Hryllingur „Þetta er átakanleg kvikmynd og stundum er freistandi að líta undan,“ segir um Snjósamfélagið.
Hryllingur „Þetta er átakanleg kvikmynd og stundum er freistandi að líta undan,“ segir um Snjósamfélagið.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Netflix La sociedad de la nieve / Snjósamfélagið ★★★★· Leikstjórn: J.A. Bayona. Handrit: J.A. Bayona, Berat Vilaplana, Jaime Marques og Nicolás Casariego. Aðalleikarar: Agustín Pardella, Esteban Kukurizka, Francisco Romero og Valentino Alonso. Spánn, Úrúgvæ og Síle, 2023. 144 mín.

Kvikmyndir

Helgi Snær

Sigurðsson

Streymisveitan Netflix hefur reynst frekar mistæk hin síðustu ár og dælt út fleiri lélegum kvikmyndum en vönduðum. Ein þeirra vönduðu kom út nú í haust og nefnist La sociedad de la nieve eða Snjósamfélagið. Hún var frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum í byrjun september og sýnd í Úrúgvæ og á Spáni áður en Netflix gerði hana aðgengilega áskrifendum sínum. Er myndin með þeim betri sem ofanritaður hefur séð lengi vel á veitunni og í raun leitt að geta ekki notið hennar í kvikmyndahúsi.

La sociedad de la nieve er sannsöguleg og segir af einu þekktasta flugslysi allra tíma, þegar flugvél frá Úrúgvæ hrapaði í Andesfjöllum 13. október árið 1972. 16 af þeim 45 sem voru um borð lifðu slysið af og voru það nær eingöngu ungir karlmenn á leið til Santiago í Síle að keppa í ruðningi. Var lagt af stað frá Montevideo í Úrúgvæ.

Eftir ítarlega og árangurslausa leit að flakinu voru farþegar úrskurðaðir látnir en tveimur tókst á endanum að ganga nógu langt í átt að byggð til að láta vita af sér og hinum eftirlifendunum. Voru þá allir nær dauða en lífi enda 72 dagar liðnir frá flugslysinu. Þessi hrollvekjandi saga er rakin í myndinni og frægt er að eftirlifendur lögðu sér hina látnu til munns til að lifa af. Hinir látnu björguðu því lífi hinna lifandi, að segja má.

Vandaður leikur

Þessi nýlega Netflix-mynd er áhrifamikil og einkar vel gerð. Mun eldri bandarísk mynd um sömu atburði, Alive eða Á lífi, frá árinu 1993, þótti heldur slök á sínum tíma og hvað þá núna eftir að þessi kom út. Snjósamfélagið er að öllu leyti vandaðri kvikmynd og langtum áhrifameiri. Reynt er, eftir fremsta megni, að líkja eftir aðstæðum og eins og sjá má af viðtölum við leikstjórann tók það verulega á leikara og tökulið. Má sem dæmi nefna þau atriði sem gerast inni í flaki flugvélarinnar eftir snjóflóð en við tökur þeirra höfðu leikarar lítið sem ekkert pláss. Þykir undirrituðum nokkuð líklegt að innilokunarkennd hafi sótt að þeim.

Tökur myndarinnar voru þrekraun, á því er enginn vafi, þótt aldrei komist hún nærri hinum raunverulegu atburðum, eins og gefur að skilja. Leikarar lögðu mikið á sig líkamlega og á netinu má sjá myndir af því hversu mikið þeir grenntust fyrir hlutverk sín. Nokkrir eru meira í mynd en aðrir og einn er sögumaður myndarinnar, þótt lítið fari fyrir innálestri í henni almennt. Það er leikarinn Enzo Vogrincic sem leikur Numa Turcatti. Leikur hans er laus við ýkjur, líkt og annarra leikara í myndinni, og þá m.a. í þeim atriðum þar sem lítið sem ekkert er talað. Nokkur slík má finna enda persónur við dauðans dyr og orkan lítil sem engin. Eru þau atriði einna eftirminnilegust á heildina litið og styrkur myndarinnar felst ekki síst í því að leikarar eru óþekktir og gefa sig alla í verkefnið. Það er engin stjarna að trufla upplifun áhorfandans, ef þannig mætti að orði komast.

Líður hratt þrátt fyrir lengd

Þetta er löng kvikmynd, 144 mínútur, en líður samt nokkuð hratt og sá sem hér skrifar hefði gjarnan viljað dvelja lengur með þessum áhugaverðu persónum og fá að vita meira um afdrif mannanna. Myndin endar fljótlega eftir björgunina og átakanlegt er atriði undir lokin þegar mennirnir komast undir læknishendur og beinaberir líkamar þeirra blasa við. Fjölmiðlafárið var mikið í kringum þessa atburði og fróðlegt hefði verið að fá frekari innsýn í það og líf mannanna eftir björgun.

Þetta er átakanleg kvikmynd og stundum er freistandi að líta undan. Leikstjórinn Bayona sýnir hina skelfilegu atburði eins nákvæmlega og kostur er enda engin ástæða til að fegra hryllinginn nema þegar kemur að mannátinu. Atriðin sem snúa að því eru auðvitað hryllileg og léttir að hljóð og svipbrigði mannanna eru látin nægja.

Enginn nema sá sem reynt hefur veit hvernig er að upplifa svona martröð og eru henni gerð eins góð skil og mögulegt er í þessari vönduðu kvikmynd.