[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fram undan er UTmessan, einn stærsti viðburður ársins í tölvu- og tæknigeiranum, en hún er haldin árlega í fyrstu viku febrúar. UTmessan í ár er sú fjórtánda og verður haldin í Hörpu föstudaginn 2. febrúar kl

Fram undan er UTmessan, einn stærsti viðburður ársins í tölvu- og tæknigeiranum, en hún er haldin árlega í fyrstu viku febrúar. UTmessan í ár er sú fjórtánda og verður haldin í Hörpu föstudaginn 2. febrúar kl. 8:30–18:30 og laugardaginn 3. febrúar kl. 10:00–16:00.

UTmessan felur í sér marga viðburði og samanstendur af lokaðri ráðstefnu- og tæknisýningu á föstudegi fyrir fagfólk í tæknigeiranum og opnum tæknidegi á laugardegi auk viðburða úti um allan bæ dagana á undan.

Tilgangur UTmessunnar er að ná saman fagfólki í tölvu- og tæknigeiranum og vera helsti vettvangur fyrirlestra, umræðna, skoðanaskipta og nýjunga í tækni- og tölvugeiranum á Íslandi.

Einnig er UTmessan einn stærsti liðurinn í því að kynna tækni fyrir yngri kynslóðinni og vekja áhuga hennar á að kynna sér og velja tölvu- og tæknigreinar sem framtíðarvettvang.

Þannig leggur UTmessan sitt á vogarskálarnar til að reyna að fjölga þeim sem fara í STEAM menntun (sem samþættir þekkingu á vísindum, tækni, verkfræði, listum og stærðfræði) en fyrirséð er að halda þurfi vel á spöðunum til að fylla í það gat sem er að myndast í þeim starfsgreinum.

Öflugt félag án hagnaðarmarkmiða

Skýrslutæknifélag Íslands, Ský, sem er félag einstaklinga og starfsmanna fyrirtækja/stofnana á sviði upplýsingatækni, setti UTmessuna á laggirnar árið 2011 þar sem vöntun var á sameiginlegum vettvangi og ráðstefnu fyrir tæknigeirann haldinni af óháðum aðila. Ský var stofnað árið 1968 og hefur starf þess sjaldan verið jafn öflugt og nú, en félagið er óháður félagsskapur, opið öllum og rekið án hagnaðarmarkmiða.

Tilgangur Ský er að miðla þekkingu milli þeirra sem starfa við eða hafa áhuga á upplýsingatækni. Félagið býr yfir víðtæku tengslaneti og stendur reglulega fyrir fjölbreyttum viðburðum um upplýsingatækni.

Innsýn í heim stafrænnar framtíðar

Á opnum tæknidegi UTmessunnar í Hörpu laugardaginn 3. febrúar verða fremstu tækni- og nýsköpunarfyrirtæki landsins á glæsilegu sýningarsvæði ásamt menntastofnunum og veita þau innsýn í heim stafrænnar framtíðar.

Þessi risastóra tækniupplifun ársins miðar að því að fræðast og eiga skemmtilegan dag með fjölskyldunni. Þá er opnað upp á gátt í Hörpu og fólk hvatt til að mæta og eiga skemmtilegan dag í heimi tækninnar. Þann dag er frítt inn og öll velkomin á glæsilega dagskrá fyrir alla aldurshópa.

Gestum gefst tækifæri á að prófa alls kyns nýjungar auk þess sem boðið verður upp á þrautir og leiki og ýmsar aðrar skemmtilegar uppákomur fyrir alla aldurshópa, svo sem: Hönnunarkeppni Háskóla Íslands, nýsköpun og hvatning fyrir börn til að taka þátt í og fræðast um lausnir á vandamálum heimsins, gervigreind og sýndarveruleiki. Einnig verða örfyrirlestrar um nýja hugsun fyrir nýjar kynslóðir ásamt vinnustofu um ásetning og þakklæti, Hugmyndasmiðir og Elliðaárstöð.

Fyrirlestur um ódauðleika

Á ráðstefnu UTmessunnar í Hörpu föstudaginn 2. febrúar verða 52 fyrirlestrar á ellefu þemalínum sem eru sérsniðnar að þeim sem vinna við eða hafa áhuga á tækni- og tölvumálum. Fjöldi erlendra og íslenskra fyrirlesara mun stíga á stokk og er efni fyrirlestranna afar fjölbreytt, en komið verður meðal annars inn á nýsköpun, gögn, gervigreind, rekstur, öryggi, fjarskipti, hæfni, sjálfbærni, stafræna þróun, samvinnu og framtíðina.

Aðalfyrirlesari ráðstefnunnar er framtíðarfræðingurinn José Cordeiro, sem fræðir gesti um ódauðleika.

Heiðursfyrirlesari er vísindamaðurinn Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands. Í lok ráðstefnudags mun forseti Íslands veita Upplýsingatækniverðlaun Ský, en tilnefningar til verðlaunanna hafa verið birtar á sky.is.

Arnheiður Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri

Skýrslutæknifélags Íslands (Ský)

UT-verðlaunin

Upplýsingatækniverðlaun Ský (UT-verðlaunin) eru heiðursverðlaun fyrir framúrskarandi framlag til upplýsingatækni á Íslandi.

Hægt er að tilnefna einstakling, fyrirtæki eða verkefni sem hefur skarað fram úr á sviði upplýsingatækni, skapað verðmæti og auðgað líf Íslendinga með hagnýtingu á upplýsingatækni. Áhersla er lögð á að framlagið hafi þegar sannað sig með afgerandi hætti.

Til viðbótar við UT-verðlaunin eru veitt verðlaun í nokkrum flokkum fyrir afrek síðasta árs:

UT-Sprotinn

UT-Stafræna opinbera þjónustan

UT-Stafræna almenna þjónustan

UT-Fyrirtækið í flokki stærri fyrirtækja > 50 starfsmenn

UT-Fyrirtækið í flokki minni fyrirtækja < 50 starfsmenn

UT-Fjölbreytileika fyrirmynd

Eftir að fresti til tilnefninga lýkur velur valnefnd þann aðila sem þykir skara framúr og skal hún vera einróma um valið og rökstyðja það vel. Það verður því spennandi að sjá hver hljóta UT-verðlaunin í ár.