Golf spilað af kappi í Bönkernum á Smiðjuvöllum á Akranesi. Hver Trackman-golfhermir kostar um sex milljónir króna.
Golf spilað af kappi í Bönkernum á Smiðjuvöllum á Akranesi. Hver Trackman-golfhermir kostar um sex milljónir króna.
Fjöldi golfherma á Akranesi hefur á örskömmum tíma farið úr einum, hjá golfklúbbnum Leyni, upp í fimm eftir að bæði Bönkerinn og Golfheimur opnuðu, hvort fyrirtæki með tvo herma. Aðeins 200 metrar skilja fyrirtækin að á Smiðjuvöllum og samkeppnin því hörð

Fjöldi golfherma á Akranesi hefur á örskömmum tíma farið úr einum, hjá golfklúbbnum Leyni, upp í fimm eftir að bæði Bönkerinn og Golfheimur opnuðu, hvort fyrirtæki með tvo herma. Aðeins 200 metrar skilja fyrirtækin að á Smiðjuvöllum og samkeppnin því hörð.

Karl Ómar Karlsson rekur Golfheim ásamt Valdísi Þóru Jónsdóttur, fyrrverandi atvinnumanni og margföldum Íslandsmeistara.

„Við bjóðum upp á tvo glænýja Trackman-herma af fullkomnustu gerð og fjögur píluspjöld,“ segir Karl og segir mikinn og vaxandi áhuga á Skaganum fyrir báðum íþróttum.

Karl starfaði um árabil sem íþróttastjóri Leynis en er nú íþróttastjóri golfklúbbsins Keilis í Hafnarfirði, búsettur á Akranesi. Hann býst við að fólk mæti í Golfheim bæði til að spila, leika sér og fá kennslu sem boðið verður upp á á staðnum.

Hann segir að það sé greinilega markaður fyrir rekstur golfherma á Akranesi. Golfíþróttinni vaxi hratt fiskur um hrygg og margir hafi keyrt til Reykjavíkur til að spila þar í hermum. „Svo er enginn golfhermir í nágrannabænum Borgarnesi,“ segir Karl.

Hann segir mikinn metnað vera lagðan í aðstöðuna. „Við erum með hljóðdempun í lofti og veggjum.“

Karl á von á því að taka reglulega á móti fyrirtækjahópum, vinahópum, afmælisveislum og öðrum, enda eru margs konar leikir og þrautir í boði bæði í golfinu og pílunni.

Vann lokaverkefni

Sigurður Elvar Þórólfsson, einn eigenda Bönkersins, hefur lengi verið viðloðandi íþróttina enda er hann útbreiðslustjóri Golfsambands Íslands og PGA-golfkennaranemi.

Spurður um hvenær hugmyndin hafi fæðst segir Elvar að hún hafi orðið til þegar sonur hans og einn meðeigenda, Axel Fannar Elvarsson, skrifaði lokaverkefni í viðskiptafræði um rekstur golfherma á Íslandi. „Við vorum alltaf með augun opin fyrir húsnæði og rétta tímapunktinum en svo kom þetta í fangið á okkur í haust.“

Eins og fyrr sagði eru tveir hermar í boði. „Við stílum inn á að vinir og kunningjar og fjölskyldur geti átt hjá okkur góðar stundir og allir geta tekið þátt. Við viljum líka skapa golfsamfélag,“ segir Elvar.

Hann segir að viðtökur við Bönkernum hafi farið fram úr villtustu draumum aðstandenda, en rúmur mánuður er síðan dyrnar voru opnaðar í fyrsta sinn.

„Það sem hefur komið mér mest á óvart er að það kemur margt fólk sem við höfum aldrei séð áður, fólk sem kannski er ekkert mjög virkt í útigolfi. Svo býð ég upp á kennslu um kvöld og helgar.“

Boðið verður upp á fullkomið bókunarkerfi og sjálfsafgreiðslu á báðum stöðum þannig að ekki verður þörf á viðveru starfsmanna þegar frá líður. Golfmót verða einnig haldin beggja vegna.

Spurður um samkeppnina við Golfheim segist Elvar hafa trú á að nægt pláss sé fyrir bæði fyrirtæki. „Þetta styður hvort annað og er bara gott fyrir golfíþróttina almennt og samfélagið á Akranesi. Nú hefur afþreyingarmöguleikum fjölgað hér fyrir fólk á öllum aldri.“