Drjúg Lovísa Björt Henningsdóttir átti góðan leik fyrir Hauka.
Drjúg Lovísa Björt Henningsdóttir átti góðan leik fyrir Hauka. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Haukar tryggðu sér í gærkvöldi sæti í A-deild úrvalsdeildar kvenna í körfubolta með 58:52-heimasigri á Fjölni. Efstu fimm liðin fara nú í A-deild og mætast innbyrðis á meðan neðri fjögur gera slíkt hið sama í B-deild

Haukar tryggðu sér í gærkvöldi sæti í A-deild úrvalsdeildar kvenna í körfubolta með 58:52-heimasigri á Fjölni. Efstu fimm liðin fara nú í A-deild og mætast innbyrðis á meðan neðri fjögur gera slíkt hið sama í B-deild. Taka liðin með sér þau stig sem þau hafa unnið inn.

Haukar hafa verið á góðri siglingu og var sigurinn í gær sá þriðji í röð. Fjölnir er aðeins með fjögur stig í áttunda sæti og í harðri fallbaráttu við Snæfell. Keira Robinson skoraði 22 stig og tók tíu fráköst fyrir Hauka. Korinne Campbell skoraði 20 stig og tók 11 fráköst fyrir Fjölni.

Var Þór í góðri stöðu með að tryggja sér fimmta sætið, en Þórsarar töpuðu sínum fjórða leik í röð í gær er liðið mætti toppliði Keflavíkur á útivelli. Voru Keflvíkingar með yfirburði og urðu lokatölur 97:68.

Með sigrinum náði Keflavík aftur fjögurra stiga forskot á toppi deildarinnar, í bili hið minnsta, en Njarðvík getur minnkað það aftur í tvö stig með sigri á Val í kvöld.

Sara Rún Hinriksdóttir og Thelma Dís Ágústsdóttir skoruðu 22 stig hvor fyrir Keflavík. Madison Sutton gerði 18 fyrir Þór.

Þá vann Grindavík 80:72-sigur á Stjörnunni. Voru bæði lið örugg í A-deild fyrir leikinn. Stjarnan missti af tækifæri til að jafna Grindavíkinga á stigum, en þess í stað munar fjórum stigum á liðunum. Er Grindavík í þriðja sæti með 22 stig og Stjarnan í fjórða með 18 eftir þrjú töp í röð.

Danielle Rodríguez var stigahæst hjá Grindavík með 20 stig. Kolbrún María Ármannsdóttir gerði 20 fyrir Stjörnuna.