[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Óvíst er hversu mikið Málfríður Anna Eiríksdóttir leikur með Íslandsmeisturum Vals í knattspyrnu á komandi tímabili. Hún er á leið í nám til Danmerkur og er gengin til liðs við B-deildarfélagið B 93 í Kaupmannahöfn

Óvíst er hversu mikið Málfríður Anna Eiríksdóttir leikur með Íslandsmeisturum Vals í knattspyrnu á komandi tímabili. Hún er á leið í nám til Danmerkur og er gengin til liðs við B-deildarfélagið B 93 í Kaupmannahöfn. Málfríður, sem lék 20 leiki í Bestu deildinni í fyrra og var fyrirliði á lokaspretti tímabilsins, sagði við Morgunblaðið að hún reiknaði með því að spila eitthvað með Val á tímabilinu.

Knattspyrnumaðurinn Frosti Brynjólfsson er genginn í raðir Hauka að nýju eftir tveggja ára dvöl hjá Fylki. Frosti er 23 ára gamall kantmaður sem lék 15 leiki fyrir Fylki í Bestu deildinni á síðasta tímabili og 13 leiki í 1. deild tímabilið á undan, þar sem hann skoraði eitt mark.

Sænski knattspyrnuvefurinn Kollasvenskan fylgist áfram vel með hinni íslensku Maríu Ólafsdóttur Gros, leikmanni Fortuna Sittard í hollensku úrvalsdeildinni, og er með hana í úrvalsliði vikunnar á ný. Á María sænska móður. María skoraði laglegt mark um helgina þegar hún tryggði Fortuna jafntefli gegn Ajax, 1:1, í uppgjöri liðanna í öðru og þriðja sæti í Hollandi.

Enska félagið Crystal Palace hefur fest kaup á kólumbíska knattspyrnumanninum Daniel Munoz frá belgíska félaginu Genk. Kaupverðið er 6,8 milljónir punda, tæplega 1,2 milljarðar íslenskra króna, og skrifaði Munoz undir þriggja ára samning með möguleika á árs framlengingu

Knattspyrnukonan Jana Sól Valdimarsdóttir er gengin til liðs við HK og hefur samið við Kópavogsfélagið til tveggja ára. Hún er tvítug, leikur sem kantmaður og hefur spilað 21 leik með Stjörnunni í efstu deild og skorað þrjú mörk. Jana hefur verið í röðum Vals frá árinu 2021 en ekkert getað spilað með liðinu á Íslandsmótinu vegna meiðsla.

Norski knattspyrnumaðurinn Erling Haaland, sóknarmaður Manchester City, hefur jafnað sig á meiðslum á fæti sem hafa haldið honum frá keppni frá því í byrjun desember. Man. City mætir Jóhanni Berg Guðmundssyni og félögum í Burnley í ensku úrvalsdeildinni á heimavelli í kvöld, þar sem Haaland mun snúa aftur.