þar dansa sól og mjöll¶ sáldra ljósi um dalinn.¶ Öfugmælavísan:¶ Séð hef ég marhnút mjólka geit,¶ magran þorskinn sníða kjól,¶ karfann fara í kúaleit¶ kömpung smíða skriftastól.