Umframdauðsföll á Íslandi á tímum faraldurs kórónuveirunnar voru hlutfallslega færri en í nær öllum öðrum löndum innan Efnahags- og framfarastofnunarinnar OECD samkvæmt nýlegum samanburði stofnunarinnar. Sóttvarnalæknir vekur athygli á þessum niðurstöðum í pistli á vef Landlæknis og segir þær benda til þess að sóttvarnaaðgerðir á Íslandi á tímum heimsfaraldursins hafi verið árangursríkar.
Í skýrslu OECD er heildarfjöldi dauðsfalla í OECD-ríkjunum á árunum 2020 til 2022 borinn saman við meðalfjölda dauðsfalla á árunum fyrir faraldurinn, þ.e.a.s. á árunum 2015 til 2019, og er í útreikningunum tekið tillit til breytinga á íbúafjölda og aldurssamsetningu landanna. „Niðurstaðan leiðir í ljós að af OECD-ríkjunum voru færri dauðsföll á Íslandi á COVID-19 tímanum en búast hefði mátt við miðað við fólksfjölgun og aldurssamsetningu þjóðarinnar. Voru umframdauðsföll þannig lægst í Nýja-Sjálandi en næstlægst á Íslandi,“ segir í pistli sóttvarnalæknis.
Fram kemur að í fyrri samanburðum hafi ekki endilega verið leiðrétt fyrir lýðfræðilegri þróun í löndunum en með því að taka tillit til hennar fáist raunhæfur samanburður milli landa um hversu margir hafi látist á tímum Covid-19 faraldurins umfram það sem búast mátti við miðað við fyrri ár.
„Þar vegur þungt ört hækkandi hlutfall aldraðra og fólksflutningar sem hafa leitt til umtalsverðra breytinga á íbúafjölda auk aldurssamsetningar einstakra ríkja. Heilt yfir hefur hlutfall 65 ára og eldri hækkað um 19% á svæðinu frá 2015–2022,“ segir í pistlinum.
Bendir sóttvarnalæknir á að OECD-skýrslan leiði í ljós að þegar leiðrétt hafi verið fyrir lýðfræðilegum breytum sýni samanburðurinn að dauðsföll í OECD-ríkjunum voru að meðaltali 5,3% fleiri á árunum 2020–2022 en á samanburðarárunum fyrir heimsfaraldur Covid-19. Skráðar voru tvær milljónir umframdauðsfalla hvert ár á svæðinu á þessum þremur árum. Var helmingur dauðsfallanna, eða um þrjár milljónir, skráður sem andlát vegna Covid-19.
„Munur milli landa hvað varðar dauðsföll á þessu tímabili er hins vegar verulegur. Níu lönd af 41 skera sig úr, þar sem dauðsföll á COVID-árunum voru færri en búast mátti við miðað við árin fyrir heimsfaraldurinn. Þetta eru Nýja-Sjáland (-4,4%), Ísland, Noregur, Írland, Austurríki, Kórea, Svíþjóð, Lúxemborg og Ísrael. Þau ríki OECD þar sem umframdauðsföll voru langflest eru Kólumbía (+23,5%) og Mexíkó (+30,5%),“ segir í pistlinum. omfr@mbl.is