Ingvi Hallgrímsson fæddist á Skagaströnd þann 17. ágúst 1939. Hann lést á heimili sínu í Kópavogi þann 20. janúar 2024.

Foreldrar Ingva voru Hallgrímur Jónsson frá Ljárskógum og Anna Ragnheiður Fritzdóttir Berndsen. Ingvi átti fimm systkini og eru eftirlifandi systkini hans Anna Ragnheiður Hallgrímsdóttir, Gylfi Hallgrímsson og Hrafnhildur Anna Hallgrímsdóttir.

Fyrri kona Ingva var Anna Fr. Kristjánsdóttir. Dætur Önnu og Ingva eru Anna Marý Ingvadóttir og Ragnheiður Kolbrún Ingvadóttir. Seinni kona Ingva er Hanný Inga Karlsdóttir. Hanný Inga á þrjú börn. Þau eru Karl Eiríksson, Sigurbjörg Eiríksdóttir og Sveindís Björk Eiríksdóttir, d. 6. september 2016. Saman áttu Ingvi og Hanný fimm börn, níu barnabörn og 13 barnabarnabörn.

Ingvi starfaði lengi í Kaupfélaginu í Búðardal og síðar fyrir Samskip þar sem hann sigldi með millilandaflutningaskipi og á viðgerðarverkstæði Samskipa.

Útför fer fram frá Digraneskirkju í dag, 31. janúar 2024, klukkan 13.

Elsku pabbi minn, mikið er erfitt að missa þig. Þú varst alltaf að hjálpa mér og gefa mér gjafir. Þegar þú komst af sjónum gafstu mér alltaf gjöf. Ég var alltaf pabbastelpan þín. Þegar við systurnar vorum pínulitlar þá vorum við hjá frænku minni í bænum. Svo hurfum við langt í burtu, svo þegar við fundumst, þá sögðumst við vera að fara til þín, pabbi. Þú varst hetja þegar þú lentir í sjóslysinu. Þú varst hetjan mín. Ég er svo þakklát fyrir að hafa átt þig að. Takk fyrir allt. Besti pabbi minn, ég á eftir að sakna þín sárt. Nú ertu kominn til mömmu. Þín

Ragnheiður Kolbrún.

Elsku Ingvi afi minn kvaddi skyndilega að kvöldi 20. janúar. Fráfall hans kom öllum að óvörum, en fyrr um daginn höfðum við átt notalega stund í eins árs afmæli dóttur minnar, langafabarnsins hennar Bjarkar.

Það er ótrúlega skrítið að símtölin frá afa eða kaffibollarnir með honum og ömmu verði ekki fleiri, en ég er þakklát fyrir að hafa verið með honum síðasta daginn hans hér.

Þegar ég hugsa um afa er mér hlýja, traust og góðmennska efst í huga. Minningar úr heimsóknum til hans og ömmu í Kópavogi fylla barnæskuna og þegar ég var krakki flakkaði hann með mér um allan Kópavog og brunaði vestur með mig í ævintýraferðir. Hann kenndi mér líka að spila ólsen-ólsen og leyfði mér alltaf að vinna. Það var ekki fyrr en mörgum árum seinna sem ég uppgötvaði að það
voru ekki allir afar eins og afi Ingvi sem kippti sér ekkert upp við það þó ég veldi allar átturnar laumulega fyrir mig sjálfa.

Afi var mikill rólyndismaður og hafði fannst manni endalausa þolinmæði og er sérstaklega minnisstætt eitt skipti þegar ég fór með afa vestur í Dalasýslu á ættarmót. Á ættarmótinu voru litlir hænuungar og ég suðaði eins og óhemja að fá að taka þá með heim. Margir hefðu eflaust misst þolinmæðina yfir þessu suði, en ekki hann afi. Hann reiddist ekki. Ég man líka að mér fannst eins og hann væri alveg að gefa sig, því svo rólegur var hann að hann virtist vera að íhuga það að leyfa mér að taka unga með mér heim í Vesturbæinn, sem hefði alveg örugglega kætt móður mína mikið.

Eftir að við Óskar urðum par hlýjaði samband afa og unnustans mér um hjartað, en oftar en ekki vildi afi „aðeins fá að heyra í Óskari“ þegar hann hringdi í mig. Afi hafði nefnilega svo mikið að gefa og það var pláss í hjartanu hans fyrir svo marga. Hann var líka alltaf eitthvað að brasa og var því eflaust ekki ósáttur við að fá nýjan mann inn í fjölskylduna sem var álíka brasari.

Síðar þegar frumburðurinn minn fæddist hringdi hann 20. hvers mánaðar til þess að óska okkur Óskari og Björk litlu til hamingju með daginn. Hann valdi með natni leikföng handa Björk og ullargalla og velti mikið fyrir sér hvaða stærðir hentuðu til að fötin nýttust sem lengst. Það var því furðulegt að opna afmælispakkann frá honum og ömmu kvöldið eftir andlát hans og sjá þar fallega ullarhúfu sem hann hafði valið. Húfan er stór og ég er nokkuð viss um að afi hafi eytt löngum tíma í að velta stærðunum fyrir sér og ef hann hefði ekki kvatt svo skjótt hefði hann haft ýmislegt um hana að segja.

Afi var öll stóru orðin þó hann hefði seint notað þau um sig sjálfur. Hann var traust og hlýja, dugnaður og góðmennska, stöðugleiki og tryggð. Mér hefur í gegnum tíðina stundum verið líkt við afa, og þó sumir séu hikandi við að líkja ungum konum við afa sinn hef ég alltaf fyllst stolti yfir að vera lík honum afa mínum, enda var betri maður og afi vandfundinn. Takk fyrir allt, elsku afi minn. Við Óskar Björn og Björk vitum að þú passar okkur alltaf sama hvar þú ert.

Bryndís Silja.

Þegar ég flutti í Lækjasmára 8 sumarið 2016 hitti ég þar fyrir Dalamann, Ingva Hallgrímsson frá Búðardal. Ég mundi eftir honum frá því ég var krakki og rifjuðum við upp ýmislegt frá heimaslóðum okkar. Fljótlega komst ég að því að Ingvi var hjálparhella allra í blokkinni. Þau hjón, Ingvi og Hanný, tóku vel á móti öllum sem fluttu í húsið og settu þau inn í málin. Einn íbúi hússins lýsti móttökunum þannig við mig að „það var eins og að koma heim til pabba og mömmu“.

Ingvi var harðduglegur maður. Hann gerði það sem honum fannst þurfa að gera orðalaust og áður en aðrir sáu þörfina. Hann mokaði snjó af gangstéttum og plönum, sópaði úti og inni, hreinsaði frá niðurföllum, hálkuvarði, þvoði ruslatunnurnar í hvert skipti sem þær voru tæmdar, skipti um ljósaperur í sameigninni og dyttaði að því sem bilaði. Hann sá til þess að allir settu eins jólaseríur á svalirnar og hjálpaði okkur mörgum að setja þær upp. Svo fóðraði hann smáfuglana og rak kettina í burtu af lóðinni. Þau hjónin settu háan þrifa- og snyrtimennskustaðal í blokkinni enda hefur húsið verið verðlaunað af Kópavogsbæ fyrir „umhirðu húss og lóðar“.

Ingvi var lífsreyndur maður. Hann lenti í miklum sjávarháska þegar flutningaskipið Dísarfell fórst. Nýverið var sýnt í fjölmiðlum viðtal við hann um björgunina. Þar kom persónuleiki hans vel fram, yfirvegunin og æðruleysið ásamt því hvað hann var myndarlegur og fríður maður.

Heimabyggðin fyrir vestan var Ingva mjög kær og fólkið sem hann þekkti þar. Hann fylgdist með fréttum þaðan af áhuga og spjölluðum við oft saman um menn og málefni átthaganna.

Ég vil fyrir hönd okkar, sambýlisfólksins í blokkinni, og stjórna húsfélagsins fyrr og nú, þakka Ingva fyrir alla vinnuna og kærleiksríku samskiptin. Við söknum góðs vinar og sendum Hanný og fjölskyldunni allri innilegar samúðarkveðjur.

Undir Dalanna sól, við minn einfalda óð

hef ég unað, við kyrrláta för,

Undir Dalanna sól, hef ég lifað mín ljóð,

ég hef leitað og fundið mín svör,

Undir Dalanna sól, hef ég gæfuna gist,

stundum grátið, en oftast í
fögnuði kysst.

Undir Dalanna sól á ég bú mitt og ból

og minn bikar, minn arin, minn svefnstað og skjól.

(Hallgrímur Jónsson frá
Ljárskógum, faðir Ingva)

Blessuð sé minning Ingva Hallgrímssonar.

Ingibjörg S.
Guðmundsdóttir.

Þegar sonur okkar fæddist bjuggum við í sömu blokk og Ingvi og Hanný. Fljótt myndaðist mjög sterkt vinasamband á milli okkar allra en þó alveg sérstaklega á milli sonar okkar og Ingva.

Á hverjum degi brölluðu þeir félagarnir eitthvað skemmtilegt saman og gáfu lífi hvor annars mikinn lit. Þá var það í sérstöku uppáhaldi hjá syni okkar að kalla á vin sinn fyrir neðan svalirnar hjá honum því þá kom Ingvi iðulega út og slakaði kókómjólk og kleinum niður í poka.

Fyrir son okkar var Ingvi meira en bara góður vinur því aðspurður sagðist hann eiga þrjá afa og var Ingvi þar talinn upp ásamt feðrum okkar. Það var líka svolítið eins og að heimsækja ömmu og afa þegar við fjölskyldan röltum upp til Ingva og Hannýjar og áttum saman gæðastund. Þrátt fyrir að við hefðum flutt úr blokkinni hélt vinskapurinn áfram og komu Ingvi
og Hanný oft í kaffi til okkar. Afar verðmæt er síðasta heimsókn þeirra hjóna enn þá vildi sonur okkar sýna vini sínum að hann væri búinn að læra að lesa og lásu þeir félagar saman.

Við erum ævinlega þakklát fyrir að hafa kynnst þessum góða og einstaklega hjálpfúsa manni en líklega er ekki til sá maður sem er jafn viljugur og Ingvi til þess að bjóða fram aðstoð sína. Við trúum því að Ingvi hefði sjálfur viljað fara á þann hátt sem hann fór, hraustur að veita hjálparhönd, svo sem honum einum var lagið.

Minning um einstakan mann lifir.

Agnes Jóhannsdóttir og Árni Þórólfur Árnason.