Ísrael Miklar vonir eru um mögulegt vopnahlé á Gasa en miðað við ummæli Netanjahú gæti verið lengra í samkomulag en sáttasemjarar vonuðust til.
Ísrael Miklar vonir eru um mögulegt vopnahlé á Gasa en miðað við ummæli Netanjahú gæti verið lengra í samkomulag en sáttasemjarar vonuðust til. — AFP/Ronen Zvulun
Mannskæðir bardagar og sprengjuárásir héldu áfram á Gasasvæðinu í gær. Alþjóðasamfélagið hefur áhyggjur af frekari átökum og alþjóðlegir sáttasemjarar hafa unnið hart að tillögu um vopnahlé. Embættismenn Bandaríkjanna, Ísraels, Egyptalands og Katar…

Helena Björk Bjarkadóttir

helena@mbl.is

Mannskæðir bardagar og sprengjuárásir héldu áfram á Gasasvæðinu í gær. Alþjóðasamfélagið hefur áhyggjur af frekari átökum og alþjóðlegir sáttasemjarar hafa unnið hart að tillögu um vopnahlé.

Embættismenn Bandaríkjanna, Ísraels, Egyptalands og Katar funduðu á sunnudag í París um mögulegt vopnahlé milli stríðandi fylkinga á Gasa. Niðurstaðan var tillaga að rammaáætlun um vopnahlé. Háttsettir Hamas-liðar staðfestu að þeir hefðu móttekið tillöguna. Á telegram-reikningi sínum sögðust þeir vera „í ferli að skoða hana og skila svari sínu“.

Ísraelskir embættismenn hafa áður sagt að viðræður um vopnahlé væru uppbyggilegar. En í gær sagði Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, að Ísraelsmenn myndu ekki draga herlið sitt til baka frá Gasa.

„Ég vil taka það skýrt fram. Við munum ekki draga herlið okkar til baka frá Gasa-svæðinu og við munum ekki sleppa þúsundum hryðjuverkamanna. Ekkert af þessu mun gerast,“ sagði hann í ávarpi sem hann fluttu í Eli-gyðingabyggðinni á Vesturbakkanum.

Allt að sex vikna vopnahlé

Fjölmiðlar hafa gefið til kynna að tillagan að samkomulagi milli Ísrael og Hamas feli í sér allt að sex vikna vopnahlé. Ísraelskir fjölmiðlar fjölluðu um tillöguna og sögðu áætlunina vera í þremur áföngum, þar sem lausn kvenna, barna og aldraðra gísla úr haldi Hamas á Gasa væri hluti af fyrsta áfanganum.

Miklar vonir um samninga

Forsætisráðherra Katar, Sheikh Mohammed bin Abdulrahman Al Thani, lýsti yfir von um að samningurinn gæti leitt til varanlegs vopnahlés. Ríkisstjórn hans hjálpaði til við að koma á viku vopnahléi í nóvember. Að hans sögn felur núverandi áætlun í sér vopnahlé í áföngum sem fæli í sér að konur og börn í gíslingu yrðu fyrst látin laus, auk þess sem aukin mannúðaraðstoð yrði veitt á Gasasvæðinu. Bandaríkjastjórn lýsti einnig yfir von um samkomulag. Anthony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði við blaðamenn að mjög mikilvægt og umfangsmikið starf hefði verið unnið.

Höf.: Helena Björk Bjarkadóttir