Steinþór Guðbjartsson
steinthor@mbl.is
Menningin blómstrar á Hótel Holti í Reykjavík sem fyrr. Námskeið um rússneskar bókmenntir stendur yfir í salarkynnum hótelsins undir leiðsögn Gunnars Þorra Péturssonar og tónleikaröðin „Oft er í Holti heyrandi nær“ hefur verið á fimmtudögum síðan í október. Á morgun, fimmtudaginn 1. febrúar, er komið að tríói Agnars Más Magnússonar píanóleikara og er skemmtunin í klukkutíma, frá 18 til 19, sem fyrr. „Við ákváðum að blása lífi í menninguna í húsinu með þessum hætti og viðburðunum hefur verið vel tekið,“ segir Þorvaldur Kristjánsson, viðburðastjóri hótelsins.
Hótel Holt var tekið í notkun árið 1965 og strax frá byrjun lögðu hjónin og eigendurnir Þorvaldur Guðmundsson og Ingibjörg Guðmundsdóttir áherslu á að sýna gestum og gangandi listaverk í húsakynnunum. Geirlaug Þorvaldsdóttir, dóttir þeirra, hefur haldið í hefðina frá því að hún keypti hlut systkina sinna fyrir um 20 árum og Þorvaldur, sonur hennar, er á sömu línu.
List og fegurð
Í tríóinu með Agnari Má eru Esther Talía Casey leikari og franski tónlistarmaðurinn Nicholas Moreaux, sem spilar á kontrabassa. Þau taka öll þátt í söngleiknum Deleríum Búbónis í Borgarleikhúsinu og flytja lög úr verkinu. „Þau verða með afar skemmtilegt prógramm,“ segir Þorvaldur og bætir við að mikill fengur sé fyrir íslenskt tónlistarlíf að fá Nicholas til landsins. „Hann er mikill listamaður, hefur skipulagt tónleikaröðina og fengið fólk til liðs við sig.“
Listaverkasafnið á Hótel Holti þykir mjög merkilegt, en þar eru um 450 málverk eftir listamenn eins og Jóhannes S. Kjarval, Ásgrím Jónsson, Jón Stefánsson, Kristínu Jónsdóttur, Júlíönu Sveinsdóttur, Gunnlaug Blöndal, Jón Stefánsson, Jón Þorleifsson, Gunnlaug Scheving, Jón Engilberts og Eirík Smith. Þorvaldur segir hótelið eftirsótt í tengslum við kvikmyndatökur, sjónvarpsþætti og tónlistarmyndbönd og mikilvægt sé að halda menningunni á lofti, enda sé þetta listahótel. „Hugmyndin með tónleikaröðinni var að efla menningarstarfsemina í húsinu,“ áréttir hann.
Þorvaldur Guðmundsson var ástríðumálverkasafnari og í safni hjónanna voru um 1.500 verk, sem flest eru hjá Listasafni Íslands. „Upphaflega hugmyndin hjá afa og ömmu var að sameina listasafn og hótel með það að leiðarljósi að list og fegurð ættu að vera á sem flestum stöðum í almannarými, enda hefði hún bætandi áhrif á fólk,“ segir Þorvaldur, dóttursonur þeirra. Boðið sé upp á listagöngur um húsið, haldnar hafi verið sérstakar listasýningar og gjörningar á herbergjum. „Við bjóðum listafólk velkomið og aðstoðum það af fremsta megni.“
Gunnar Þorri byrjaði með bókmenntanámskeið á Hótel Holti í fyrra. Nú tekur hann fyrir Glæp og refsingu eftir Fjodor Dostojevskí og er hálfnaður með yfirferðina, en fjórar kvöldstundir á miðvikudögum fara í verkefnið.
Tónleikaröðin hófst 5. október síðastliðinn, en þá stigu Sigríður Thorlacius söngkona og Daníel Friðrik Böðvarsson gítarleikari á svið með Nicholas Moreaux. Síðan hefur franski tónlistarmaðurinn leikið með ýmsu listafólki vikulega og er búið að skipuleggja dagskrá á fimmtudögum út mars.