„Við uppbyggingu hleðsluinnviða í landinu þarf meiri samþættingu svo að takmarkaðir fjármunir séu nýttir þar sem þeirra er þörf,“ segir Þórdís Lind og bætir við að einfalda þurfi regluverkið.
„Við uppbyggingu hleðsluinnviða í landinu þarf meiri samþættingu svo að takmarkaðir fjármunir séu nýttir þar sem þeirra er þörf,“ segir Þórdís Lind og bætir við að einfalda þurfi regluverkið. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Þróunin á sviði orkumála er bæði hröð og spennandi og þurfa seljendur að vera á verði. Þórdís Lind Leiva tók nýlega við orkusviði N1 og segir hún orkuskort farinn að valda óvissu á orkumarkaði. Hver var síðasta ráðstefnan sem þú sóttir? Ég fór síðast á vetnisráðstefnu sem var virkilega áhugaverð

Þróunin á sviði orkumála er bæði hröð og spennandi og þurfa seljendur að vera á verði. Þórdís Lind Leiva tók nýlega við orkusviði N1 og segir hún orkuskort farinn að valda óvissu á orkumarkaði.

Hver var síðasta ráðstefnan
sem þú sóttir?

Ég fór síðast á vetnisráðstefnu sem var virkilega áhugaverð. Lausnir til að flýta fyrir orkuskiptum í samgöngum þurfa að vera fjölbreyttar og því er spennandi að sjá hvernig vetni mun nýtast þar, sérstaklega í þungaflutningum; sjóflutningi og flugi.

Hvaða bók hefur haft mest
áhrif á hvernig þú starfar?

Það eru ýmsar bækur sem hafa haft áhrif á mig þegar kemur að mínum störfum. Efst í huga er bókin Morality eftir Jonathan Sacks, en hann fer yfir ýmsa þætti tengda vinnu og samfélagi þegar kemur að siðferði, jafnrétti og samvinnu.

Hvernig heldurðu þekkingu þinni við?

Ég er afar heppin að starfa á krefjandi markaði sem breytist ört og heldur mér á tánum. Til að mæta þeim fjölbreyttu verkefnum sem á mitt borð berast er ég dugleg að sækja fyrirlestra og námskeið, enda hef ég alltaf sótt í meiri þekkingu, bæði persónulega og í starfi. Svo bý ég vel að geta sótt þekkingu til samstarfsfélaga minna þvert á félagið.

Hugsarðu vel um líkamann?

Ég hef alltaf verið dugleg að hreyfa mig og hefur hreyfing átt hug minn frá unglingsaldri. Ég slasaðist illa á öxl og hné í fyrra og hef því þurft að draga mig í hlé frá hlaupum og lyftingum. Ég hef því verið að breyta um takt og farið í langa göngutúra með hundana mína og finn hversu mikið það hjálpar andlegri heilsu eftir annasaman dag.

Hvert væri draumastarfið ef þú
þyrftir að finna þér nýjan starfa?

Ég myndi ekki segja að ég ætti mér eitthvert eitt draumastarf. Ég þrífst best í umhverfi þar sem ég vinn með samheldnum hópi sem miðlar þekkingu sín á milli og í sameiningu vinnum við að því að leysa krefjandi verkefni. Gott samstarfsfólk sem eflir mig í starfi er því undirstaðan að draumastarfinu.

Hvaða kosti og galla sérðu
við rekstrarumhverfið?

Nú er svo komið að eftirspurn eftir raforku er orðin mun meiri en framboð og því er farið að gæta á orkuskorti á vissum tímabilum, sem veldur óvissu á markaði. Mikilvægt er að gæta að orkuöryggi almenna markaðarins í slíku ástandi.

Við uppbyggingu hleðsluinnviða í landinu þarf meiri samþættingu svo að takmarkaðir fjármunir séu nýttir þar sem þeirra er þörf auk þess sem einfalda þarf regluverk svo það myndist ekki flöskuháls þar. Skilgreina þarf hlutverk ríkisrekinna fyrirtækja á þessum markaði og þá hvar og hvort þau eigi að keppa við einkafyrirtæki.

Hvað myndirðu læra ef þú fengir
að bæta við þig nýrri gráðu?

Ég hef alla tíð notið þess að vera í námi og því hefur verið fleygt fram að ég sé eilífðarstúdent. Ég nýt þess að viða að mér nýrri þekkingu og nú eiga orkumál hug minn allan; því er líklegast að ég myndi bæta við mig þekkingu innan þess sviðs.

Hvað gerirðu til að fá orku
og innblástur í starfi?

Samvera með fjölskyldunni og þá sérstaklega börnunum mínum endurnærir mig eftir annasama daga, sem og dagleg hreyfing. Einnig veita samstarfsfélagar mínir mér mikinn innblástur enda er mikil og fjölbreytt þekking innan hópsins sem ég nýt góðs af á hverjum degi.

Ævi og störf:

Nám: Sveinspróf í grafískri miðlun frá Iðnskólanum í Reykjavík 2007; gráða í grafískri hönnun frá University Campus Suffolk 2008; B.Sc. í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík 2016 og MBA frá sama skóla 2022.

Störf: Verkefnastjóri hjá Sjóvá 2016 til 2020; sérfræðingur á orkusviði N1 Rafmagns 2020 til 2023 og forstöðumaður orkusviðs frá 2023.

Áhugamál: Við fjölskyldan ferðumst mjög mikið og elskum að fara á nýja og framandi staði. Ég og maðurinn minn, Davíð, njótum þess að fara í langa göngutúra á kvöldin með börnunum okkar og hundunum.

Fjölskylduhagir: Maki minn heitir Davíð Mar Guðmundsson og eigum við börnin Kamillu Katrínu og Oliver Mar.