Vaxtaákvarðanir munu nú ráðast mjög af þróun kjaraviðræðna

Í nýjasta riti Peningamála, sem Seðlabankinn gaf út seint í nóvember síðastliðnum samhliða nýrri vaxtaákvörðun, kom fram að verðbólguhorfur til skamms tíma hefðu versnað á ný og útlit væri fyrir að verðbólgan yrði 6,8% á fyrsta fjórðungi þessa árs, eða 1 prósentu meiri en gert hafði verið ráð fyrir í ágúst síðastliðnum. Þetta varð til þess að peningastefnunefnd, sem þó ákvað að halda vöxtum óbreyttum, nefndi í yfirlýsingu sinni að þrátt fyrir að áhrif vaxtahækkana væru að koma skýrar fram „gæti þurft að herða taumhald peningastefnunnar enn frekar“.

Meðal annars af þessum sökum hafa margir gert ráð fyrir hækkun vaxta á næsta vaxtaákvörðunardegi, sem er miðvikudaginn 7. febrúar næstkomandi.

Nýjar verðbólgutölur gefa vonir um að verðbólgan gangi hraðar niður um þessar mundir en spá bankans í nóvember gerði ráð fyrir. Verðbólgan í janúar mælist 6,7%, sem er 1 prósentu minna en í desember og vel undir því sem almennt hafði verið spáð. Þetta gefur jafnframt vonir um að Seðlabankinn meti það svo að ástæða sé til að halda vöxtum óbreyttum í næstu viku og að fram undan séu vaxtalækkanir.

Sú þróun ræðst þó að verulegu leyti af því sem gerist í kjaraviðræðum á næstu dögum og vikum. Þar hafa horfur heldur versnað og óvissa aukist, sem að öðru jöfnu ýtir undir hærri stýrivexti.

Næsta vaxtaákvörðun bankans eftir 7. febrúar er skammt undan, eða 20. mars. Þá kunna að vera orðnar forsendur til lækkunar vaxta, eða í það minnsta að þeir haldist óbreyttir, en það mun að verulegu leyti ráðast af því hvort þá verður búið að semja á skynsamlegum og hóflegum nótum á vinnumarkaði.